Skýrslan 2: Af hverju að setja fyrirvara um ófullkomleika mannskepnunnar?

Síðasta málsgrein 1. kafla rannsóknarskýrslu um efnahagshrunið endar á sérkennilegum, en skiljanlegum nótum. Þar er fólki bent á að auðvelt sé að vera vitur eftirá, og það þurfi að hafa í huga þegar skýrslan er lesin.

"Stundum er sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Aðstaðan er vissulega önnur þegar horft er til baka og tóm hefur gefist til að draga saman og vega og meta gögn og upplýsingar í ljósi þess sem síðar gerðist. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða afdrifaríkar ákvarðanir sem teknar hafa verið við erfiðar aðstæður í kapphlaupi við tímann. Víst er að engin mannanna verk eru fullkomin." (Úr fyrsta kafla rannsóknarskýrslunnar) 

Er hins vegar ekki þeim sem taka ábyrgð borgað sérstaklega vel fyrir þessa visku, og þeim treyst til að vera vitrir fyrirfram, þannig að þeir skapi ekki ástand þar sem nauðsynlegt verður að vera vitur eftirá?

Það er ljóst að upplýsingar voru til og stjórnendur höfðu aðgang að þeim, sem sýndu skýrt og greinilega í hvað stefndi; og má segja að það þyrfti ansi þrjóska þverhausa til að loka eyrunum þegar viðvörunarbjöllur klingja yfir hausamótum þeirra. Kannski þeir hafi verið að hlusta á eitthvað allt annað en viðvaranirnar? Eitthvað sem hentaði betur?

Þegar ljóst er að fjöldi viðkomandi aðila hafði beinan fjárhagslegan gróða af þeim ákvörðunum sem "mistök eða vanræksla í starfi" höfðu áhrif á, þá er ekki við hæfi að benda á visku eða heimsku viðkomandi, heldur spyrja hvort að brotavilji hafi verið til staðar.

Smáþjófar fá varla sömu tækifæri til að vera vitrir eftirá og þeir sem eru gómaðir í meiri virðingarstöðum? Þessi viska rannsóknarnefndarinnar er sönn, en ég spyr hvort að hún sé viðeigandi. Eigum við að vera varkár eða vantreysta þeim sönnunargögnum sem felast í skýrslunni, eða nota þau til að mynda okkur traustar skoðanir á stöðu mála?

Eigum við að krefjast réttlætis þegar við sjáum að lög hafa verið brotin, sem beint og óbeint hafa komið öllum Íslendingum illa, og jafnvel orðið til þess að sumir örvænta og framkvæma í kjölfarið hluti sem aldrei er hægt að draga til baka. Eigum við að fyrirgefa fyrr en þeir sem eru að missa heimili sín vegna þessara voðaverka, hafa misst störf, hafa misst eigur; eigum við að fyrirgefa þrjótunum fyrr en búið er að laga hag þessa fólks? 

Eiga þrjótarnir ekki að vinna samfélagsvinnu og beinlínis hjálpa með eigin vinnu öllu því fólki sem þjáist vegna þeirra? Fólki á Íslandi, í Hollandi, á Bretlandi, og víðar?

Sumar ákvarðanir er hægt að fyrirgefa, aðrar ekki, fyrr en búið er að bæta fyrir þær, leita fyrirgefningar og sýna raunverulega iðrun í verki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jonni

Ég held að það sé búið að teygja lopann nógu lengi.  Nú er þessi skýrsla komin og virðist vera hin besta smíð, þótt lengi megi gott bæta.  Nú er ráð að koma þessum Landsdómi á laggirnar, framkvæma dómsferlin og ljúka þessari umræðu um persónur með dómum.  Sama gildir um réttarferlin gegn útrásarliðinu.  Við getum ekki haldið þessu tuði uppi í mörg ár á meðan landið er rjúkandi rúst og þörf að byggja það upp á ný.

Ég vona að Alþingismenn skilji þetta og hefji ekki endalausar umræður um þetta mál.  

Jonni, 13.4.2010 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband