Erum við öll trúleysingjar?

 

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig fólk dæmir kaþólsku kirkjuna harkalega fyrir það að einhverjir prestar innan kirkjunnar hafa misnotað börn, og fyrir það að kirkjan hélt þessum upplýsingum leyndum út á við. Svona eins og þetta væri mikilvægt PR mál sem mætti ekki fara út. Skiljanlega. Minnir á bankaleyndina.

Það er eins og stofnanir sem settar eru saman til að vernda ákveðin mannleg gildi eigi til að snúast í andhverfu sína, eitthvað andlaust skrímsli sem gerir allt sem það getur til að vernda eigin tilvist og til að starfsmenn hennar haldi sínum störfum, og upphaflegur tilgangur og markmið verða að aukaatriði í þessu heljarferli. 

Á íslenskum stofnunum hafa börn verið misnotuð. Í skólum eru til ekki bara lélegir kennarar, heldur arfaslakir sem jafnvel beita einelti á nemendur þannig að þeir bera varanlegt tjón af; á sjálfu Alþingi, þar sem fólk vinnur við að setja lög, er fólk sem hefur brotið lög og séð ekkert rangt við það; til eru jafnvel hjúkrunarfræðingar sem sjá engan tilgang með hjúkrun þegar sjúklingur er langt leiddur; og lögfræðingar sem snúa réttlætinu upp í andstæðu sína með tæknilegum tilþrifum. Það eru jafnvel til uppljóstrara innan skipulagðra glæpasamtaka.

Allar stofnanir hafa þessa einstaklinga innanborðs. Sumar í miklum mæli. Þýðir það að hver og ein af þessum stofnunum séu illar; eða að virkt eftirlit verði að vera til staðar um að hver einasti meðlimur taki virkan þátt í að stefna á gefin markmið af heilindum?

Ég fordæmi ekki Kirkjuna fyrir þessa einstaklinga, frekar en aðrar stofnanir fyrir að innihalda ömurlega einstaklinga sem vinna gegn tilgangi og markmiðum þeirra. Hins vegar held ég að rannsaka þyrfti ráðningarferli einstaklinga í þessi störf. Að auka eftirlit með þeim öllum myndi einfaldlega skapa reglufargan sem á endanum yrði að enn einu stofnanaskrímslinu sem þyrfti að hafa eftirlit með.

Annað mál: Það er gaman þegar fólk hittir naglann á höfuðið. Jón Steinar Ragnarsson gerði það svo sannarlega í athugasemd við eigin færslu: Föstudagurinn obbosslegalangi...

Það er svo óarfi að kalla mig trúleysingja, þótt ég kyngi ekki hrárri einni goðsögunni af þúsundum. Allir eru trúleysingjar í þeim skilningi. Ég trúi bara á einni færri en flestir hinir. Lesið nú bloggin hjá hinum trúuðu og þá sjáið þið forstokkað trúleysi á önnur trúarbrögð eða jafnvel afbrigði innan sömu trúar. (Jón Steinar Ragnarsson)

Mér líkar illa við þá tilhneigingu að stimpla fólk sem eitthvað skilgreint fyrirbæri út frá trú eða trúleysi. Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvað ég er sjálfur þegar kemur að þessum efnum, en reyni að vera opinn fyrir þeim hugmyndum sem mér þykir heilbrigðar, saman hvaðan þær koma. Mér er illa við að fordæma einstakling eða hóp einstaklinga sem safnast saman af sameiginlegri hugsjón eða hagsmunum. Reyndar held ég að íslenskir stjórnmálaflokkar séu í síðarnefnda hópnum, en það er annað mál.

Betra er að velta fyrir sér forsendum viðkomandi hóps og átta sig á af hverju viðkomandi stofnun þykir mikilvæg út frá þeirra eigin viðmiðum. Ég hef upplifað kirkjuna á Íslandi sem frekar leiðinlega og þrjóska stofnun, þar sem oft er predikað af andlausum prestum á grunnhygginn hátt. En síðan eru prestar inni á milli sem geta fært líf í predikun sína og fyllt hana merkingu. 

Það sama get ég sagt um upplifun mína af kaþólskum kirkjum. Ég hef farið í nokkrar messur í Mexíkó og þær eru jafn misjafnar og þær eru margar, en mér hefur líkað gífurlega við sumar þeirra, þar sem presturinn er hæfileikaríkur í mannlegum samskiptum og fær söfnuðinn til virkrar þátttöku.

Ég hef líka farið í kirkjur í Bandaríkjunum, og þar er umhverfið allt öðruvísi. Presturinn verður að vera góður þar, enda borgar söfnuðurinn sem mætir í kirkjuna laun hans, ekki ríkið eða massív stofnun einhvers staðar úti í heimi. Þar hef ég eignast góða vini.

Þegar ég fór til Tælands fyrir langalöngu hafði ég sérstakan áhuga á að ræða trúmál við innfædda, fór inn í gullna musterið í Bangkok á skónum - sem mátti náttúrulega alls ekki - og eftir samræður við innfædda sá ég ekki mikinn mun á trú þeirra og annarra.

Trú er svolítið spes fyrirbæri. Hún þýðir að þú treystir að eitthvað sé satt sem þú veist að hvorki er hægt að sanna né afsanna. Þannig hefur hún lítið með rök eða sannleikann að gera. Bæði trúlausar og trúaðar manneskjur falla stöðugt í þá gryfju að þær geti rökstutt að trú sé annað hvort sönn eða ósönn. Það er einfaldlega ekki hægt, þar sem trúin er fyrir utan umfang þess sem rökhugsun ræður við. Öll rökhugsun þarf á forsendum að halda sem hægt er að vera sammála um. Ef þeir sem rökræða eru í upphafi ósammála um tilvist Guðs, þá geta þeir ekki komist nær neinu sönnu, þar sem forsendur þeirra eiga ekki við. Hins vegar geta þeir sem trúa því sama rökrætt og þróað sín mál á eigin forsendum, án nokkurra vandkvæða.

"Jú, víst," gæti nú einhver sagt. "Að víst er hægt að rökræða þetta."

"Vissulega," gæti Don Hrannar svarað, "Og slíkar rökræður gætu verið skemmtilegar og gefandi, en hins vegar geta þær ekki skorið úr um grundvallarforsendur rökræðunnar sjálfrar séu þær ólíkar."

Þannig eru öll rök í raun gölluð. Þegar tveir hugar koma saman og ræða málin, þá þurfa þeir að átta sig á grundvallarhugtökum og sjá hvort þeir skilji þau út frá sambærilegu sjónarhorni, og ef ekki, þá mun sameiginleg niðurstaða rökræðunnar ekki vera gild í fræðilegum skilningi, heldur munu þær upplýsingar sem báðir aðilar veittu hinum reynast verðmætar til að dýpka skilning á viðkomandi málefni. Því fleiri sem taka þátt í slíkri samræðu, því betra.

En sannleikurinn. Hvað verður um hann? Getur einhver nálgast hann?

Ég held það og trúi því, en veit það ekki. Hins vegar get ég rökstutt þennan grun, réttlætt hann með rökum, og af mikilli sannfæringu reynt að sannfæra þig um að ég hafi rétt fyrir mér. Það þýðir ekki að ég hafi rétt fyrir mér.

Heimspeki og guðfræði eru fræðigreinar sem ég ber mikla virðingu fyrir. Báðar leita þær sannleikans. Munurinn á forsendum þeirra virðist í upphafi vera smávægilegur, en er í raun hyldjúp gjá sem enginn kemst yfir, ekki einu sinni fuglinn fljúgandi. Þessi forsenda er sú að í guðfræði er gefið sem forsenda að Guð sé til - sama hvað það þýðir, en heimspeki gefur sér engar slíkar forsendur, - reyndar gefur heimspekin sér nákvæmlega engar forsendur, og hefur þurft að þola harða gagnrýni fyrir það.

Heimspekin snýst um að átta sig á gæðum og gildum, eitthvað sem verður til á meðan manneskjan lifir og hrærist. Á meðan heimspekin veltir fyrir sér hvað hið góða er út frá öllum mögulegum forsendum, og jafnvel engum líka, þá veltir guðfræðin fyrir sér hvað hið góða er í heimi þar sem guðlegur máttur er til. Heimspekingur gæti velt fyrir sér hvort að allt gott sé hollt, og hvort að allt hollt sé gott, og komist að þeirri niðurstöðu að allt guðlegt sé holt og allt holt guðlegt. Hvernig sú niðurstaða fengist er önnur saga. Wink

Heimspekin leitar heimsins, þekkingar, speki, fegurðar, hins góða, hins rétta, hugsunar, gagnrýni, stjórnskipunar, og þar fram eftir götunum, og reynir að átta sig á hvað allt þetta er, bæði út frá því hvernig við upplifum þessi fyrirbæri og hvernig þau hljóta að vera út frá hugsuninni einni saman, án þess að flækja okkur í kóngulóarvef skynjunar sem getur auðveldlega blekkt okkur, í þeirri von að hugsunin sjálf sé ekki aðeins enn eitt skynfærið sem getur blekkt okkur.

Óþjálfuð hugsun er vissulega á við slíkt skynfæri. Spurning hvort að vel þjálfuð og djúp hugsun komist lengra.

En aftur að Jóni Steinari: það að merkja hann sem trúlausan vegna þess að hann viðurkennir enga eina kenningu umfram aðra, og þar sem hann er stöðugt leitandi að svörum, má sjá að hann hefur einfaldlega ýmis einkenni heimspekings sem leitar án þess að fordæma. Fordæming felur nefnilega í sér þá trú að maður hafi málstað sem er betri en sá sem fordæmdur er.

Í framhaldi af þessu velti ég fyrir mér hvort hægt sé að trúa öllu. Að vera algjörlega auðtrúa, án þess að lenda í mótsögn, eða hvort að slík mótsögn skipti ekki máli fyrir auðtrúa mann? Það virðist ómögulegt að ímynda sér slíkan einstakling, sem bæði trúir því að Guð sé hið góða, sjálft réttlætið, forsenda náttúruhamfara, vísindamaður á tilraunastofu, eineygður gaur í leit að hetjum, kennari hengdur á kross, prins sem hefur afsalað sér öllu veraldlegu fargi í leit að alsælu, upplýst manneskja?

Ég sé í raun ekkert verra við að trúa öllu, en að trúa sumu og ekki öðru, og að trúa engu. Reyndar, þegar maður hugsar um hugtökin allt og ekkert, áttar maður sig reyndar á að þau eiga ekki beinlínis við um mannlega reynslu og eiga fyrst og fremst við um huglægan veruleika, en að sumt og ekki sumt er hnoðað inn í mannlega reynslu sem gerir okkur kannski erfiðara fyrir með að sjá hlutina til enda, vegna þess einfaldlega að við erum mannverur með öllum þeim flækjum sem því fylgir.

 

Mynd: post-gazette.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta snýst ekki um einstaklinga endilega heldur afstöðu. Það er leyndin sem virðist hafa verið kerfisbundin, aðgerðaleysið, sem yfirmenn kaþólsku kirkjunnar viðhöfðu EFTIR að þeim var ljóst að kynferðismisnotkun var beitt sem hneykslar fólk. Varla er neitt til samanburðar við veraldlegar stofnanir að þessu leyti. Þær hafa ekki kóað eins mikið með brotlegum einstaklingum. Kaþólska kirkjan er afar voldug stofnun. Gagnvart henni voru varnarlaus börn sem voru í hennar umsjá. Þetta er því afar alvarlegt mál frá mörgum sjónarhornum. Ekki nema von að menn hneykslist. Og þá gerist gamla sagan: þolendurnir breytast jafnvel í sökudólga, miðgerðarmennirnir, kirkjunnar þjónar og sú stofnun sem kóaði með þeim, verður að nokkurs konar fórnarlambi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.4.2010 kl. 11:12

2 identicon

Já Hrannar.. hvað ætli myndi fá þig til að fordæma kaþólsku kirkjuna... kannski ef prestar hennar nýddust á þínu barni... eða myndir þú bara hugsa: Já þetta eru bara einhver rotin epli þarna innan um... þó það liggi fyrir að kaþólska kirkjan ÖLL tók þátt í þessu... að nauðga og misþyrna amk 15 þúsund börnum á Írlandi; Hundruð heyrnarlausra....
Og takið eftir að málið er rétt að opnast núna, hefur oft byrjað en verið þaggað... þaggað af prestum og svo mönnum eins og Hrannari sem fordæmir ekki gjörðir þessarar kirkju.

Hrannar vill rannsaka mannaráðningar og svona, hlífa kirkjunni; Þessi orð Hrannars eru NÁKVÆMLEGA sömu orð og kirkjan sjálf hefur notað svo oft í gegnum tíðina; Hún kennir forleldrum um, samkynhneigðum.. hún kennir ÖLLUM nema sjálfri sér og geðsjúklingum innan þessarar geðsýkisstofnunar.

Og hvað svo Hrannar; Ætlar þú líka að verka morðin sem þessi kirkja stendur á bakvið, beint og óbeint..... myndi Hrannar verja eitthvað annað en trúarbatterí.... ég efast um það; Múturnar eru svo góðar í trúarbrögðum

DoctorE (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 11:16

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurður Þór: Við erum í kjarnaatriðum sammála.

DoctorE: Gleymdirðu nokkuð að taka oblátuna þína í morgun?

Hrannar Baldursson, 3.4.2010 kl. 13:55

4 identicon

Nú er gaman. Hvert er svarið við spurningunni í fyrirsögn? Er það "nei" þannig að trúaðir játi tilvist guðs en trúlausir ekki en þetta sé bara slík forsenda að ekki sé hægt að ræða hana (aðeins "stökkva" á hana)?

Ég er ekki sammála að tilvist guðs sé ekki hægt að rökræða. Það eru húsbóndahollir guðfræðingar sem halda þessu fram þegar þeir sjá að grundvallarforsenda starfs þeirra stenst ekki.

En ef ég færi rök fyrir að allt guðlegt sé óholt? (Ég gæti tekið hneykslismálin í kaþólsku kirkjunni sem dæmi) Ef ég sýndi fram á að trú hefur meiri slæmar afleiðingar heldur en góðar.

Skúli Pálsson (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 18:04

5 Smámynd: Dingli

Mér finnst þessi grein dúndur fín. Skrif JSR líka. Athugasemdir Sigurðar og Docsa flottar, þó mismunandi séu.

Að hólinu loknu, langar mig til að skjóta einu að. Það virðist nokkuð ljóst að perrarnir hafa hópast í starf presta hjá kaþólikkum. Ástæðan er augljós, mjög gott aðgengi að börnum. Líklega er það sama upp á teningnum varðandi aðrar stofnanir sem "hýsa" börn og þá sérstaklega þar sem þau eru sem varnarminnst svo sem heyrnleysingjaskóla.

Áratugir eða hundruð eru síðan þetta byrjaði og yfirhylmingin hefur staðið alla tíð. Vafalaust hafa margir perrana orðið að yfirmönnum og kaþólska kirkjan virðist svo gegnsýrð af þessu að maður fyllist viðbjóð.

Efast um að DoctorE hafi gleymt að taka skammtinn sinn. Hann ritar bara kjarnyrt og án pempíuskapar.

Dingli, 3.4.2010 kl. 18:38

6 identicon

Ágætis pælingar Don Hrannar.
Og spurning hvort dæma skuli kaþólsku kirkjuna eða ekki þó svo að ég sé á þeirri skoðun að hún hafi gerst sek um leið og yfirhylming og þöggun átti sér stað. Slíkt er ekki hægt að afsaka og allra síst þegar börn eru þolendur.

En hvað varðar þínar spurningu hvort við séum öll trúleysingjar þá langar mig að viðra mína skoðun. Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni ungur maður en eftir sem áður þá trúi ég á góð og gild viðmið og lífsreglur rétt eins og boðorðið 10. Ég trúi á það góða í manneskjunni og það sé undir okkur komið að gera rétt og breyta rétt gagnvart náunganum án þess að eiga einhverja helvítis vist í vændum ef við gerum það ekki. Í þeim skilningi tel ég mig ekki vera trúalausan þó svo að ég aðhyllist ekki eða tilheyri einhverjum skipulögðum trúarbrögðum.

Annars vildi ég svo sannarlega að við værum öll trúlaus hvert og eitt.
Ég þekki til og kannast við fjöldan allan af börnum sem eru trúlaus vegna þess að þau eru enn ómótuð af samfélaginu og þetta eru þeir bestu einstaklingar sem að ég þekki. Þessutan eru þau ópólitísk og hálfgerðir anarkistar sem gerir þau bara enn betri fyrir vikið.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 21:55

7 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góð grein hjá þér að venju. Það er samt staðreyns að skipulega hefur verið unnið að því innan kaðólsku kirkjunnar að hylma yfir barnaníðingum. á Philippseyjum bara eru meira enn hundrað kaðólskir prestar, allt dæmdir barnaníðingar úr öllum heimshornum, í skóli á kostnað Vatikansins...

Óskar Arnórsson, 3.4.2010 kl. 22:47

8 Smámynd: Dingli

Óskar, að meir en hundrað barnaníðingar séu í "endurhæfingu" á vegum kirkjunnar á Filippseyjum!, eru tíðindi sem ég trúi ekki fyrr en ég sé fyrir því 100% sönnun. Ef rétt reynist þarf að hugleiða hvort banna eigi kaþólskuna.

Dingli, 3.4.2010 kl. 23:19

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Listinn er á netinu. FBI sendi tvo fulltrúa þangað og þeir komu ælandi tilbaka. Prestarnir eru að kenna börnum ensku á dagin og misnota þau á kvöldinn. 100 stk í einum haug og ráða öllu á eyjunni...á launum hjá þessum mannandskota sem kallaður er Páfi...

Óskar Arnórsson, 4.4.2010 kl. 00:48

10 identicon

Ætli þú sért ekki aðeins að ýkja núna Óskar. Messur á daginn og kynsvall á kvöldin. Frekar fjarstæðukennt ekki satt. Komdu með sannanir fyrir svona stórum fullyrðingum.

Annars kemur þetta spurningunni um trú og trúleysi í sjálfu sér ekkkert við.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 02:31

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Skúli: Já, það er gaman. Svar mitt kemur í næstu grein. Gott að heyra hvað fleiri hugsa á meðan ég móta mitt eigið svar. Til þess eru jú athugasemdirnar?

Takk Dingli: DoctorE skrifar það kjarnyrt að í skrifunum leynast ósannindi, eins og þegar hann festir sér ákveðna trú um þá sem hann skrifar um.

Eggert: Þín skoðun rímar ágætlega við mína.

Óskar: Gætirðu sett inn tengil á upplýsingarnar frá FBI, svona svo hægt sé að meta betur rök og áreiðanleika staðhæfingarinnar?

Hrannar Baldursson, 4.4.2010 kl. 07:03

12 Smámynd: Dingli

"Trú", er það eitthvað sem þú ert sannfærð-ur um að sé hið eina rétta? Ég er ekki trúlaus, en Biblíu-guðinn finnst mér einn af þeim vitlausustu.

Dingli, 4.4.2010 kl. 07:43

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Í sambandi við sekt og sakleysi Kirkjunnar, þá hefur Kirkjan sjálf ljósa afstöðu: hún fordæmir ofbeldi og misnotkun skilyrðislaust, en stjórnendur hennar á hverjum tíma eru mannlegir og breyskir, rétt eins og stjórnendur allra stofnana, og það eru þeir sem brjóta af sér með yfirhylmingu og veiku geði.

Dingli: Um hvaða Biblíuguð ertu að tala? Þeir virðast vera nokkuð margir miðað við fjölda ólíkra túlkana. Múslimar, Gyðingar og Kristnir hafa sameinast um Guð Gamla Testamentisins og aragrúi sértrúasafnaða innan þessara trúarbragða hafa túlkað hann á sinn hátt; og síðan venda Kristnir kvæði sínu í Kross með Nýja Testamentinu og kynna til sögunnar allt öðruvísi Guð, sem samt er sá sami, en hefur að því virðist fengið nóg af efnislegu réttlæti og stefnir að andlegu réttlæti í staðinn. En að sjálfsögðu er líka aragrúi sértrúarsafnaða á ólíkri skoðun um hver þessi Guð er. 

Hrannar Baldursson, 4.4.2010 kl. 08:07

14 identicon

Hugsið ykkur, íslenska þjóðkirkjan er með fagráð sem á að taka á barnaníðslu og kynbundnu ofbeldi innan kirkjunnar þrátt fyrir að lög um þessa hluti séu alveg skýr. T.d. má nefna 16. grein barnaverndarlaga í því sambandi. Til hvers var þetta fagráð sett? Hvers vegna var mál prestsins á Selfossi sem káfaði á smástelpum sett fyrst inn í þetta fagráð til að velkjast þar áður en það var fært til lögreglunnar? Voru þá aðilar fagráðsins að brjóta lög? Nánar tiltekið 16. gr. barnaverndarlaga?

Valsól (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 08:49

15 Smámynd: Hrannar Baldursson

Valsól: Í alvöru? Ég vissi ekki af tilvist þessa fagráðs. Áttu til heimildir um þessa nefnd og tilgang hennar?

Hrannar Baldursson, 4.4.2010 kl. 10:45

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég skal leita að því Hrannar og setja linkinn inn þegar ég hef tíma. Annars verður þú Hrannar að finna einhverjar heimildir sjálfur um það sem þú skrifar um. Ef þú veist ekki um fagráð íslensku kirkjunar um kynferðisofbeldi, svo mikið sem þær hafa verið í blöðum á Íslandi, ertu illa lesin. Kirkjan er eina stofnuninn og fyrirtækið sem þarf að hafa sérstaka nefnd innan sinna dyra sem bara er um kynferðisvandmál starfsfólks. Og það vita allir.

Óskar Arnórsson, 4.4.2010 kl. 11:52

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

Óskar: ég viðurkenni fúslega að það er ýmislegt sem ég veit ekki, til dæmis um tilvist og markmið þessarar nefndar. Ég get fundið til heimildir þegar ég er að halda fram staðreyndum. Hins vegar hafa þessar greinar verið meira pælingar en heimildarritgerðir.

Gleðilega páska Óskar.

Hrannar Baldursson, 4.4.2010 kl. 19:18

18 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég meinti nú bara að það er búin að vera svo mikil umræða um þessa nefnd t.d. í Selfossmálinu að það hefði ekki átt að fara framhjá þér. Enn auðvitað er ekki hægt að fylgjast með öllu. Þetta er bara nefnd sem á að taka á málum "innahúss" í kirkjunni og er eiginlega kaþólsk uppfinnig ef ég hef skilið það rétt. Annars er ég upp fyrir haus í ógeðslegum málum í minni vinnu flesta daga vikunnar og pæli bara í þessu þegar þarf... Gleðilega páska Hrannar. :)

Óskar Arnórsson, 5.4.2010 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband