Þegar góð manneskja deyr: í minningu Sveins Bjarka

13815 Í dag frétti ég af láti og útför gamals vinar, Sveins Bjarka Sigurðssonar.

Ég sat á skrifstofu minni sem yfirleitt hefur útsýni yfir Oslófjörð, en í dag var fjörðurinn hulinn þykkri þoku. Að horfa yfir fjörðinn var eins og að stara í hvítt myrkur. Þrisvar sinnum í dag hafði ég minnst á við vinnufélaga mína hversu falleg mér þótti þokan. Þeir voru mér ekki sammála. 

Ég hlustaði á útvarpið meðan ég teiknaði myndir í Photoshop fyrir vinnuna. Þá heyrði ég eins og komið væri aftan að mér tilkynningu frá lögreglunni um að í dag færi fram jarðarför rannsóknarlögreglumannsins Sveins Bjarka Sigurðssonar. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Ég hafði ekki vitað af veikindum hans.

Við erum jafnaldrar. Hann sonur kennara míns, Ástu Bjarkar, sem síðar kenndi einnig systur minni. Ásta Björk sat tvö ár við hlið mér í ritlistartímum hjá Nirði P. Njarðvík. Þá vann Sveinn Bjarki í blómabúð föður síns, innan seilingar við HÍ. Sveinn Bjarki er líka frændi góðs vinar míns, Arnþórs. 

Við hittumst ekki oft, en alltaf þegar það gerðist, þá spjölluðum við saman. Síðast hittumst við á Microsoft ráðstefnu í Reykjavík. Við gripum öll hlé sem tækifæri til að ræða málin. Hann hafði fylgst með blogginu hjá mér og hafði gaman af, kallaði mig bíógúrú. Hann sagði mér frá störfum sínum og gantaðist með að hann væri netlögga, að fólk sem niðurhalaði ólöglegu efni skyldi sko passa sig, en síðan minntist hann á hin raunverulegu og erfiðu mál sem tölvulögreglan þarf að fást við, barnaklámið, og við það eitt hvarf hans skæra bros eitt augnablik úr augum hans. 

Sveinn Bjarki var alltaf á áhugaverðum stað í lífinu, frá mínu sjónarhorni séð. Í mörg ár var hann sonur kennarans, og alltaf þegar hann birtist við hlið móður sinnar ljómaði hann af gleði. Ég sá hann aldrei öðruvísi en brosandi og jákvæðan. Ekki einu sinni þegar hann sagði mér söguna af því þegar hann var rændur erlendis af kumpána með hnífi, og í stað þess að vera skynsamur sagðist hann hafa gert það heimskulegasta og klikkaðasta í slíkri stöðu, hann réðst á þjófinn og handsamaði hann. Þjófnum tókst reyndar að skera hann í átökunum. Hann hafði ör til að sanna það.

Svein Bjarka kunni ég vel að meta sem manneskju og hefði verið stoltur af að kalla hann vin, en sjálfsagt værum við flokkaðir sem kunningjar af þeim sem kæra sig um að pæla í slíkum hlutum, en vinskapur var sannarlega okkar á milli.

Sveinn Bjarki var lögreglumaður eins og lögreglumenn eiga að vera, með sterka réttlætiskennd, góðan húmor og mannlega dýpt. Það var gott að ræða við hann um öll heimsins mál, sama hvað bar að. Um tvítugsaldurinn ræddum við stundum saman í glasi á glöðum kvöldum. Viðurkenni ég fúslega að umræðuefnið er löngu horfið úr minni en eimurinn af vináttunni er þarna enn.

Ég missti að mestu samband við Svein Bjarka sem og flesta aðra kunningja mína og vini þegar ég flutti til Mexíkó árið 1998, og hafði í raun ekki náð að kynnast þeim öllum aftur á milli þess að ég kom heim og kreppan skolaði mér út fyrir landssteinana á ný. 

Ég er þakklátur yfir að hafa kynnst Sveini Bjarka. Hann er fyrirmyndarmanneskja. Ég er þakklátur móður hans fyrir að hafa verið mér afar góður kennari og Sveini Bjarka góð móðir. Ég er þakklátur Arnþóri fyrir okkar vináttu og fyrir að vera Sveini Bjarka góður frændi og vinur. 

Ég sendi nánustu vinum og ættingjum Sveins Bjarka innilegar samúðarkveðjur. Það gerði ég á Facebook síðunni hans, og það geri ég aftur núna. Sumir segja að lífið hefjist ekki fyrr en upp úr fertugu. Sveinn Bjarki náði aldrei þeim aldri.

Mér finnst ósanngjarnt að svona lífsglaður einstaklingur, traustur baráttumaður fyrir réttlæti og sannur vinur vina sinna, hamingjusamur fjölskyldufaðir, skuli hrifsaður úr örmum barna sinna og eiginkonu. Það er einfaldlega ekkert rétt við það. Annað en að minning hans markar djúp spor í sál þeirra sem honum kynntumst.

Það er nefnilega meira en að segja það, að vera fyrirmyndarmanneskja, bæði í lífi og minningu. Sveinn Bjarki var slík manneskja. Hann er slík manneskja.

 

24584_402380001409_680786409_4948192_7330124_n

Oslófjörður 19. mars 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Alltaf svo sorglegt að horfa á eftir unga fólkinu.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.3.2010 kl. 22:20

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Mikið eru þetta falleg orð um góða manneskju.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 20.3.2010 kl. 16:02

3 identicon

 thanks for your topic

mbt shoes (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 07:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband