The Imaginarium of Doctor Parnassus (2009) ***1/2

Terry Gilliam er einn af eftirlætis leikstjórum mínum. Hann gerir oft frekar skrítnar myndir þar sem skilin á milli veruleika og ímyndunar eru afar óljós. Ég held að lykillinn að flestum myndum hans felist í að hann gerir þær út frá sjónarhorni ákveðnar persónu í myndinni, og lætur sér ekki nægja skynjun hennar og orðræðu, heldur verða hugarórar og ímyndun óaðskiljanlegur hluti af heildarmyndinni.

Þannig fjallaði "The Fischer King" um mann með geðklofa, og við sáum það sem hann óttaðist og kynntumst af hverju hann óttaðist það. "12 Monkeys" fjallar um mann sem sér sjálfan sig myrtan í annarri persónu, en annað hvort hefur sú persóna sem var myrt verið hann sjálfur í tímaflakki úr fortíðinni, eða þá að hann hefur verið að ímynda sér þetta allt saman. "Monty Python and the Holy Grail" fjallar um leitina að hinum heilaga kaleik, en allar persónur virðast meðvitaðar um að þær eru leikskoppar í gamanmynd. "The Brother Grimms" fjallar svo um ævintýri Grimms bræðranna sjálfra, en ekki sögur þeirra.

Maður hlýtur að minnast á Heath Ledger, en þetta var síðasta kvikmyndin sem hann lék í áður en hann dó. Hann vann Óskarinn í fyrra fyrir hlutverk sitt sem Jókerinn í "The Dark Knight", en hér er hann varla svipur hjá sjón. Persóna hans er ekkert sérstaklega eftirminnileg í hans meðferð, og það er ekki fyrr en Colin Farrell tekur við honum að eitthvað fútt má finna í honum. Bestur allra er Christopher Plummer í titilhlutverkinu, en hann sýnir afar góða takta sem hinn ólánsami öldungur sem lifir við þá furðulegu bölvun að hafa atvinnu af leiksýningum, en geta aldrei klárað neina sögu. 

Þar kemur túlkun mín til sögunnar. Það má líta á hana sem spillitexta, þannig að ef þú ætlar að sjá myndina, slepptu því að lesa það sem eftir er gagnrýninnar þar til þú hefur séð myndina.

Túlkunin:

Ég vil túlka "The Imaginarium of Doctor Parnassus" sem draum heimilislauss manns (Christopher Plummer) sem þráir að eiga sér sögu og vera merkilegri en hann er, en þessi draumur hjálpar honum að sættast við sjálfan sig. Í draumnum er Dr. Parnassus yfir þúsund ára gamall, enda gerði hann fyrir löngu síðan samning við djöfulinn. Hann endurnýjaði samninginn fyrir nokkrum árum, þar sem hann bað um að skipta á eilífu lífi og æsku. Skrattinn fellst á samninginn en laun hans verða að fá dóttur Dr. Parnassus á 16. afmælisdegi hennar. Dr. Parnassus fellst á þetta, enda átti hann enga dóttur og hafði ekki hugsað sér að eignast eina. Hann hafði rangt fyrir sér.

Þegar hér er komið sögu í þessum draumi, er Valentina dóttir hans (Lily Cole) þremur dögum frá afmæli sínu. Skrattinn (Tom Waits) virðist sjá aumur á doktornum og gefur honum séns, ef honum tekst að koma fimm sálum til helvítis á þremur dögum, með því að tæla fimm illar manneskjur inn í töfraspegil, þá fær dóttir hans að sleppa undan örlögum sínum. 

Á leið um London finnur leikhópur Dr. Parnassus mann sem hangir á hálsinum undir brú, en leikhópurinn samanstendur af fjórum einstaklingum, Parnassus sjálfum, Valentina,  hinum unga Anton (Andrew Garfield), og smávaxna Percy (Verne Troyer), sem einnig er helsti vinur og ráðgjafi Dr. Parnassus. Þessi maður er auðmaðurinn Tony (Heath Ledger) sem frægur hefur orðið fyrir góðgerðarstarfsemi, en hann virðist vera minnislaus og ákveður að hefja nýtt líf með leikhópnum.

Hann tekur virkan þátt í að laða áhorfendur að sýningunni sem hefur verið í gangi síðustu þúsund árin eða svo, næstum óbreytt, og poppar hana svolítið upp. Tony slysast til að nota spegilinn nokkrum sinnum, og í hvert sinn sem hann fer inn í hann, breytist hann í útliti. Sundum lítur hann út eins og Johnny Depp, stundum eins og Jude Law, og stundum eins og Colin Farrell, en sá síðastnefndi fer vel með stærsta hlutverkið í heiminum innan spegilsins.

Þessi spegill er merkilegt fyrirbæri. Þegar einhver fer inn í hann, þá hverfur viðkomandi inn í heim ímyndunar sem er bæði ímyndun Dr. Parnassus og þeirrar manneskju sem fer inn í hann. Fari fleiri en ein manneskja inn í spegilinn er ómögulegt að segja til um hvaða ímyndaði heimur verður ofan á. Þessi ímyndaði heimur er að miklu leyti dreginn í anda meistara Salvador Dali, nema hvað hann er stöðugt á hreyfingu.

"The Imaginarium of Doctor Parnassus" krefst þess að áhorfandi fari á hana með opnum hug. Hún er ekki eitthvað sem rennur ljúft í gegn eins og "Avatar", heldur er hún full af hugmyndum og gagnrýni um hluti sem eru ekki allir þar sem þeir sýnast. 

 

Myndir: Wikipedia


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 21.1.2010 kl. 00:34

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gilliam er Idolið mitt og hefur lengi verið. Óumræðanlegur snillingur. Þessa ætla ég að sjá. Það er öruggt.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.1.2010 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband