Ekki er allt gull sem glóir, en samt veljum við það

Þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum, hvort sem það er við að velja fulltrúa í kosningum, kaupa vöru, eða jafnvel velja bíl og íbúð, reynum við oftast að taka skynsamlegar og góðar ákvarðanir. 

Hins vegar blasir við okkur flókið vandamál. Þó við getum greint í hjarta okkar og huga hvað er skynsamlegt og gott, hvernig getum við í raun fundið og valið það sem uppfyllir þessa skilgreiningu í hinum flókna veruleika? Hvernig getum við tekið réttar ákvarðanir?

Kosningasagan, ekki bara á Íslandi heldur um alla veröld, hefur sýnt okkur hve erfitt þetta val getur verið. Oftast endum við á að kjósa í valdastóla einstaklinga sem blekkja og ljúga til að ná fram sínum markmiðum, hagsmunum og hugsjónum. Á auglýsingamarkaði sjáum við svipað mynstur; vörur eru kynntar sem þær bestu, en reynast oft á tíðum vera gagnslaust drasl, og enda sem ódýrar skilavörur eða í endurvinnslu.

Við val á utanaðkomandi hlutum eða fólki erum við líkleg til að gera mistök. Við getum haldið að eitthvað sé skynsamlegt og gott, en síðan kemur í ljós að það var ekki raunin. Þó auðvelt sé að skila vöru sem ekki stenst væntingar, er ferlið við að breyta stjórnvöldum eða leiðtogum miklu flóknara og tímafrekara.

Val okkar stjórnast ekki einungis af skynsemi- og góðvild okkar, heldur einnig af löngunum, fordómum, hégóma, eiginhagsmunum, vináttu, tryggð, hefðum og skammtímasýn. Þessir þættir keppast um athygli okkar, meðan við reynum að velja það sem er raunverulega gott og skynsamlegt. Þetta gerir valið flókið og krefjandi getur reynst að átta sig á hvað við viljum í raun og veru.

Ég hef áttað mig á hversu erfitt getur verið að velja eitthvað utanaðkomandi og vita að það sé gott og skynsamlegt. Til þess þarf ég að ígrunda vel og vandlega hvort valið sé í samræmi við mín eigin gildi. Að velta fyrir sér eigin gildum og hvað telst vera gott og skynsamlegt krefst mikillar vinnu, og þrátt fyrir það er engin trygging fyrir því að lokaniðurstaðan sé sú rétta.

Það er því freistandi að velja það sem glitrar og heillar, þó það beri ekki með sér þann langvarandi hita og styrk sem hið góða og skynsama gerir.

 


Bloggfærslur 13. janúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband