Hvað er verðbólga og hvað veldur henni?
4.2.2023 | 11:57
Verðbólga er brenglun á verði þegar peningar tapa gildi sínu. - Lewis og Forbes (2022)
Síðustu misseri hafa Íslendingar upplifað töluverða verðbólgu. Seðlabanki Íslands hefur þá stefnu að halda verðbólgunni stöðugri þannig að krónan haldi gildi sínu. Þá er markmiðið að árleg verðbólga verði 2.5% að jafnaði. Árið 2022 endaði í 9.6% ársverðbólgu samkvæmt Hagsjá Landsbankans.
Samt hafa sumar vörur hækkað mun meira en 9.6%. Sem dæmi er að ég fer nánast daglega í verslun á Íslandi og kaupi mér þar Coca Cola Light. Í desember kostaði hálfs líters flaska tæpar 140 krónur. Í dag kostar slík flaska 199 krónur. Þetta er dæmi um 40% hækkun á vöruverði, reyndar á hlut sem ekki er neitt sérstaklega vinsæll, en þegar verðbólgan er 10% og varan hefur hækkað um 40%, þá þýðir það aðeins eitt. Ef fólk heldur áfram að kaupa þessa vöru í sama mæli og áður, þá verður verðbólgan mun hærri en þessi 9.6%. Þarna er reyndar dæmi um að fyrirtæki verðleggur vöruna á brenglaðan máta, sem verður reyndar aðeins til þess að fólk hættir líklega að kaupa vöruna hjá fyrirtækinu.
Alls konar fyrirbærum er kennt um verðbólgu. Frá tásumyndum á Tene, til þess að fólk fæst ekki í vinnu nema með mun betri launum eftir COVID-19. Það er nokkuð ljóst að hækkun á húsnæðismarkaði hefur verið gífurleg síðustu árin, einnig að álögur ríkisins í janúar hafa haft jafnmikil áhrif á verðbólgu og önnur ár, en alls ekki í takt við það sem er að gerast í samfélaginu. Það er eins og verðbólga frá ríkinu sé á einhvers konar sjálfvirkni og fólkið í brúnni átti sig ekki á að betra væri að taka mið af ríkjandi ástandi heldur en að rúlla boltanum áfram eins og venjulega, þó að aðstæður hafi gjörbreyst. Það heyrist auðveldlega á innantómum rökum stjórnarliða að þeir hafa ekki verið á tánum, bæði vörn og sókn eru léleg og valdhafar í dag eru að fá ljótan skell vegna þess að þau hafa misst einbeitinguna eða eru illa undirbúin fyrir það sem er að gerast.
Annað eins hefur gerst víða um heim. Ég á í fórum mínum milljarð dollara peningaseðil frá Zimbabwe, sem reyndar var einskis virði, en sá seðill er afleiðing verðbólgu þar í landi sem mátti rekja til mikillar spillingar, þar sem forseti landsins hugsaði mest um eigin hag og hafði engan áhuga á velgengni eigin þjóðar, svo framarlega sem hann fékk sitt. Sambærilegir hlutir gerðust á sjöunda áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum þegar Richard Nixon var forseti, þegar Þjóðverjar í kringum 1920 kenndu bankamönnum og gyðingum um verðbólguna, og Rómverjar í forneskju kenndu kristnu fólki um verðbólguna. Það getur verið vandasamt að finna sökudólginn, en sjálfsagt er málið það að þeir sem stjórna verðlagi á vörum og þjónustu séu þeir sem bera stærstu ábyrgðina.
Þegar kemur að hækkun húsnæðisverðs á Íslandi, þá getum við varla kennt fasteignasölum um, heldur markaðsöflunum, samkeppni um framboð og eftirspurn, sem fólk nýtir sér eða ekki. Vilji fólk eignast þak yfir höfuð sér í stað þess að búa hjá foreldrum eða leigja, þurfa þau að kaupa sér fasteign, og eru í samkeppni ekki aðeins við annað fólk sem er í sömu stöðu, heldur fyrirtæki sem kaupa sér fasteignir til að leigja út. Það er ákveðin spilling, því leikurinn er ekki jafn, hvort sem þú ert manneskja í leit að þaki yfir höfuðið eða fyrirtæki í leit að auknum gróða.
Markaðsöflin ráða líka þegar kemur að verðlagningu í verslunum. Vandinn er sá að við erum háð því að kaupa okkur nauðsynjavörur í matinn, og stundum lúxusvörur eins og Coca Cola Light, en getum valið að hætta að kaupa lúxusvörurnar. Samt hafa matvörur hækkað á síðasta ári, og þá aftur í verslunina sem ég versla mikið við, hækkað um meira en 15% á einu ári, nokkuð sem hlýtur að vera algjörlega á ábyrgð þeirra sem reka verslunina. Af hverju fyrirtækið þarf að auka vöruverð veit ég ekki. Kannski er það vegna þess að það er að borga starfsfólki sínu betur, eða bara þessi ósköp venjulega græðgi. Hver veit?
Það var ljóst að vegna viðskiptaþvingana við Rússa þegar þeir hófu stríð gegn Úkraínu að heimsmarkaðsverð á olíu og gasi rauk upp víða um heim, en hvergi í Evrópu hefur eldsneytið verið jafn dýrt og á Íslandi. Af hverju það er veit ég ekki, en það hlýtur að vera merki um að eitthvað sé að þegar kemur að verðsetningu. Ég gerði mitt besta á tímabili og reyndi að nota strætó, ætlaði að sjá hvort ég gæti tekið virkan þátt í að vernda umhverfið með minni mengun vegna eigin bifreiðar, en komst að því að dýrara var fyrir mig að taka strætó, og þar að auki sótti hann mig ekki í samræmi við tímaáætlun, sem þýddi að þetta reyndist gagnslaust fyrirtæki, í það minnsta fyrir mig.
Í gegnum tíðina hefur ýmsu verið kennt um verðbólgu: slæmt veður, COVID, stríði í Úkraínu, launahækkanir, mikil aukning flóttamanna, tásumyndir á Tene, flatskjáir, græðgi fyrirtækja sem stýrast af markaðsöflum, Krónunni, að húsnæðisverð sé inni í vísitölureikningum, lélegri hagstjórn, slakri stjórnsýslu og þar fram eftir götunum. Getur verið að þetta sé allt eða bara sumt að spila inn í, og meira til?
Þurfum við kannski hvert og eitt að gæta okkar? Það er ekki langt síðan að stjórnvöld ákváðu að setja gjaldeyrishöft á Ísland, og hver veit nema eitthvað svipað sé í kortununum núna, því það er nokkuð ljóst að stjórnvöld eru að missa stjórnina á verðbólgunni, þessari miklu furðuskepnu sem enginn virðist skilja eða þola, en hefur þau augljósu áhrif að verðgildi peninga okkar minnka hratt.
Ég kenni ekki Seðlabankastjóra um verðbólguna, þó að mig langi til þess eftir misheppnaðan húmor hans um tásumyndir á Tene. Hann reynir aðeins að bregðast við henni með þeim tækjum sem hann hefur, eins og stýrivaxtahækkunum. En þær gera bara lítið gagn annað en að valda meiri skaða, sérstaklega þeim sem skulda vegna hárra húsnæðislána sem tekin hafa verið vegna verðlags á húsnæðismarkaðnum.
Stóri sökudólgurinn virðist vera húsnæðismarkaðurinn þar sem einstaklingar (fjölskyldur) og fyrirtæki eru að berjast um sömu eignirnar - og að sjálfsögðu mun halla á einstaklinga og fjölskyldurnar gegn þeim fyrirtækjum sem hafa miklu meiri auð undir höndum. Ef slíkt fær að viðgangast stjórnlaust áfram um ókomna tíð mun það kosta að fólk hefur ekki efni á eigin þaki yfir höfuðið og neyðist til að greiða þessum fyrirtækjum sem keypt hafa húsnæði leigu. Eins og við höfum séð á síðustu mánuðum, þá eru slík fyrirtæki fyrst og fremst að hugsa um hagnaðinn, en ekki fólkið sem býr hjá þeim. En staðreyndin er sú að við þurfum öll þak yfir höfuðið, og það má líta á það sem sjálfsögð mannréttindi að eiga þak yfir höfuðið frekar en að leigja af fyrirtækjum sem metur auðinn meira en manneskjuna.
Þarna er skekkja sem stjórnvöld geta lagað, en þau þurfa að vakna, skilja og sjá fyrst, og ekki gera bara eitthvað út í bláinn. Heldur átta sig á vandanum og taka aðeins á honum.
Þannig blasir þetta við mér í það minnsta.
Mynd eftir Brian Adcock
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)