Sjálfselskan og ástin

Byrjum á örstuttri sögu:

Einu sinni, fyrir langa löngu, byggði vitur garðyrkjumaður gróðurhús. Hann skipti því í tvo hluta. Annar hlutinn var gríðarlega vel skipulagður, var með plöntum sem gáfu af sér bragðgóða ávexti, jurtir sem hægt var að nota við lyfjagerð, og blóm sem ilmuðu betur en nokkuð sem hægt var að finna annars staðar í veröldinni. Hinn hlutinn var hins vegar í algjörri óreiðu, þar uxu plönturnar frjálsar, gáfu ekkert endilega af sér ávexti, lyf eða ilm, og virðast í raun ekki gera neitt gagn, og mörgum gestum þótti furðulegt að þessi öflugi garðyrkjumaður léti illgresið vaxa með þessum hætti. Þegar hann var spurður út í þetta hafði hann svar á reiðum höndum: “Í lífi okkar kynnumst við tvenns konar ást. Einni sem gagnast okkur og annarri sem einfaldlega er til ástarinnar sjálfrar vegna, en henni fylgir engin þrá til að fá eitthvað til baka. Báðar eiga sér stað í tilverunni, en hreinust er sú sem eins og illgresið í garðinum mínum, er verðmætt fyrir það eitt að vera til og ekki fyrir ávexti sína.”


Einhvern tíma ræddi ég við félaga minn um ástina. Hann hélt því fram að öll ást væri sprottin úr sjálfselsku, en ég reyndi að þræta fyrir það, því mér þykir erfitt að smætta ástina, frekar en nokkuð annað hugtak, niður í eina einfalda útskýringu. Ég spurði hvort það væri þá útilokað að fólk til dæmis fórnaði lífi sínu vegna þess að það elskaði eitthvað annað meira en sjálft sig.

Hann svaraði sem svo að það væri útilokað, að ef við elskum til dæmis hugmyndina um frelsi og fórnuðum lífi okkar fyrir hana, þá værum við að gera það af sjálfselsku því við getum ekki hugsað okkur að lifa lífinu öðruvísi en frjáls.

Mér þóttu þetta afar sannfærandi rök og mér þykir það enn í dag, en samt get ég ekki samþykkt þau að fullu. Ég held nefnilega að hægt sé að elska án sjálfselsku, að það sem maður elski þurfi ekkert endilega að gagnast manni. En hugsanlega hef ég rangt fyrir mér.

Samkvæmt þessari hugmynd, þá elskum við allt sem gagnast okkur við að nálgast það sem við þurfum. Samkvæmt hinum fræga pýramída Maslows um þarfirnar, þá þurfum við að uppfylla líffræðilegum þörfum okkar, þurfum öryggi, þurfum að tengjast öðrum og finna fyrir ást, þurfum virðingu, þurfum að geta hugsað vel, þurfum að geta metið fegurð, þurfum að vera við sjálf og þurfum loks að uppfylla andlegar þarfir okkar.

En af hverju að elska aðeins það sem gagnast okkur sjálfum? Hvað um það sem gagnast börnum okkar og ekki manni sjálfum? Þegar ég óska þess að börn mín verði heilbrigð og hamingjusöm vegna þess að ég elska þau, þarf slík ósk að byggja á sjálfselsku? Getur verið til ást sem hefur enga eigingirni í för með sér, enga gagnsemi, sem er bara til þess eins að vera?

Ég held að ástin geti verið skilyrðislaus, að maður þurfi ekki að vænta neins í staðinn fyrir það sem maður gefur. Það má jafnvel líta á ástina sem skyldu okkar gagnvart öðru fólki, því ef við elskum ekki hvert annað, hvert erum við þá að stefna í þessu lífi?





Bloggfærslur 27. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband