Af hverju reisum við turna?
18.9.2010 | 17:32
Turnar eru eitt af undrum veraldar sem ég skil ekki. Í fljótu bragði kannast ég við fimm gerðir hárra turna:
- Kirkjur eða trúarbragðaturnar
- Bankar eða fjármálastofnanir
- Hótel eða ferðamannagildrur
- Útsýnisturnar eða varðstöðvar
- Píramídar
- Skraut, listaverk eða minnisvarðar
Ég ímynda mér að áður en turn er byggður kemur fyrst eitthvað fólk með hugmynd um að byggja skuli turn og síðan þarf slík ákvörðun að vera samþykkt af einhverjum fleirum. Stórt verkefni fer í gang. Mörg mannár fara í skipulag og smíði, og loks þegar byggingin er tilbúin þarf að hugsa um viðhaldið.
Sonur minn byggði eitt sinn turn úr legókubbum. Hann sagðist hafa gert það af-því-bara. Þegar hann ætlaði loks að taka hann í sundur, ákvað hann að kasta leikföngum í hann. Honum að óvörum hrukku leikföngin af turninum. Hann bifaðist ekki. Turninn var traustari en okkur hafði grunað. Okkur fannst það frekar töff. Það tók hann hálftíma að byggja þennan turn, þannig að ekki var þetta neitt stórmál.
En allir hinir turnarnir. Til dæmis Turninn á Smáratorgi. Hann hýsir endurskoðunarfyrirtæki, veitingastað, líkamsræktarstöð, banka, leikfangaverslun og eitthvað fleira. Hann er vel merktur Deloitte, en Deloitte er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í að gefa stórfyrirtækjum ráð í stjórnum eða fjármálum. Ég veit samt ekki hver ákvað að byggja turninn. Og ekki veit ég af hverju.
Ég giska á að kirkjuturnar séu byggðir til að starfsfólk kirkjunnar fái betri yfirsýn yfir söfnuð sinn, en sumir halda því fram að svona turnar séu byggðir til að mynda brú frá jörð til himnaríkis.
Bankamenn byggja turna því þeir sjá sig í samkeppni við alla hina. Sá sem vinnur í hæsta turninum og á hæstu hæð, hann vinnur. Þetta er náttúrulega bara ágiskun. Mér dettur ekkert annað í hug.
Gríðarlega há hótel eru sjálfsagt byggð þannig til að vera áberandi auglýsingaskilti. Því stærra sem hótelið er, því líklegra er að túristar taki eftir því.
Útsýnisturnar eru að sjálfsögðu byggðir til að fylgjast með aðkomufólki.
Sjálfsagt flokkast Frelsisstyttan í New York og Eiffelturninn sem skraut eða listaverk, táknmyndir um eitthvað sem skiptir máli, Frelsisstyttan þá vonandi fyrir frelsi, og Eiffelturninn sjálfsagt bara minning um mann sem hét Eiffel.
Eini píramídinn sem ég hef klifrað upp á, Chichen Itza í Mexíkó, held ég að hafi verið notaður sem útsýnisstúka fyrir konung þegar fylgst var með knattleikjum þar sem leikmenn reyna að koma bolta í gegnum lítið gat en geta aðeins komið við boltann með mjöðmunum.
Svo eru náttúrulega til fleiri turnar. Merkjaturnar sem koma áfram útvarps, sjónvarps eða netmerkjum. Svo eru líka turnar nauðsynlegir til að bora í jörð eftir olíu frá borpöllum. Sjálfsagt flokkast vitar líka sem turnar, en þeir vara sæfarendur við að þeir séu nálægt landi og hjálpa þeim að staðsetja sig.
World Trade Center turnarnir voru merki um mátt hins alþjóðlega efnahagskerfis. Þeir eru eyðulagðir með sorglegum afleiðingum af hryðjuverkamönnum árið 2001 og enn í dag er hið alþjóðlega efnahagskerfi að hrynja.
Turnar eru öflug tákn, jafnvel samstöðumerki. Ef nógu margar hendur taka sig saman um að byggja turn fyrir ákveðinn tilgang, þá hlýtur það að merkja að viðkomandi hópur fólks hafi völd í nágrenni við turninn, og að turninn sé leið til að sýna slík völd.
Í "Lord of the Rings" eftir J.R.R. Tolkien voru tveir turnar tákn um ill stórveldi sem voru að safna kröftum gegn öllum þeim sem ekki gengu í lið með öflunum sem turnana byggðu. Þannig eru turnar táknmyndir fyrir hrátt afl, og þegar um hrátt afl er að ræða, skiptir minna máli fyrir suma hvort það sé gott eða illt - aðal málið er að komast í lið með líklegustu sigurvegurunum.
Þannig eru íslenskir stjórnmálaflokkar. Mest virðing er borin fyrir hæsta turninum í súluritinu. Þeir sem byggja hæsta turninn með öflum atkvæða, fá öll völdin í landinu, og fá að gera það sem þeim sýnist, eru hafin yfir lög og reglur, geta lagt fjölskyldur, heimili og fyrirtæki í rúst með því að veifa litla fingri, og finnst það sjálfsagt bara gaman og eðlilegt.
Hugsanlega hefur engum spurningum verið svarað með þessum vangaveltum, en vangavelturnar hafa þó átt sér stað, og að minnsta kosti ég sjálfur mun hugsa mig tvisvar um og velta hlutunum fyrir mér næst þegar ég rekst á turn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)