Getum við hugsað um ekkert?

Fyrir nokkrum árum sökk ég í djúpar pælingar um ekkert og eftir marga daga, vikur, mánuði eða ár komst ég að þeirri niðurstöðu að hugmyndin um ekkert væri hugsanlega hvaðan hugmyndin um guði og Guð sprettur úr. Fátt er jafn gefandi fyrir mannshugann en að íhuga vandlega ekkertið og hvaða tengingar þetta hugtak hefur við veruleikann.

Þessi hugmynd kviknaði þegar ég var í þjálfun sem heimspekikennari í New Jersey árið 1993. Börnin voru sex ára og hugmyndin var að ræða saman um siðfræðileg mál eins og mikilvægi þess að íhuga af hverju reglur verða til, hvort réttlætanlegt sé að drepa dýr til matar, og hver munurinn er á manneskjum og dýrum er þegar kemur að hugtaki eins og slátrun. Ég vil taka það fram að þessar hugmyndir komu hvorki frá mér né kennsluefninu, heldur eru þetta pælingar sem spretta iðulega upp í samræðum sex ára barna.

Reyndar er oft talað um að börn séu mun grimmari en fullorðnir. Ég held að það sé satt, en ástæðuna tel ég einfalda. Þau eru öll manneskjur og hvert og eitt þeirra hefur sínar eigin skoðanir um lífið og tilveruna, og þessar skoðanir eru jafn réttmætar hjá börnum og hjá fullorðnum. Sex ára barn hefur gífurlega lífsreynslu, sem því miður er oft gert lítið úr. Ég held að börn séu oft grimm því þau fá ekki tækifæri til að vinna úr málefnum sínum með því að ræða saman. Þau kunna það ekki. Þau fá stanslausa ítroðslu á staðreyndum, kenningum og skoðunum kennara, en fá lítil tækifæri til að móta sínar eigin skoðanir, nema með undantekningum - og þaðan spretta snillingarnir.

En hvað um það. Í þessari kennslustund með sex ára börnum sem hófst með því að ég stóð fyrir framan þau og ætlaði að kynna mig, en þá stóð kennari barnanna upp og sagði að þau ættu eftir að flytja "Pledge of Alliegence" þar sem börn tjá virðingu sína fyrir föðurlandinu og fánanum, með algjörlega tómum svip þar sem ekki er hægt að sjá annað en orðin fara bara út um munninn og streyma út í buskann. Svipað og þegar maður situr í kirkju og hlustar á trúarjátninguna.

I pledge allegiance

to the flag
of the United States of America,
and to the Republic for which it stands:
one Nation under God,
indivisible,

With Liberty and Justice for all.

En hvað um það. Í sögu sem ég las fyrir hópinn situr stúlka fyrir framan spegil og veltir fyrir sér hvað andlit hennar er ófullkomið. Augun ekki nákvæmlega rétt staðsett og nefið aðeins á röngum stað, einhverjar tennur skakkar og svo framvegis, en foreldrar hennar höfðu gefið henni þennan innrammaða spegil í afmælisgjöf og hún var að velta fyrir sér hvort það væri vegna þess að þeim fannst að hún þyrfti að passa aðeins betur upp á útlitið. Margar aðrar hugmyndir eru settar fram í sögunni, en börnin festu sig við þessa málsgrein, og þá sérstaklega eina hugmynd sem kom frá þeim sjálfum.

Þessi lýsing er skrifuð eftir minni, og þar sem næstum tveir áratugir hafa liðið, hefur eitthvað af ímyndunarafli mínu tekið við þar sem gleymskan hefur tekið völd.

Spurning eins nemanda hljómaði þannig: "Hvað sjáum við í speglinum eftir að við slökkvum ljósið og horfum samt áfram í hann?"

Það komu bara þrjú svör: 

  1. Svart
  2. Myrkur
  3. Ekkert 

Ég spurði börnin hvað þessi fyrirbæri væru. Þau voru fljót að svara því að svart væri ekki litur, heldur fjarvera alls litar, og að myrkur væri fjarvera alls ljóss. Þegar kom að útskýringu á Engu, þá vandaðist málið.

  1. Eitthvað er eitthvað sem er ekki
  2. Eitthvað er fjarvera hluta
  3. Eitthvað er ósýnilegt
  4. Eitthvað er eins og hvítt, en líka eins og svart, samtímis
  5. Eitthvað er það sem kemur eftir dauðann

Allar þessar hugmyndir voru ræddar, en það að eitthvað væri eitthvað sem kemur eftir dauðann vakti mesta athygli barnanna. 

"Það er ekki satt, við förum til himnaríkis þegar við deyjum," sagði eitt barnið. "Já, það kemur svona ljós í göngum og við förum inn í það."

"Nei," sagði einn svolítið kokhraustur strákur. "Það er vísindalega sannað að maðkar éta okkur. Hugsið ykkur hvað væri óþægilegt að vita af því. Þið sem haldið að ekkert sé eftir dauðann eða himnaríki, þið vonist bara til að komast hjá sársaukanum sem fylgir því að vera étinn af möðkum."

Óneitanlega var þessi hugmynd svolítið óhugnanleg, en þá sagði eitt barnið. "Við vitum ekki hvað verður um okkur þegar við deyjum, en getum við ekki útilokað ekkertið?"

"Nú? Af hverju?" spurði ég.

"Ekkertið getur ekki verið til. Ef ekkert væri til, þá væri ekki neitt annað. Við gætum ekki upplifað ekkert, því það er ekki til staðar, og ef það er ekki til staðar gætum við ekki heldur verið til staðar til að upplifa það."

"Nei," sagði annað barn. "Við getum ekki upplifað það því þegar við erum dauð erum við ekki lengur til. Þess vegna sjáum við ekkert."

"Hvað nákvæmlega er þetta ekkert?" spurði annað barn.

"Ekkert er ekki eitthvað. Þegar eitthvað er ekki lengur, þá er ekkert," sagði eitt barn.

"En ef það er ekki lengur, þá var það kannski og verður, og ef eitthvað var eða verður, þá getur það varla verið ekkert?" spurði annað barn.

"Hausinn á mér," sagði eitt barn. "Mig svimar, þetta er svo erfitt."

"Já," sagði ég. "Á meðan við veltum hlutunum fyrir okkar getum við fundið til þreytu og svima, rétt eins og í leikfimi, að líkaminn þreytist við mikla áreynslu. Við jöfnum okkur þegar við förum að hugsa um annað."

En það sem virðist gera eftir svona kennslustundir er að börnin fara með hugmyndirnar heim til foreldra sinna og ræða málin við þau. Flestir foreldrar eru þakklátir slíkum samræðum, en svo eru sumir sem hneykslast á að skólinn skuli leyfa börnum að hugsa um hvað sem er. Og kröfur þeirra foreldra hljóma oft ansi hátt og verður til þess að forðast er að nálgast frjálsa hugsun eins og þá sem heimspekin boðar.

Samræðurnar héldu áfram. Ekki fullkomnar. Engan veginn. Sum börn virtust vera með hugann við annað, og sum börn hvísluðust á, nokkuð sem kom í ljós eftir tímann að pirraði kennarann sem sat aftast í stofunni, gífurlega mikið. Hann heyrði ekki samræðuna, hann sá bara hegðunina. Það fannst mér merkilegt. Málið er að maður getur ekki reiknað með einum öguðum þræði í slíkum samræðum, heldur verður maður að hlusta eftir þeim hugmyndum sem hafa möguleika til að vekja aðrar hugmyndir. Hugmyndir sem erfitt getur verið að festa niður.

Eftir nokkrar mínútur þar sem börnin voru í raun að slaka á með því að fara út um víðan völl kom spurning sem hélt samræðunni um ekkert áfram:

"Getur ekkert verið til?" 

Þögn sló á hópinn. Og annað barn spurði:

"Getum við gert okkur hugmynd um ekkert?"

Og annað barn sagði. "Ég bara hef ekki hugmynd um hvað ekkert er. Getum við hugsað um ekkert, ef það er ekki til og við getum varla gert okkur hugmynd um það?"

Þá hringdi bjallan og ég þakkaði börnunum fyrir þátttökuna. Þau stigu brosandi á fætur og ýttu stólum sínum í hefðbundnar raðir. Þau þökkuðu mér fyrir komuna og ræddu aðeins við mig um Ísland og hvernig Ísland hefði átt að heita Grænland og Grænland Ísland, og spurðu mig hvort ég spilaði körfubolta af því ég var svo stór, og þar fram eftir götunum.

Síðan ræddi ég aðeins við kennarann frammi á gangi. Þar sem ég hafði upplifað gífurlega flóru af spennandi hugmyndum, hafði hann upplifað frekar óagað umhverfi þar sem sum börn komust upp með að leika sér með blýant milli fingranna. 

Jæja, þetta hafði nú bara verið fyrsta heimspekikennslustund mín með börnum, og ekki gæti hún verið fullkomin frekar en annað - þó að mér hafi fundist hún ákaflega spennandi og gefandi. Eftir þetta hef ég varið hundruðum klukkustunda á sambærilegan hátt, á Íslandi, í Bandaríkjunum, Mexíkó og Suður Ameríku. Og alltaf tekst samræðunum að taka á sig spennandi mynd. 

En hvað segir þú?

Getum við gert okkur hugmynd um ekkert? Og ef þú getur gert þér hugmynd um ekkert, geturðu lýst henni? Það væri gaman að sjá tilraunir til þess á athugasemdakerfinu. Engu skiptir hvort hugmyndin sé fullmótuð eða ekki, fullkomin eða löskuð, klaufalega orðuð eða vel. Allar athugasemdir velkomnar.

Sumir hafa viljað þagga niður í umræðum um ekkert með því að kalla þær orðaleiki og einskis virði, en hvernig geta umræður verið einhvers virði nema þær séu ástundaðar?

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:


Loks vil ég þakka Óskari Arnórssyni með athugasemd sinni númer 115 í færslunni Eru trúaðir heimskari en trúlausir? og öllum hinum sem virkan þátt hafa tekið í athugasemdum fyrir að hvetja mig áfram eftir þessum brautum. Mér finnst svona heimspekilegt blogg mun áhugaverðara en pólitískt gagnrýnið blogg, sem þó er vissulega nauðsynlegt og gagnlegt, en þetta er meira uppbyggjandi fyrir þá sem vilja þjálfa sig í því sem vantar mikið í samfélag okkar: samræður þar sem þeir sem eru ósammála geta fundið sameiginlegan grundvöll og hlustað hver á annan. Við eigum kannski ennþá langt í land, en þetta er leið sem mig langar að skoða.


Bloggfærslur 7. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband