Eru trúaðir heimskari en trúlausir?
5.8.2010 | 05:14
Áberandi hefur verið í umræðu um trúarbrögð og trúleysi að "hinir trúlausu" telji greind "hinna trúuðu" eitthvað verri en hinna sem trúlausir eru. Ég vil velta fyrir mér hvort að þetta sé satt.
Ég get vel séð að rökhyggjufólk skori hærra á SAT og IQ prófum en aðrir sem engan áhuga hafa á rökum. Það er ekki ólíklegt að margir þeirra sem aðhyllist rökhyggju skori hátt á slíkum prófum, hvort sem viðkomandi eru trúaðir eða trúlausir.
Það er enginn frímiði á gáfnafar að skrifa sig á lista meðal trúlausra, sérstaklega ef þú heldur að skráning þín á slíkan lista auki gáfnafar þitt.
Ekki gleyma því heldur að gáfnapróf mælir gáfur út frá ákveðnum viðmiðum. Trúarbragðagreind er ekki ein af þeim gáfum sem gáfnapróf mæla, og væri áhugavert að sjá hverjir skoruðu hærra á slíku prófi, hinir yfirlýst trúlausu, hinir yfirlýst trúuðu, eða þeir sem eru með neinar yfirlýsingar.
Þess fyrir utan þykir ekki staðfest að neitt gáfnapróf sem búið hefur verið til mæli raunverulegar gáfur, heldur aðeins afmarkaða hæfileika sem viðkomandi hefur fengið þjálfun í eða þjálfað sjálfur. Greind er nokkuð sem er afar erfitt að skilgreina og festa reiður á, rétt eins og trúarbrögð. Að rannsaka samhengi á milli greindar og trúarbragða hlýtur að verða afar loðið, og að taka niðurstöður slíkra rannsókna án þess að kynna sér aðferðafræði viðkomandi rannsóknar, skilgreiningu hugtaka, þá hópa sem voru mældir, og setja niðurstöðurnar í Slideshow inn á YouTube, sýnist mér ekkert sérstaklega gáfulegt, ekki frekar en áróðursmyndbönd eru yfir höfuð.
Þarna vísa ég í myndbandið, Are Religious People Smarter?, sem mér sýnist sett upp sem áróður frekar en eitthvað sem mark er á takandi. Það er of einhliða um sína afstöðu og tekur aðeins dæmi sem styðja eigin ályktanir. Þarna er verið að setja trúarbrögð upp sem skrípamynd.
Almennt er talað um tvær gerðir gáfna: faglega og praktíska, og hefur þessum gáfum verið skipt niður í átta greindarsvið í kenningum um "Multiple Intelligences", eða fjölgreindir og hugsanlega eru greindarsviðin fleiri. Þar fyrir utan er sérhver greind skilgreind útfrá ákveðnum eiginleikum, sem eru ekki allir endanlega ákvarðaðir, sem hægt er að læra markvisst, til að geta talist greindur á viðkomandi sviði.
Mig grunar að lykillinn að gáfum sé aðlögunarhæfni, og hafi manneskjan fasta lífsskoðun, sama hver hún er, hvort sem hún er trúuð eða trúlaus, þá mun viðkomandi eiga erfiðara með að aðlaga sig nýjum aðstæðum.
Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun og vísindi:
- Af hverju enda umræður um trúmál oftast í vitleysu?
- Eru vísindalegar sannanir mögulegar?
- Eru hvorki trúarbrögð né trúleysi til?
- Af hverju óttast bæði trúaðir og trúleysingar að tapa sannfæringu sinni?
- Af hverju pirrar gagnrýnin hugsun um trú þá sem engu þykjast trúa?
- Við krefjumst gagnrýnnar hugsunar, en vitum við hvað gagnrýnin hugsun er?
- Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?
- Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?
- Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?
- Er predikun guðleysis klám?
Þessa grein skrifaði ég sem svar við athugasemd 100 í síðustu færslu, Af hverju enda umræður um trúmál oftast í vitleysu?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (227)