Af hverju enda umræður um trúmál oftast í vitleysu?
2.8.2010 | 05:01
Hópur manna sem kenna sig við trúleysi hefur verið áberandi í umræðum um trúarbrögð á blogginu, og hamrað svo stöðugt á þeim sem voga sér að tjá trú, að þeir síðarnefndu voga sér ekki að taka þátt og velja frekar að ræða saman þar sem umræðan nær ekki eyrum þessa litla en ofsafengna hóps sem virðist vilja stjórna allri umræðu um trúarbrögð og virðast ekki átta sig á að afleiðingar slíkrar hegðunar er einfaldlega sú að á þá verður ekki hlustað, að þeir verða sem heild fordæmdir af hinum þögla meirihluta. Að þeir átti sig ekki á þeim skaða sem þeir valda eigin afstöðu er mér ráðgáta.
Einn stór misskilningur, jafnvel hjátrú, er að fólk sem er á öndverðum meiði geti ekki rökrætt mál. Dæmi um slíkt eru þrætur trúleysingja og trúaðra, þar sem báðir eru svo sannfærðir um eigin málstað að þeir hafa engan áhuga á finna sameiginlegan flöt á umræðunni. Þegar ákveðin afstaða er fyrirfram tekin og hún rökstudd án tillits til sjónarmiðs þeirra sem hafa ólíka afstöðu, þá er um kappræðu að ræða. Í kappræðum skiptir minna máli hvað er satt og hvað er rétt, en meira máli að vera sem mest sannfærandi í máli, og fá sem flesta í sama lið. Þar er dygð að valta yfir andstæðinginn. Í samræðu er andstæðingur hins vegar ekki til.
Það eru sterk fordæmi fyrir slíku karpi á Íslandi, því miður, og fer þar hörðust fram stétt stjórnmálamanna sem virðast engan áhuga hafa á að líta út yfir eigin sandkassa, en samt með örfáum undantekningum skynsamra einstaklinga sem vekja veikar vonir undirritaðs. Ef þingmenn færu að rökræða mál á samvinnugrundvelli í stað þessara eilífu kappræðna, þá færi kannski eitthvað jákvætt að gerast í þeim búðum, fyrir þjóðina.
Kappræður eru ekki það sama og samræður. Samræður eru ólíkar kappræðum að því leyti að markmiðin eru gjörólík, sem og aðferðirnar. Markmiðið með samræðu er ekki að vera sannfærandi eða koma með sannfærandi rök, heldur finna hvað er satt og rétt í því mæli sem er rætt, og bæði læra af og fræða viðmælendur. Á meðan mikilvægasta tæki kappræðumannsins er að vera mælskur og tala sem mest, óháð hversu skýrar hugmyndirnar eru, er mikilvægast fyrir þá sem taka þátt í samræðum að hlusta, og greina í sundur það mikilvæga frá hinu sem er það ekki, að rök séu skýr og greinileg, að afstaða til samræðu sé til staðar.
Það sem er sameiginlegt með kappræðum og samræðum er að hvort tveggja er kallað rökræður, en menn átta sig ekki alltaf á að ólíkt eðli þessara rökræðna skapa gjörólíkar forsendur fyrir málflutningi. Mig grunar að oft hafi þeir sem eru að tala saman ekki hugmynd um þennan greinarmun á milli samræðna og kappræðna, og láti þess í stað aðeins brjóstvitið ráða, en huga lítið að því að hugsa um hvernig við hugsum og hvernig við tengjum hugsanir okkar við ræðu og hvernig ólíkar ræður tengjast. Ég hef einnig tekið eftir þessu meðal enskumælandi félaga minna og kemur þeim sífellt á óvart þegar ég geri skýran greinarmun á "debate" og "dialogue", eða kappræðum og samræðum, og óska eftir að kappræður fari fram annars staðar, en samræður á meðal okkar. Yfirleitt byrjar ferlið með smávægilegum árekstrum, en þegar fólk fer að kannast við leikreglurnar, þá fara af stað samræður sem allir geta lært af.
Ég gerði tilraun hér á þessu bloggi til að koma af stað samræðu um trúarbrögð, og finnst nokkuð vel hafa tekist til, þó að sumir gestir hafi mætt í kappræðuskapi og verið duglegir að nota ad-hominem rökvilluna til að geta lítið úr þeim sem voru á öðru máli eða ræddu málin í tóni sem öðrum líkaði ekki. Sumir læra að ræða saman, aðrir þrjóskast við. Þannig er þetta bara. Þeir sem læra ekki samræðutækni falla sjálfkrafa út. Aðeins þeir hæfustu komast af. Ég er ánægður með útkomu þessarar tilraunar, þó svo að sumir einstaklingar virðist hafa einbeittan áhuga á að gera sem minnst úr öllum þeim skoðunum sem ekki koma úr þeirra herbúðum.
Þrátt fyrir kaldar kveðjur mínar til kappræðna, þá vil ég taka fram að kappræður geta haft fræðandi gildi þegar þeim er vel stjórnað og takmarkanir þeirra meðvitaðar öllum sem taka þátt í viðkomandi umræðu, og þær geta verið gagnlegar þeim sem hafa áhuga á að skilja málefni út frá ólíkum sjónarmiðum - en það að rökin miða að því að sannfæra frekar en að fræða, gerir kappræðuhefðina að hálfgerðum bófa, sem rænir öllu vitrænu úr samhengi. Enda voru þeir Sókrates og Platón frægir fyrir að fordæma kappræðukennara sem sófista, sem helstu óvini vitrænnar samræðu. Skal ég ekki dæma um hvort að rétt sé að fordæma alla kappræðu, en ljóst er að ef sá sem ástundar kappræðu og veit það ekki, þá er sá hinn sami í vondum málum, sérstaklega ef viðkomandi hefur einhver völd, og ennfremur sé hlustað gagnrýnislaust á málflutninginn.
Samræðuhefð er sú hefð sem heimspekingar reyna að fylgja eftir, yfirleitt í frekar stóru samhengi, þar sem þeir halda áfram samræðum sem hófust fyrir árhundruðum síðan og passa sig á að taka tillit til og bera virðingu fyrir skoðunum einstaklinga sem fyrir löngu eru fallnir frá. Stundum gleymist þó að bera sambærilega virðingu fyrir þeim sem eru á lífi í dag og hafa eitthvað til málanna að leggja, sem er að mínu mati álíka slæmt og að hunsa forfeður okkar.
Það eru til ólíkar gerðir samræðuforma, og öll eru þau góð, en gegna ólíku hlutverki. Bloggsamræðan er frekar nýtt form fyrir samræður, þar sem þeir sem áhuga hafa á málefnum geta skrifað athugasemdir við færslu, eins og þessa, og komið með sína eigin sýn á málið. Þetta form er ólíkt þeirri vönduðu aðferð og öguðu vinnubrögðum sem krafist er af atvinnuheimspekingum sem vinna í hugmyndum þeirra sem eru ekki lengur til staðar, en er meira í líkingu við samræður yfir eldhúsborði, með þeirri undantekningu að allt sem sagt er hefur verið skráð og verður geymt á skráðu formi hugsanlega í einhver ár eða jafnvel aldir.
Hver veit hvað afkomendur okkar munu hugsa um blogggreinar og athugasemdir sem þessar. Verða þær hluti af stærra samræðuformi í framtíðinni eða falla allar þessar pælingar í gleymsku með tíð og tíma?
Mig grunar að kappræðurnar gleymist en samræðurnar verði geymdar og varðveittar langt inn í framtíðina, því þar er hægt að finna kjarna sem kappræður eru aðeins megnugar að skauta yfir eins og beljur á svelli.
Eins og áður, bíð ég lesendur velkoman að skrifa athugasemdir við þessa grein og ræða saman. Ég get ekki lofað að svara öllum athugasemdum, enda tekur slíkt tíma, nokkuð sem ég hef í takmörkuðum mæli, en ég les þær allar af miklum áhuga.
Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun og vísindi:
- Eru vísindalegar sannanir mögulegar?
- Eru hvorki trúarbrögð né trúleysi til?
- Af hverju óttast bæði trúaðir og trúleysingar að tapa sannfæringu sinni?
- Af hverju pirrar gagnrýnin hugsun um trú þá sem engu þykjast trúa?
- Við krefjumst gagnrýnnar hugsunar, en vitum við hvað gagnrýnin hugsun er?
- Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?
- Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?
- Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?
- Er predikun guðleysis klám?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (152)