Er Guð dauður?
12.8.2010 | 05:55
Guð er dauður. Guð verður áfram dauður. Og við höfum drepið hann. Hvernig getum við huggað okkur, mestu morðingja allra morðingja? Það sem var heilagast og mest af öllu því sem þessi heimur hefur til þessa átt hefur blætt til dauða undan hnífum okkar: hver mun þrífa upp þetta blóð? Hvaða vatn getum við notað til að hreinsa okkur? Hvaða sáttahátíðir, hvaða heilögu leiki þurfum við að finna upp? Er mikilfengleiki þessa verks ekki of mikill fyrir okkur? Verðum við sjálf ekki að verða guðir til þess eins að virðast geta staðið undir þessu verki? - Nietzsche, Hin Kátu Vísindi, þáttur 125.
Þannig hugsaði ég þetta: ef Guð er dauður, þá verður flestum sama um þessar greinar, en sé ennþá líf í Guði, munu greinarnar fá einhver viðbrögð.
Engar af þeim greinum sem ég hef skrifað á blogginu hafa fengið jafn mikil viðbrögð og þessar síðustu 12 greinar. Þannig að Guð er sprelllifandi.
Hver er annars merkingin með spurningu eins og þeirri hvort að Guð sé lifandi eða dauður?
Ég held að líf Guðs felist í þeim áhuga sem öll umræða um hann vekur. (Ég vísa til Guðs í karlkyni orðsins vegna, ekki vegna þess að ég tel Guð vera kynbundna veru, enda aldrei séð neina handbæra sönnun á tilvist kynfæra slíkrar veru.)
Nietzsche hefur verið slegið upp sem gaurnum sem fullyrti um dauða Guðs. Að sjálfsögðu hefur skoðun Nietzsche verið einfölduð og honum lagt ýmislegt í munn, bæði vegna einfeldningslegrar túlkunar á texta hans, sem og hagræðingu Elizabeth Nietzsche á skrifum bróður síns Friedrich Nietzsche til að kenningar hans féllu betur að heimsmynd nasista, nokkuð sem Friedrich Nietzsche hefur sjálfsagt haft óbeit á, enda segir sagan að hann hafi slitið samband við sinn besta vin vegna rasisma hins síðarnefnda.
Það sem fékk Nietzsche til að fullyrða að Guð væri dauður, var meira gagnrýni á spillingu og óheiðarleika í þýsku samfélagi samtíma hans, þar sem fólk með rotið siðferði þóttist trúað og hagaði sér í samræmi við helgiathafnir kirkjunnar, en lifði ekki í samræmi við kristið siðferði. Honum blöskraði tvískinnungur stjórnmálamanna og auðmanna.
Hugmyndir hans um ofurmennið, manneskju sem þurfti ekki á trúarbrögðum að halda til að komast til menntunar, er svo annar merkilegur þráður í sömu sögu. Stóra spurningin er hvort að hver einasta manneskja sé þess fær að vera ofurmenni, eða hvort fáeinir séu dæmdir til þess og fjöldinn muni ávallt fylgja hinum fáu sterku.
Ef fjöldinn fylgir þessum fáu sterku, hvort ætli sé betra að fjöldinn fylgi í kjölfar flóðhests sem aldrei bifar, kirkjunnar, eða stjórnmálaafls sem sveima eins og hrægammar í leit að dauðum flóðhestum?
Síðan Nietzsche lifði höfum við séð afleiðingar þess að fylgja ofurmennum. Við þurfum ekki að líta á dæmi úr sögu fasista, nasista og kommúnista. Það er nóg að líta í okkar eigin barm, á ofurtrú okkar á stjórnmálaelítu og útrásarvíkingum. Hún er sama eðlis.
Þessi ofurmenni koma og fara, en trúarbrögð virðast standa af sér hvert fárviðrið á fætur öðru, enda eru skilyrðin að baki ofurmenninu annars vegar og trúarbrögðum hins vegar afar ólík. Ofurmennið er mannlegt og dauðlegt, og þarf ekki að gera nema ein mistök til að missa tök sín á samfélaginu. Trúarbrögð eru hins vegar ómannleg og ódauðleg, enda samanstanda þau af samfélagi fólks og tengslum einstaklinga, en byggja ekki á einstaklingunum sjálfum.
Hópar eru sterkari en einstaklingar. Hópar með hugmyndir sem fólk er tilbúið að gefa lífið fyrir eru sterkari en hópar sem hafa ekkert fram að bjóða. Það þarf ekki nema tvo til þrjá einstaklinga til að halda lífi í trúarbrögðum sem virðast vera að deyja út, en svo geta þau blossað út og blómstrað allt í einu á nýjan og óvæntan hátt vegna breyttra aðstæðna í mannlegu lífi.
Er Guð dauður?
Nei. Guð er lifandi, að minnsta kosti sem spennandi hugtak, hugtak sem hvetur okkur til að velta fyrir okkur lífsgildum, þekkingu og takmörkunum.
Það merkilegasta við þetta allt er að þeir sem halda mestu lífi í Guði eru þeir sem flokka sig sem trúlausa, en þeir eiga það til að gefa þessum umræðum spennandi og skemmtilegt líf.
Vissulega eru vegir Guðs óvæntir og órannsakanlegir.
Guð er dauður. -Nietzsche
Nietzsche er dauður. -Guð
Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun, heimspeki og vísindi:
- Getum við hugsað um ekkert?
- Eru trúaðir heimskari en trúlausir?
- Af hverju enda umræður um trúmál oftast í vitleysu?
- Eru vísindalegar sannanir mögulegar?
- Eru hvorki trúarbrögð né trúleysi til?
- Af hverju óttast bæði trúaðir og trúleysingar að tapa sannfæringu sinni?
- Af hverju pirrar gagnrýnin hugsun um trú þá sem engu þykjast trúa?
- Við krefjumst gagnrýnnar hugsunar, en vitum við hvað gagnrýnin hugsun er?
- Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?
- Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?
- Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?
- Er predikun guðleysis klám?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (92)