Eru vísindalegar sannanir mögulegar?

Þegar ég heyri frasann að eitthvað sem erfitt getur verið að útskýra hafi verið vísindalega sannað og sé þar af leiðandi sannleikur, vakna strax sterkar efasemdir. Ég vil taka fram að ég geri greinarmun á sönnunum sem framkvæmdar eru með vísindalegum vinnubrögðum, en þær eru án nokkurs vafa möguleg, enda er slíkar sannanir einfaldar í eðli sínu, hlutlægar og hægt að sannreyna þær með endurtekningu á tilraunum. "Vísindalegar sannanir" er hins vegar stærra hugtak, og á við þegar verið er að byggja kenningar og hugmyndafræði á sönnunum vísinda, þegar verið er að skapa nýja heimsmynd út frá þekktum staðreyndum.

Ég held að slíkar vangaveltur séu á sömu nótum og trúarbrögð, verið er að búa til sögur sem sannfæra nútímamann hvers tíma um hvernig heimurinn er í raun og veru, og af hverju hann er eins og hann er. Um leið og reynt er að gera heiminn skiljanlegri með flóknum vísindalegum kenningum, fjarlægjumst við veruleikann. Ekki misskilja mig, ég hef mjög gaman af flóknum vísindalegum kenningum, rétt eins og mér finnst goðsögur afar áhugaverður þáttur í mannlegri tilveru, en þegar rannsóknir eru farnar að fjalla um "hjónabandsgen" eða það að alheimurinn þenjist út eins og blaðra, þá erum við komin aðeins út fyrir umráð vísindalegra vinnubragða.

Ég held að vísindalegar sannanir séu ekki mögulegar frekar en kringlóttir þríhyrningar eða giftir piparsveinar. Þetta eru tvö hugtök úr sínum hvorum fræðiheiminum, vísindin úr heimi reynslu og skynjunar sem nota á síðari stigum rökhugsun og stærðfræði, og hins vegar sannanir úr heimi formlegrar rökfræði og stærðfræði, sem hafa ekkert endilega neitt við heim skynjunar að gera.

Það er hægt að sanna afleiður og aðleiður hafirðu fyrirfram gefnar forsendur. Formleg rökfræði og stærðfræði gefa sér slíkar forsendur og út frá þeim tekst að sanna ýmislegt. Hins vegar geta vísindin ekki gefið sér slíkar forsendur, án vafa. Vísindin skapa kenningar um allt milli himins og jarðar, og byggja þessar kenningar á því sem við getum skynjað. Finnist samsvörun á milli þess sem við skynjum og veruleikans sem við reynum að greina, og takist okkur að finna óskeikul lögmál, þá er afar freistandi að tala um lögmálið sem eitthvað satt um heiminn, jafnvel sannleika.

Þó að við teljum lögmálin eiga við alltaf og alls staðar, er sá möguleiki þrátt fyrir allt til staðar að einhvern tíma eða einhvers staðar eigi lögmálið ekki við, og sé þar af leiðandi ekki það lögmáli sem við héldum að það væri.

Hugtakið "vísindaleg sönnun" er trúarlegt hugtak frekar en vísindalegt. Þeir sem nota það, skilja sjálfsagt ekki fyllilega það viðhorf til vísinda sem vísindamenn þurfa að temja sér. Vísindamenn átta sig á að rannsóknir þeirra eiga við um afmarkaðan hluta af veröldinni og skilja að sönnun hljóti að vera eitthvað afar einfalt samband þess sem við getum skynjað og einhvers sem gerist. Við reynum að skilja fyrirbærið með kenningum. Gerum huglægt það sem áður var tómt efni. Þegar um flóknari kenningar er að ræða, þá leiðumst við út í heim möguleika og frumspeki - þar sem trú, þekking og hugsunarháttur eiga á hættu að blandast saman í eina stóra kenningu.

Slíkar pælingar geta verið gagnlegar og þroskandi. En það má aldrei loka vísindalegum kenningum algjörlega. Það þarf sífellt að gefa efasemdum svigrúm, því eitthvað í rannsókninni gæti hafa klikkað, sama þó að hún hafi verið sannreynd þúsund sinnum. Venjulegri manneskju þykir sjálfsagt eðlilegra og auðveldara að trúa heldur en efast, og því verða vísindalegar sannanir að nýjum trúarbrögðum fyrir fjölda fólks, en kjarni þeirrar trúar er að trúa ekki á neitt yfirnáttúrulegt, aðeins á það sem vísindin og vísindamenn hafa sýnt fram á að sé satt. 

Hvað ef ég segði þér að kenningar um svarthol séu yfirnáttúrulegar? Það eru jú engin sambærileg fyrirbæri til í mannlegri reynslu, og svarthol eru aðeins útskýring á fyrirbæri í geimnum, sem gæti sjálfsagt átt sér fleiri hugsanlegar skýringar. Til dæmis gæti þetta sem við köllum svarthol, og eru ósýnileg, verið eins og mannshjartað, einhvers konar vel sem tekur í gegnum sig blóð og vinnur úr því súrefni til að halda starfsemi áfram. Hvað ef okkar sjónarhorn er svo takmarkað að við rétt greinum hluta úr einum slíkum hjartslætti?

Margt getur verið til í slíkum kenningum, og þær hafa án nokkurs vafa bæði skemmtigildi og fræðslugildi, en þær svara ekki ráðgátum lífsins, alheimsins og alls, nema að litlu leyti og um stundarsakir - fyrir þær manneskjur sem lifa á jörðinni á hverri stundu fyrir sig. Hversu mikið af "vísindalegum sönnunum" árið 2010 verða orðnar úreltar árið 2040? Sjálfsagt álíka margar og þær "vísindalegu sannanir" sem þóttu meðtækilegar árið 1980 en eru það ekki lengur í dag.

Þessi eilífðarleit hefur mikið gildi, því smám saman tekst okkur með aðstoð vísindanna að finna hvaða kenningar ganga ekki alveg upp og væntanlega af hverju þær gera það ekki, og þannig komumst við hugsanlega nær einhverju skýrara svari við stóru spurningunum og náum sífellt að móta okkur traustari heimsmynd, þó að við eigum enn langt í land.

Það er ekkert meira freistandi en að telja eigin heimsmynd vera þá einu réttu, einfaldlega vegna þess að hún gengur fullkomlega upp, og er til fólk sem gerir allt sem það getur til að hamra á því að þeirra heimsmynd sé sú eina rétta. Það er trúarleg hegðun.

Að lokum langar mig að þýða nokkrar ágætar tilvitnanir úr ritum vísindaheimspekingsins Karl Popper, en hugmyndir hans hafa mér lengi þótt ágætis ljós í myrkrinu.

 

Karl Popper, 1902-1994

Engin endanleg afsönnun á kenningu er möguleg; því það er alltaf hægt að segja að niðurstöðurnar séu ekki áreiðanlegar eða að ósamræmi sem fullyrt er að séu til staðar á milli niðurstaðna og kenningarinnar séu aðeins á yfirborðinu og að það muni hverfa með frekari þróun skilnings okkar. Krefjist þú strangrar sönnunar (eða strangrar afsönnunar) í vísindum, munt þú aldrei græða neitt á reynslu, og aldrei læra hversu rangt þú hefur fyrir þér.

---

Svo framarlega sem að vísindaleg kenning segir frá veruleikanum, verður að vera hægt að afsanna hana: og svo framarlega sem hún er ekki afsannanleg, segir hún ekkert um veruleikann. 

---

Vísindi hvíla ekki á traustum kletti. Miklar byggingar vísindalegra kenninga rísa, eins og þær væru, yfir mýri. Vísindi eru eins og bygging sem reist er á haug. Haugurinn sekkur að ofan inn í mýrina, en ekki niður á einhvern náttúrulegan eða "gefinn" grunn; og þegar við hættum tilraunum okkar við að sökkva haugnum niður í dýpri lög, er það ekki vegna þess að við höfum fundið traustan grunn. Við hættum einfaldlega þegar við teljum grunninn nógu traustan til að viðhalda byggingunni, að minnsta kosti um sinn.

 ---

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun og vísindi:


Bloggfærslur 28. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband