Eru hvorki trúarbrögð né trúleysi til?
26.7.2010 | 21:05
Ég hef haldið því fram að skilgreining margra þeirra sem kenna sig við guðleysi, trúleysi eða vantrú (alls ekki allir) skilgreini trúarbrögð of þröngt, enda séu trúrarbrögðin samtvinnuð í mannlega tilveru og óaðskiljanleg okkur bæði sem einstaklingum og félagsverum, og þá sérstaklega sem félagsverum.
Hugtakið "trúarbrögð" er eins og hugtakið "hundur" að því leiti að það á við um eitthvað sem er í raun og veru ekki til annars staðar en í huga okkar. "Hundur" er nefnilega ekki til. "Hundur" er ekki áþreifanleg vera, enda er "hundur" aðeins hugtak sem er yfir öðrum hugtökum, eins og "Collie", "Labrador", og svo framvegis, sem einnig eru hugtök notuð til að lýsa flokki lífvera, en raunverulegur hundur birtist ekki fyrr en við höfum hund af holdi og blóði hjá okkur, veru sem slefar og geltir og pissar út í horn sé honum ekki kennt annað.
Við getum sagt um einhverja veru að hún tilheyri flokknum "hundur" en við getum ekki sagt að "hundur" sé til. Á sama hátt getum við sagt um eitthvað fyrirbæri að það tilheyri flokknum "trúarbrögð", en það þýðir ekki að fyrirbærið "trúarbrögð" sé til.
Hér er stuttur texti sem veitt hefur mér innblástur, löngu áður en ég rakst á hina stuðandi grein Dr. Mabry í Philosophy Now.
Flestar bækur um trúarbragðaheimspeki hefjast á tilraunum til að skilgreina af nákvæmni hver kjarni trúarbragða er... Sú staðreynd að þær eru jafn margar og svo ólíkar hverri annarri er nóg til að sanna að orðið "trúarbrögð" getur ekki merkt eitthvað eitt lögmál eða einn kjarna, heldur er heiti yfir samansafn fyrirbæra. Hugur í leit að kenningum hefur stöðugt tilhneigingu til að einfalda um of viðfangsefni sín. Þetta er rót allra hugmynda um algjörleika og einhliða kenningar um viðfangsefni okkar. Viðurkennum frekar í upphafi af fúsum og frjálsum vilja að við munum afar líklega ekki finna neinn kjarna, heldur marga eiginleika sem geta á ólíkan hátt verið jafn mikilvægir í ólíkum trúarbrögðum. (William James, 1842-1910)
Trúleysi, guðleysi og vantrú eru hluti af tilraunum fólks til að átta sig á heiminum út frá forsendum sem eru þeim ásættanlegar, hvort sem það þýðir að grundvöllur lífsskoðunar þeirra felist í sönnunargögnum, staðreyndum, vísindalegum kenningum, eða jafnvel engu eða einhverju öðru. Ég vil halda því fram að öll viðleitni til að koma reiðu á heiminn sé trúarlegs eðlis; og að trúleysi sé ekki aðskilið frá trúarbrögðum nema viðkomandi hafi enga hugmynd um hið gildi.
Þannig held ég að bæði sumir sem kenna sig við trúleysi og sumir sem kenna sig við trúarbrögð séu alls ekki trúaðir, samkvæmt þessari víðu skilgreiningu á trúarbrögðum, það er að segja hafi þetta fólk ekki hugmynd um nein gildi og reyni ekki að nálgast gildi í öllum sínum verkum.
Ég á erfitt með að trúa því að til sé manneskja í þessum heimi sem lifir án gildismats.
Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú og gagnrýna hugsun:
- Af hverju óttast bæði trúaðir og trúleysingar að tapa sannfæringu sinni?
- Af hverju pirrar gagnrýnin hugsun um trú þá sem engu þykjast trúa?
- Við krefjumst gagnrýnnar hugsunar, en vitum við hvað gagnrýnin hugsun er?
- Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?
- Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?
- Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?
- Er predikun guðleysis klám?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)