Af hverju óttast bæði trúaðir og trúleysingar að tapa sannfæringu sinni?

Ef hugsun á að verða eign margra, ekki forréttindi fárra, verðum við að losa okkur við ótta. Það er ótti sem heldur mönnum aftur - ótti við að eigin trú reynist blekking, ótti við að stofnanir sem þeir styrkja reynist skaðlegar, ótti við að þeir sjálfir reynist síður verðugir virðingar en þeir hafa fyrirfram talið sig vera. (Bertrand Russell 1872-1970 (Principles of Social Reconstruction))

Nokkuð sem ég hef greint í athugasemdum við síðustu færslum mínum er ótti, eins og fátt sé skelfilegra en að tapa eigin sannfæringu, að sjá að maður hafði rangt fyrir sér í mikilvægum málum og þurfi þar af leiðandi að endurhugsa eigin afstöðu til lífsins.

Þetta er eitt af því sem gerir heimspeki svo spennandi. Uppgötvun á því að við gætum hugsað betur um ákveðin grundvallaratriði getur kollsteypt okkar fyrri heimsmynd og krafist þess að við endurskoðum málið frá grunni. Það er mikilvægt að fólk skilgreini sig ekki útfrá lífsskoðunum sínum, hvort sem það er til trúar eða vantrúar, heldur gefi sér svigrúm til að vera það sjálft og meta, og síðan endurmeta þessar lífsskoðanir. Þegar maður hefur ekki nógu miklar upplýsingar eða hefur ekki velt málinu fyrir sér af nógu mikilli dýpt, þá getur verið betra að bíða aðeins með að taka afstöðu.

Það er reyndar afstaða í sjálfu sér að fresta afstöðunni, en þá afstöðu vil ég kenna við gagnrýna hugsun. Ég hef ekki mikið gert af því að tjá grundvallarskoðanir mínar hér á þessu bloggi, en hef bæði verið álitinn trúaður og trúlaus, og skiptir það mig í sjálfu sér engu máli hvorum flokkinum fólki finnst ég tilheyri. Hins vegar þegar kemur að gagnrýnni hugsun, þá er hægt að flokka mig sem einstakling sem gerir allt mögulegt til að skilja betur gagnrýna hugsun og til að dreifa boðskap hennar.

Heimspekingar, vísindamenn, sálfræðingar, námsfræðingar og aðrir hugsuðir hafa reynt að negla niður skilgreiningu á gagnrýnni hugsun, en það hefur reynst erfit, enda er hún margþætt og í fljótu bragði telur maður sig vita hvað gagnrýnin hugsun er og hvernig henni skuli beita, en eftir stutta og opna rannsókn kemur fljótt í ljós að hún hefur margvíslega eiginlega sem maður gerði ekkert endilega fyrirfram ráð fyrir.

Það að gagnrýnin hugsun þurfi að vera skapandi til að virka og að hún þurfi á umhyggju að halda til að leiða til góðs, er nokkuð sem manni dettur ekki í hug við fyrstu sýn. Að gagnrýnin hugsun krefjist auðmýktar þeirra sem ástunda hana og gífurlegrar þjálfunar á hlustun og rökhugsun, og einnig gagnrýni á hvernig hlustun og rökhugsun virka, liggur ekki alltaf á yfirborðinu. Eitt öflugasta einkenni gagnrýnnar hugsunar er einmitt að hún gagnrýnir gagnrýna hugsun, hún gagnrýnir bæði inn á við og út á við, og sá sem ástundar hana verður strax ríkari enda býr viðkomandi við stærri heim og margbreytilegri fljótlega eftir að hann hefur farið að beita hinni gagnrýnni hugsun á sjálfan sig.

Gagnrýnin hugsun er þannig eins og sjónvarpstæki með endalausar sjónvarpsstöðvar, nema að græjan er ókeypis og alls ekki sjálfsagt mál að skipta um stöðvar án smá áreynslu.

Ekkert er mikilvægara fyrir lýðræðisþjófélag en að þegnar séu gagnrýnir í hugsun, geti tekið vel mótaðar ákvarðanir og taki þátt í umræðunni. Þess vegna þykir mér sorglegt að sjá á sjálfu Alþingi hvernig starfsmenn þar sýna stöðugt skort á gagnrýnni hugsun í verki, skipta sér frekar í lið um málefni en að ræða grundvallaratriði þeirra. Þess vegna þykir mér sorglegt að gagnrýnin hugsun skuli ekki kennd í íslensku skólakerfi, að hún þyki ekki mikilvæg fyrr en komið er á háskólastig. 

Hið rétta er að gagnrýnin hugsun á heima í hugum okkar frá blautu barnsbeini. Börn byrja snemma að spyrja gagnrýnna spurninga, en oft er þeim svarað með þeim tilgangi að slökkva í spurningunni og frekari spurningum, heldur en að halda loganum lifandi. Gagnrýnin hugsun reynir að halda þessum loga lifandi og hefur í margar aldir barist við það undir ýmsum nöfnum.

Gagnrýnin hugsun á sér þó heimili, skjól þar sem hún fer huldu höfði fyrir ofsóknum heimsins, en það er í háskólum, og þá einatt í heimspeki. Heimspeki og gagnrýnin hugsun eru nánast sama fyrirbærið, með einnig undantekningu. Heimspeki er fræðilegi hlutinn í að átta sig á veröldinni, en gagnrýnin hugsun er verklegi þátturinn.

Höfum við eitthvað að óttast? Er gagnrýnin hugsun afl sem getur sameinað fólk eða sundrað? 

Gagnrýnin hugsun getur sundrað hugmyndum og áætlunum sem eru samansett af lygum, eiginhagsmunum og blekkingum, og geti aðeins sameinað fólk þegar unnið er af heilindum. Það er dapurlegt að stjórnmál á Íslandi skuli vinna án gagnrýnnar hugsunar, og að einungis fáir stjórnmálamenn á Íslandi skuli vera svo heilsteyptir að þeir geti beitt henni skammarlaust. Það er því miður hægt að telja þessa einstaklinga á annarri hendi, og mega þeir sín lítils gegn miklum fjölda þeirra sem skipa sér hugsunarlítið í lið, ákvarða eigin skoðanir fyrir lífstíð og líta aldrei til baka.

Við getum komið okkur upp úr þeim skítugu hjólförum og þykku leðju sem sjálfsblekkingin er, og það með gagnrýnni hugsun, en það er erfitt að innleiða gagnrýna hugsun með fólki sem þegar hefur tekið sína afstöðu á móti henni. Blogg og Internetið hefur gefið gagnrýnni hugsun byr undir báða vængi undanfarið, en það getur verið skammgóður vermir. Fjölmiðlar ættu að varðveita gagnrýna hugsun, en virðast of uppteknir af hagsmunavörnum til að sinna þeirri skyldu sinni.

Og á Íslandi er í skólum því miður aðeins kennd þrjú R, á meðan flest lönd eru farin að átta sig á mikilvægi hins fjórða R: rökhugsunar. Rökhugsun er ekki það sama og reikningur (eða stærðfræð).

Hin fjögur er R, eða undirstaða alls náms, eru annars:

  1. Reading (Lestur - þekking inn)
  2. Writing (Ritun - þekking út)
  3. Arrithmetic (Reikningur og rökhugsun - vinnsla hugmynda)
  4. Critical Thinking (Gagnrýnin hugsun - þjálfun dómgreindar)

Svar mitt við spurningu greinarinnar er að þeir sem telja sig hafa eitthvað, óttast að missa það sem þeir hafa. Þeir sem hafa hins vegar ekki sambærileg fyrirbæri, vita hins vegar að þeir hafa ekkert að óttast.

Hvort ætli sé veigameira þegar á heildina er litið: að maður hafi tök á gagnrýnni hugsun eða sterka skoðun á hvort eitthvað sé til eða ekki?

Gagnrýnin hugsun er öllum aðgengileg. Ágætis vettvangur til að þjálfa hana er að skrifa athugasemdir við þessa grein. Það kostar ekkert. Þó að hún kosti ekkert er gagnrýnin hugsun mikils virði, rétt eins og mörg önnur gildi sem miklu skipta - þau kosta okkur í raun ekkert en ef við kunnum ekki að meta þau, þá verða þau okkur einskis virði og við glötum þeim án þess að átta okkur á þeim verðmætum sem við höfðum.

Þér er velkomið að taka þátt með að skrifa athugasemd(ir).

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú og gagnrýna hugsun:


Bloggfærslur 25. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband