Af hverju pirrar gagnrýnin hugsun um trú þá sem engu þykjast trúa?

Felist undirstöður hugsunar í tjáningu okkar, þá biggja samræður okkar á fjórum undirstöðum sem nauðsynlegar eru til að móta setningu, og jafnvel hugsun, á hvaða tungumáli sem er.

  • Fyrsti liður: vísun
  • Annar liður: tenging
  • Þriðji liður: eiginleiki
  • Fjórði liður túlkun

 Tökum dæmi. Í setningunni "Glasið er fullt" birtast þessar fjórar undirstöður á eftirfarandi hátt:

  • Vísað er í "glas".
  • "Er" tengir glasið við einhvern eiginleika.
  • "Fullt" er eiginleiki glassins.

Setningin er síðan túlkuð, bæði af þeim sem tjáir hana og af öllum sem taka við henni. Í þessu tilfelli virðist lítið pláss fyrir útúrsnúninga, en samt eru þeir til staðar. Fyrst er hægt að spyrja hvaða glas þetta sé eiginlega, þar sem þú lesandi góður sérð það væntanlega ekki og getur með fullum rétti efast um það að þetta glas sé yfir höfuð til staðar. En ég fullyrði það, að þetta glas standi á skrifborði mínu við hlið fartölvu minnar, og er fullt. Bíddu, ætla að fá mér sopa. 

Heyrðu, þetta er ónýtt dæmi. Glasið er ekki lengur fullt. Trúirðu mér?

Nú hafa allt einu bæst tvö orð inn í setninguna: "ekki lengur". Þýðir það að eiginileika hlutar á einu augnabliki geti verið allt annar á öðru augnabliki, að breytileikinn sjálfur geti skapað mótsagnir þegar tími og aðstæður eru ekki tekin í reikninginn þegar verið er að rökræða hlutina?

Ef fullyrðing mín um að glasið sé fullt sé sönn eina stundina og síðan ósönn þá næstu, vegna þess að glasið er háð tíma og rúmi, eru til einhver hugtök sem eru það almenn að þau tilheyra ekki aðstæðum á neinn hátt, hugtök þar sem fullyrðingar um eiginleikar þeirra eru alltaf sannar, sama hver túlkar?

Ég fullyrði til dæmis að þegar hugmyndin um hið góða sé persónugerð þá sjáum við strax fyrir okkur á afar auðveldan hátt veru sem líkist okkur og við getum kallað Guð. Það þýðir ekki að rétt sé að persónugera hið góða á þennan hátt, en tilhneigingin er til staðar, og þegar sterk tilhneiging er til staðar verður að halda aftur af henni með öllum tiltækum ráðum. En mannlegar tilhneigningar eru eins og þyngdarlögmálið. Enginn mannlegur máttur getur staðið í vegi þeirra alls staðar og til eilífðar.

Þannig verða sterkar hugmyndir til. Sterkar hugmyndir eru varðveittar. Þær verða að undirstöðu. Brátt verður ekki hægt að mótmæla hugmyndinni því hún er svo sannfærandi og mikil undirstaða friðsamlegra samfélaga að hver einasta pæling um uppruna hugtakisins verður að ógn við kennisetninguna.

Þetta hef ég upplifað í síðustu færslum mínum, en frá andstæðum pól, ekki frá sjónarhorni þeirra sem trúa á Guð, heldur þeirra sem trúa ekki á Guð og telja sig jafnvel trúlausa með öllu að auki. Þessi hugmynd um guðleysi, trúleysi eða vantrú verður sterk þegar hún beinist gegn hinni sterku hugmynd um hinn persónulega Guð, en þegar persónulegur Guð er ekki hluti af jöfnunni virðast samfélag trúlausra ráfa um í blindni, því þeir skilgreina sig út frá andstæðu sinni, og verður náttúrulega um og ó telji viðræðandi ekki skipta neinu máli hvort Guð eða guðir sé til eða ekki.

Þegar lífsskoðanir manns snúast um afneitun á einhverju, er maður þá að byggja hús á traustum grunni?

Og svo það sé á hreinu, þá er glasið tómt núna þegar ég skrifa þetta, en hver veit hvað verður satt um þetta glas á því augnabliki sem þú lest þennan texta.

Mig grunar að það sem pirri þá sem engu þykjast trúa þegar fengist er við hugtök eins og trú með aðferðum gagnrýnnar hugsunar er einmitt þessi mikilvægi túlkunarþáttur. Við upplifum heiminn öll á ólíkan hátt, en með sams konar skynfærum og hugsunarferlum, en þó er hægt að fínslípa bæði skynjun og hugsun þannig að hún verði að hárbeittu verkfæri sem getur skorið í sundur og gagnrýnt hvaða hugtak sem fyrirfinnst. 

Mig grunar að það séu breytilegar aðstæður fyrst og fremst sem pirra þá sem þykjast engu trúa, þar sem að trúarbrögðin, eins og HIV fruma aðlagar sig að mótefninu og fellur það inn í kerfi sitt, svo framarlega sem að eitthvað gott býr í hinni trúlausu kenningu.

 

E.S. þessi færsla er undir smá áhrifum frá Emmanuel Kant og Charles Sanders Peirce, en þeir reyndu báðir að átta sig á undirstöðum allrar hugsunar, en kenningin er ekki fullmótuð í huga höfunds. Hins vegar finnst mér áhugavert að líta á hugmyndir og heiminn út frá ólíkum sjónarhornum og þetta er ein tilraun til þess.

 

Fyrri færslur um guðleysi, trú og gagnrýna hugsun:


Bloggfærslur 24. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband