Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?

Heitar og skemmtilegar umræður um trúarbrögð og trúleysi spruttu fram enn á ný hér á þessu bloggi í kjölfar greinarinnar Er predikun guðleysis klám? Einni spurningu er þar ósvarað, sem ég reyni að svara í þessari grein, en þar held ég fram að prestar þurfi ekkert endilega að trúa á persónulegan Guð og geti samt verið starfi sínu vaxnir og reynst góðir prestar. Þessa hugmynd fékk ég við lestur greinar eftir séra Dr. John R. Mabry á meðan ég flaug frá Osló til Stavanger síðasta sunnudagskvöld.

Það er hvergi betra að lesa en í himnaríki. Whistling

 

Presturinn Dr. John R. Mabry heldur því fram að nýguðleysisbækurnar sem sprungu út í vinsældum eftir 9/11 og skrifaðar voru af mönnum eins og Dawkins, Hitchens, Harris og fleirum, að vandamálið við nýguðleysið er að mynd þeirra af trúarbrögðum sé engu skárri en skopmynd sem gefur of einfalda sýn á hlutina í stað þess að bera virðingu fyrir hinum djúpa margbreytileika sem einkennir ólík trúarbrögð í heiminum. Reyndar kallar hann þessi skrif "guðlaust klám" en viðurkennir síðan að hann elski þessar bækur og skemmti sér stórkostlega yfir þeim, og finni þar margt gott, sem því miður nær ekki á áfangastað óskaddað.

Í greininni segir Dr. Mabry:

"Það er til trúað fólk sem trúir að gagnrýnin hugsun um trúarbrögð séu nauðsynleg fyrir þroskaða trú, og í raun, lykilatriði í trúarbragðalegri tryggð. Það er til fólk sem skilur að myndir okkar af hinu guðlega eru komnar frá mannlegri tilhneigingu til að persónugera (anthromorphize) hið Dularfulla vegna þess að það gerir þeim auðveldara að tengjast því. Það er til fólk sem skilur að tákn eru ekki það sama og hlutirnir sem þau merkja - sem snúa ekki hugmyndum, myndum og hugsjónum yfir í skurðgoð. Það er til fólk sem telur ofbeldi ekki vera viðeigandi svar við þeim sem eru ósammála - sem í raun sjá umburðarlyndi, samhug og frelsi sem próf fyrir sanna andlega tjáningu."

Að persónugera hlutina er gert til að einfalda þá, og ég get vel séð fyrir mér prest sem trúir á Guð án þess að persónugera hugtakið. Hins vegar virðast margir stuðningsmenn nýguðleysis eiga erfitt með að sjá þennan möguleika og sætta sig við að hann geti verið raunin hjá fjölda presta. Trúin er nefnilega svolítið persónulegt fyrirbæri, og það að gera tilraun til að afmá hana af yfirborði jarðar er í raun tilraun til sviptingar á tjáningarfrelsi.

Dr. Mabry skrifar:

"En hverjir eru þessi nýfrjálshyggjumenn sem telja sig geta ákvarðað að einungis sú trú sem er íhaldssöm, án umburðarlyndis og bókstafleg, séu sannkölluð trúarbrögð? Ég held því fram að ég hafi meira vit á eigin andlegu lífi en nokkur annar, þar á meðal Christopher Hitchens. Ég held því einnig fram að hunsun á trú meirihluta mannkynsins - og í raun að hunsa trú þó ekki væri nema einnar manneskju - er jafn mikið trúarbragðaofbeldi og nokkuð af þeirri ólíðandi hegðun sem nýguðleysingjar fordæma.

Þar sem að við getum ekki skokkað inn í huga hvers einasta prests, get ég auðveldlega séð fyrir mér að trúarskoðanir viðkomandi séu mér framandi. Viðkomandi prestur getur túlkað Biblíuna og Trúarjátninguna út frá eigin skilningi á hvað Guð er, og séð textann sem einfalda myndhverfingu á einhverju sem er mun dýpra, svona eins og þegar maður horfir á þrívíddarmyndir - þá áttar maður sig ekki alveg á dýptinni fyrr en maður setur upp gleraugun.

Prestur sem trúir ekki á persónulegan Guð finnst mér alls ekki langsótt eða fjarstæðukennd hugmynd, einmitt vegna þess mikla fjölbreytileika sem einkennir manneskjur. 

Sjálfur undrast ég hvern einasta dag yfir hvað það er fátt í þessum heimi sem ég skil af dýpt, og þar á meðal allt sem tengist minni eigin vitund. Ég skil ekki einu sinni fullkomlega hvernig ég sjálfur hugsa og læri, þó að ég hafi rannsakað það vandlega í tvo áratugi.

Það er nefnilega svo merkilegt við okkur manneskjurnar að við erum sífellt á göngu gegnum okkar eigin þroskastig og reynum sífellt að brjótast í gegnum þessa hlekki eigin þroska og efnislegra hindrana til að sjá aðeins lengra, (ég tala kannski bara fyrir sjálfan mig hérna) og sífellt er eitthvað nýtt og spennandi sem kemur manni á óvart, djúp hugsun einhvers ókunnugs manns í fjarlægu landi eða barns sem situr við hlið mér á spjalli. 

Ég væri fátækari maður ef ég lokaði á þær hugmyndir sem mér hugnast ekki.

Þó að Guð sé kannski persónulegur og einstakur í upplifun hvers og eins, og sérstakur þegar fólk í sameiningu bindur sig honum, þá þýðir það alls ekki að HANN sé persóna.

Í ágætis bók segir að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Með mynd er átt við form. Ekki efni. Ekki útlit. Heldur möguleika, ramma, kannski huga, kannski sál. Að segja Guð hafa skapað manninn getur líka verið myndmál og túlkun á því að hin sameiginlega þekking og samhugur fólks hafi skapað sérhverja manneskju og gert hana að því sem hún er.

Möguleikar á túlkunum eru endalausar. Og það er ekki ein einasta staðreynd sem getur breytt því, einfaldlega vegna þess að staðreyndir fjalla ekki um gildi og visku, heldur aðeins um hluti sem hægt er að leiða af eða til með ströngum rökreglum sem byggja á sönnunargögnum.

Þeir sem halda því fram að eina leiðin til að horfa á heiminn sé út frá sönnunargögnum og rökreglum, eru að missa af ansi miklu. Það er svona eins og að afneita að teiknimyndir geti verið skemmtilegar af því að þær eru plat.

Ég vil vinsamlegast óska eftir í athugasemdum að fólk sleepi við dónaskap gagnvart þeim sem þeir eru ósammála, og þess í stað rökstyðji mál sitt á málefnalegan hátt. Dónaskapur getur verið skondinn eitt augnablik, en verður fljótlega frekar leiðgjarn.

 

Heimildir:

Grein Dr. John R. Mabry má finna í 78. tölublaði Philosophy Now: a magazine of ideas, apríl/maí 2010.


Hafa Íslendingar tapað forgangsrétti á náttúruauðlindum sínum?

Ég sé mig knúinn til að skrifa stutta grein um þetta Magma mál. Það er nokkuð ljóst að algjör lögleysa ríkir hjá stjórnvöldum. Þau hafa tekið afstöðu lagatækna til laga og finnst litlu skipta hvað er rétt og hvað rangt, hver andi laganna sé, svo framarlega sem hægt er að finna lagakróka í kringum hlutina.

Það er ljóst að kanadískt fyrirtæki er ekki sem lögaðili heimilisfast í sænsku skúffufyrirtæki. Heimilisfesti er þegar einhver á heima á staðnum, í raun og veru, ekki bara í þykjustinni. Til dæmis fá atvinnulausir Íslendingar varla atvinnuleysisbætur ef þeir búa erlendis, þó þeir séu enn skráðir með lögheimili á Íslandi.

Úr lögum (4.gr. laga nr. 34/1991): Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum.
Sé þetta mögulegt skipta lög nákvæmlega engu máli og Íslendingar hafa engan forgangsrétt rétt til að lifa af á Íslandi umfram annað fólk í heiminum. 

Mér finnst merkilegt að VG og Samfylkingin skuli verja slíkt, en átti svosem aldrei von á öðru. Þessir flokkar eiga það helst sameiginlegt að vilji þeirra er allur á pappírum og kenningum, en afar fjarri verki. Aðrir flokkar eru ekkert skárri, enda stjórnkerfið meingallað.

Það eitt að stjórnvöld sem á viðurkenndan hátt þiggja mútur opinberlega og geta réttlætt þær með að kalla þær styrki, segir meira en þarf um hversu rotið íslenskt stjórnkerfi er og hversu óréttlátt það hlýtur að vera, og hversu óhugsandi er fyrir slíkt kerfi að leita sanngirnis og velferðar fyrir almenning í landinu.


Bloggfærslur 14. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband