Tekst vel smurðum áróðursvélum að brytja niður fylgi Besta flokksins á síðustu metrunum?
29.5.2010 | 05:04
Mikill titringur sem Jóni Gnarr og hans kátu mönnum hefur tekist að koma í gang. Það merkilegasta við þetta allt saman er hvað vinsældir hans bæði pirra og gleðja. Það er hugsanlega enn kaldara á toppnum í stjórnmálum heldur en í listaheiminum.
Það er áberandi hvernig fjórflokkarnir eru fastir í skotgröfum, fyrir utan kannski Sjálfstæðisflokk, sem hefur ekki verið að skjóta eiturpílum að hinum, heldur verið með mun sterkari og vandaðri áróðursbrögð og markaðssetningu. Þeir ná langt á því. Einnig hefði ég getað svarið að þegar ég hlusta á Hönnu Birnu, að hún talar nákvæmlega eins og Þorgerður Katrín. Mér finnst það frekar skondið. Aðrir flokkar eru sífellt að deila á hina flokkana og það stelur frá þeim orku.
Dagur ræðir um atvinnumálin sem aðalmálefni, en þar sem hann er varaformaður flokks sem er í ríkisstjórn og sem einnig hefur Félagsmálaráðuneytið á sínu borði, finnst mér að hann ætti frekar að berjast fyrir því að koma hinum stórskaðlega Árna Páli úr ráðherrastól og setjast sjálfur í hann. Þar held ég að Dagur gerði mikið gagn. Hann er réttur maður á röngum stað í borgarpólitík.
Sóley Tómasdóttir er svolítið spes. Hún fattar ekki að með stöðugum árásum á Sjálfstæðisflokk græðir hún aðeins einhver hatursatkvæði. Á sama hátt getur hún grætt atkvæði með því að ráðast á klám og annað slíkt.
Einar Skúlason er drengur góður, en virðist hafa lítið til málanna að leggja.
Baldvin hjá Reykjavíkurflokknum er töffari sem ætti að fá góð verkefni hjá þeim sem sigrar í þessum kosningum.
Ólafur F. fer með slíku offorsi gegn Framsóknarflokki að það er með ólíkindum. Framsóknarflokkurinn er eins og vængbrotinn fugl í dag, og ég einfaldlega vorkenni honum þegar læknirinn fer að reita af honum fjaðrirnar.
Helga Þórðardóttir, hjá Frjálslyndum, virðist vilja þjóða samfélagi sínu á einhvern hátt. Virðingarvert.
Mér líst vel á það sem Jón Gnarr hefur verið að segja um samvinnu, ef hann meinar það, að mikið af góðu fólki sé innan sérhvers stjórnmálaflokks, og hann sé tilbúinn að vinna með því fólki sem sýnir áhuga á að leggja hönd á plóg (vinna vinnuna sína) og fyrir heill borgarbúa.
Ætti ég heima í Reykjavík gæti ég ekki kosið annað en Besta flokkinn. Hins vegar finnst mér afar áhugavert að sjá hvað áróðursmaskínur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru öflugar, og viss um að þeim hafi tekist að sannfæra fullt af fólki sem er óákveðið.
Besti flokkurinn er ennþá sá fyndnasti. En hann hefur skotið sig í fótinn með því að allt í einu eru farnar að heyrast skynsamar raddir innan hans sem hafa töluvert merkilegt að segja. Ég efast um að fólk sé jafn tilbúið fyrir skynsemi og fyrir húmor.
![]() |
VG útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |