Prince of Persia: The Sands of Time (2010) ***
21.5.2010 | 21:18

"Prince of Persia: The Sands of Time" er ekki fullkomin, en vel heppnuð kvikmyndaútgáfa af tölvuleik. Sjálfsagt mætti flokka hana í sama gæðaflokk og "Harry Potter", "Pirates of the Caribbean" og "Tomb Raider". Ekki skemmir fyrir að flestir leikarar standa sig vel, fyrir utan suma, eins og pirrandi prinsessu með svo enskan hreim að ég vorkenni Persum, og Ben Kingsley, sem sífellt dregur niður þær ævintýramyndir sem hann leikur í, því hann leikur alltaf sama karakterinn, alltaf með sömu svipbrigðum. Benni Kóngalegi ætti að halda sig við dramað. Þar er hann oft frábær.
Innrásarher Persa ræðst til atlögu gegn heilagri borg vegna þess að njósnir hafa borist um að borgarbúar séu að framleiða öflug sverð og að undirbúa mikla styrjöld gegn Persum. Gjöreyðingarsverði, sko... Þannig að Bandaríkj... ég meina Persar gera árás áður en Írök... ég meina borgarbúum, tekst að ráðast á Persa.
Árásin gengur upp, prinsessan Tamina (Ginna Arterton) handsömuð, en hún hefur staðið vörð um heilagan rýting sem gengur fyrir tímasandi, og konungur Persa fær samviskubit og skammar syni sína fyrir að brjóta niður varnarhlið friðsælustu borgar jarðríkis.
Rýtingurinn er svoldið spes. Þegar og ýtt er á hnapp á skapti hnífsins, sem hlaðinn skal sérstökum galdrasandi, þá getur sá sem heldur á hnífnum ferðast allt að eina mínútu aftur í tímann. Sé hnífnum hins vegar stungið í uppsprettu hins heilaga sands og hnappnum haldið inni, væri fræðilega séð hægt að ferðast miklu lengra aftur í tímann. Um þetta snýst plottið.
Prinsinn Dastan (Jake Gyllenhaal) er einn af þremur prinsum Persíu sem leiddu árásina á borgina, hann var sá úrræðabesti og gerði það að verkum að varnirnar voru brotnar á bak aftur. Dastan er samt ekki alvöru prins. Hann var í æsku götustrákur sem sýndi mikið hugrekki. Sharaman konungur (Ronald Pickup) var vitni að hugrekki og fimi stráksins og ættleiddi hann á staðnum.
Þegar Sharaman konungur er myrtur fyrir augum prinsanna og fjölda vitna er Dastan ásakaður um morðið og allir menn hans drepnir. Hann leggur á flótta og tekur með sér Taminu prinsessu. Á flóttanum lenda þau í ýmsum ævintýrum og hrífast að sjálfsögðu hvort að öðru í leiðinni. Rekast þau meðal annars á skuggalega kaupsýslumanninn Amar (Alfred Molina) sem telur skatta uppsprettu alls hins illa í heiminum og rekur strútaveðreiðar. Amar er ekki jafn illur og hann virðist vera. Hans traustasti félagi er Seso (Steve Toussaint), sem er sérlega klár í hnífakasti. Besta atriði myndarinnar er stutt sena þar sem Toussaint fær að njóta sín í bardaga gegn öðrum miklum hnífameistara. Eftirminnilegur leikari þar á ferð.
Ég hefði viljað sleppa Ben Kingsley algjörlega, því hann er hreinlega ömurlega lélegur sem illmenni í fantasíumyndum. Þess í stað hefði mátt nota höfðingja Hassansin leigumorðingjanna betur og gefa honum aðeins meira en þann virkilega flotta persónuleika sem hann hafði og hina svölu samherja hans, en Gísli Örn Garðarson leikur þennan skúrk feikilega vel og tekst að búa til illmenni sem jafnast á við Mickey Rourke í "Iron Man 2".
Ég hafði gaman af þessu ævintýri.
Mikill hasar, sem er misjafnlega vel útfærður, ekkert sem jafnast á við það besta frá Jackie Chan eða Jet Li, og atriðin afar ójöfn. Jake Gyllenhaal er góð ofurhetja, í fínu formi og tekst að skapa eftirminnilega persónu. Góður endir bjargar myndinni frá því volæði og þeirri klisju sem hún stefndi í að verða.
Frekar brokkgeng mynd, en þegar á heildina er litið frekar skemmtileg stund með poppi og svörtu gosi.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Árásin á Alþingi og skörungur Wittgensteins
21.5.2010 | 06:09

25. október 1946 hélt vísindaheimspekingurinn Karl Popper fyrirlestur í Cambridge sem bar titilinn "Eru til staðar heimspekileg vandamál?" Ludwig Wittgenstein var fundarstjóri. Wittgenstein hafði haldið því fram að engin raunveruleg heimspekileg vandamál væru til, að öll heimspekileg vandamál væru sprottin úr ófullkomnun tungumálsins. Popper hélt því aftur á móti fram að heimspekileg vandamál væru dýpri en svo að hægt væri að afgreiða þau öll sem tungumálaleiki.
Vitni segja að rifrildið milli þeirra Popper og Wittgenstein hafi stöðugt magnast upp, og Wittgenstein haldið á eldskörungi og beint honum að Popper á meðan þeir þrættu. Loks kom að hinu magnþrungna augnabliki þegar Wittgenstein beindi skörungnum ógnandi að Popper og krafðist þess að Popper gæfi dæmi um raunverulega siðferðilega reglu.
"Þú skalt ekki ógna gestafyrirlesurum með eldskörungum," svaraði Popper að bragði. Wittgenstein brást við með að henda frá sér skörungnum og rjúka út.
Það merkilega við þennan atburð er að hann gerðist á um tíu mínútum og fjöldi vitna var á staðnum, sérfræðingum í þekkingarfræði og rannsóknum á sannleikanum, en þessi vitni gátu aldrei komið sér algjörlega saman um hvað gerðist nákvæmlega á þessum tíu mínútum. Hver og einn upplifði atburðinn á ólíkan hátt.
Eitthvað ákveðið gerðist, og meðal þess sem gerðist er tjáning á ákveðnum heimspekilegum vangaveltum frá tveimur afar djúpum heimspekingum, sem síðar braust út í einhverju sem virtist hafa verið reiðikast og uppgjöf Wittgensteins. En var þetta uppgjöf eða skýr skilaboð?
Var Wittgenstein að segja með því að kasta frá sér skörungnum og rjúka út að hann væri rökþrota, að honum þætti Popper ósanngjarn, eða staðfesti hann með verki sínu að það var ekkert heimspekilegt vandamál til staðar? Túlkanir manna og skoðanir geta verið jafn ólíkar og jafnvel fleiri en fjöldi einstaklinga í salnum.
Hvað ef við tökum aðeins fyrir staðreyndir málsins. Það sem raunverulega gerðist. Er mögulegt að staðreyndirnar einar sýni annan veruleika en sannleikann sjálfan?
Mér varð hugsað til þessa atviks sem átti sér stað fyrir 64 árum þegar ég horfið á Kastljós í morgun, og myndbandið sem staðfestir að þingverði hafi verið hrint með tveimur höndum, hægri hendi, eða dottið slysalega á ofn. Einnig kemur fram að forseti Alþingis taldi þingmönnum og húsnæði ógnað af þeim sem ruddust inn á Alþingi þennan örlagaríka dag, þrátt fyrir að sumir þingmenn hafi lítið kippt sér upp við þetta. Þó minnist ég þess að Sif Friðleifsdóttir sem var í ræðustól á þessu augnabliki hafi verið frekar brugðið. Einnig er áhugavert að sjálfur utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, framkvæmdi mörgum árum áður nákvæmlega það sem innrásarmennirnir ætluðu sér, að lesa yfir þingmönnum.
Það er erfitt að segja hvað einhver einn ætlaði sér að gera, hvað þá þeir þrjátíu manns sem ruddust inn í húsið á 3. desember 2008. Aðeins níu þeirra eru ákærðir, hugsanlega vegna þess að ekki tókst að nafngreina hina einstaklingana 21, hugsanlega af annarlegum ástæðum.
En það er öllum ljóst að þessir níu einstaklingar voru ekki að ógna vinnufrið á Alþingi þennan örlagaríka dag, enda hefur ekki verið vinnufriður á Alþingi í mörg ár, eða síðan Alþingismenn byrjuðu að þiggja styrki frá áhrifavöldum í samfélaginu. Það eitt að starfa við að samþykkja lög fyrir heilt þjóðfélag, með sérstaka styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum þér til stuðnings, eru ólög í sjálfum sér sem hlutu að leiða á endanum til stjórnmálakreppu.
Það ótrúlega er að stjórnmálamenn í dag virðast ekki átta sig á af hverju styrkir til einstakra þingmanna eða fyrirtækja í þeirra eigu séu það sama og mútur, og að slíkt sé í sjálfu sér rangt - og er það sannarlega siðferðilega þó hugsanlega sé slíkt löglegt, enda engum kannski dottið í hug að setja lög gegn eigin hag, og í grundvelli jafn rangt og að hóta gestafyrirlesara með eldskörungi.
Það eru þingmenn sjálfir sem hafa ógnað þinghaldi á Íslandi með ábyrgðarleysi, mútuþægni, aðgerðarleysi þegar aðgerða er þörf, aðgerða þegar aðgerðarleysi er þörf, skilningsleysi á mikilvægi þess að lög séu jöfn fyrir alla, þiggja laun fyrir ókláruð verkefni (svikin kosningaloforð), og þannig mætti sjálfsagt æra óstöðugan með margfalt lengri upptalningu.
Það þarf uppstokkun á Alþingi. Siðferðilega uppstokkun. Þar þarf að vera fólk sem skilur hvað heiður og mannvirðing er, ekki bara fólk sem kann að hlíða hegðunarreglum á Alþingi og kalla einhvern annan þingmann í einu orði háttvirtan og hálfvita í því næsta.
Ég veit ekki hvað skal koma í staðinn. Sjálfsagt utanþingsstjórn með úrvalsfólki (það er mikið af slíkum Íslendingum en þeir komast einfaldlega ekki að og hafa ekki áhuga á pólitískum sandkassaleik) sem vinnur að því að setja saman nýtt og betra Alþingi.
Nímenningarnir ætluðu sér að flytja þá kröfu að þingmenn hypjuðu sig út af Alþingi og bæru þannig virðingu fyrir þeirri stofnun sem hefur því miður verið flekkuð af hagsmunapoturum í marga áratugi.
Það er sanngjörn siðferðileg krafa að heiðarlegt fólk setji lögin og heimspekilegt vandamál að þingmenn séu ekki enn búnir að fatta það, eða þá að þeir hafi þegar fattað það og vilji ekkert gera í málinu.