Hasar í réttarsölum Reykjavíkur

Í dag berast tvær merkilegar fréttir úr réttarsölum í Reykjavík.

Annars vegar streymir hópur lögreglumanna inn í réttarsal til að fjarlægja menn sem vildu ekki setjast, og afleiðingarnar handtökur og ofbeldi; og það í máli sem sjálft Alþingi höfðar gegn níu þegnum sem voru að mótmæla á þingpöllum. Ef eitthvað mál ætti að vera opinbert, er það mál ríkis gegn þessum einstaklingum. Þetta mál er farsi. Það átti að fella það niður strax. Það er ekki lengur hægt. Þetta mál gæti jafnvel orðið upphafið að nýjum mótmælum og endað með falli núverandi ríkisstjórnar.

Einnig er stórmerkileg fréttin um að gengistryggð lán séu ekki bara ólögleg, heldur hafi fyrirtækin sem lánuðu peninginn ekki rétt til að umbreyta lánunum yfir í aðrar gerðir verðtryggingar og halda þannig höfuðstólnum uppi á sama ósanngjarna hátt og hefur verið við lýði um nokkurt skeið. Verði þessi dómur staðfestur í hæstarétti þýðir það að blaðið snýst algjörlega við. Þar sem að lánafyrirtækin hafa rukkað inn langt umfram upphaflegan höfuðstól og vexti síðustu árin, er ekki ólíklegt að nú skuldi þau mörgum þeirra sem hafa borgað of mikið til baka af lánum sínum.

Á sama tíma er ríkisstjórnin að leggja fram til samþykkis lög sem gera lánafyrirtækjum mögulegt að umbreyta gengistryggðum lánum í verðtryggð lán, sem þýddi þá að verið væri að færa lánafyrirtækjunum vopn í hendurnar sem þeir hafa ekki í dag samkvæmt gildandi lögum.

Frekar seinheppin ríkisstjórn.


mbl.is Ekki heimilt að gengistryggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu heyra sannleikann?

1984

Ég var aldrei góður í Morfís, hvorki sem keppandi né þjálfari. Af sömu ástæðu yrði ég aldrei góður stjórnmálamaður innan íslenskrar umræðuhefðar. Ég ber of mikla virðingu fyrir sannleikanum og hversu erfitt er að nálgast hann, til þess að ég geti gert lítið úr öllu því ferli með þeim hætti sem gerður er í þing- og hátíðarsölum.

Reyndar þjálfaði ég sæmilega sigursælt lið til ræðukeppni þegar ég kenndi við mexíkóskan framhaldsskóla, en í þeirri keppni voru reglurnar svolítið öðruvísi en í Morfís og dómararnir afar harðir og þekktu vel flestar rökvillubrellurnar í bókinni. Keppendur voru dregnir niður fyrir að nota sannfærandi áherslur frekar en staðreyndir eða góð rök.

Það var lögð mest áhersla á að koma raunverulegri þekkingu til skila og undantekningarlaust voru málefnin sem rætt var um byggð á raunverulegum málefnum í nútímasamfélagi, og þurfti að ræða málin af dýpt. Ég man að eitt umræðuefnið var "Morðin í Juarez" þar sem keppendur þurftu að grafast fyrir um hverjar orsakirnar voru fyrir því að mikill fjöldi kvenna hafði verið myrtur í Juarez. Þetta var ekki með eða á móti, heldur þurftu liðin að rannsaka málið, koma með kenningu og standa við hana sem hópur. Reyndar var passað upp á að ólík lið væru ekki með sömu kenningu.

Einnig var lögð áhersla á að keppni og alvara væru tvennt ólíkt, að þessi ræðuhöld voru fyrst og fremst gerð til leiks og þjálfunar á rökhugsun, og góður undirbúningur fyrir leiðtogastörf.

Morfís er keppni í ræðuhöldum. Stjórnmálaumræðan á Íslandi er í kappræðustíl. Alls ekki ósanngjarn samanburður. Kappræður snúast um að taka afstöðu og nota öll tiltæk rök til að standa við þá afstöðu, óháð því hvort afstaðan sé í raun heilbrigð, góð eða rétt. Sá vinnur sem rökstyður betur, ekki endilega sá sem hefur rétt fyrir sér.

Vandamálið vex þegar fólk hættir að greina muninn á kappræðu og samræðum, en í samræðum er niðurstaðan ekki gefin fyrirfram, frekar en hún ætti að vera þegar leitað er góðra markmiða út frá sanngjörnum kröfum, og unnar lausnir út frá markmiðunum með því að átta sig á veruleikanum, en ekki þeim sýndarveruleika sem kappræðustíllinn skapar.

Þegar þú ræðir málin út frá fyrirfram gefinni skoðun ertu dæmd(ur) til að standa við þá skoðun og berjast við að fylla upp í rökholur með öllu tiltæku. Þar sem ekkert rökvillueftirlit er til á Íslandi, þá er ofgnótt af slíkri notkun í umræðunni. Algengastar virðast vera þær villur þegar málefni er dæmt fyrirfram útfrá skoðunum á einstaklingi eða hópi. Tilfinningarnar í slíkri umræðu yfirgnæfa alltaf hina hógværu og hljóðlátu skynsemi, sem fæstir virðast sjá, enda á umræðan til að gruggast eftir stöðugt skítkast.

Mælskulist er að sjálfsögðu ekki illt fyrirbæri þegar henni er tekið sem leik. Hún verður hins vegar að afar öflugu tæki í höndum þeirra sem eru færir að nota það, og sérstaklega þegar áheyrendur kunna ekki að greina rök frá rökvillu, gilda röksemdafærslu frá ógildri, áreiðanlegar heimildir frá óáreiðanlegum, sannsögli frá lygum, heilindi frá klækjum, kjarna frá hismi.

Þetta fyrirbæri er þekkt meðal vísindamanna sem kannast vel við að vísindalegar kenningar eru opnar fyrir stöðugri gagnrýni, og reyndar er þörf á slíkri harðri gagnrýni til að sannreyna vísindalega þekkingu, sem þó telst aldrei fullkomlega örugg. Þegar fræðimenn koma hins vegar fram með kenningar sem þeir eru sannfærðir um að séu 100% öruggar, sannar og réttar, það er einmitt þá sem rétt er að hafa varann á og kanna vel rökin sem liggja á bakvið, hverjar forsendurnar eru og af hverju þeim er haldið fram. 

Ef þú heyrir einhvern fullyrða að eitthvað sé staðreynd sem vísindin hafa endanlega sannað, þá þarftu að hlusta vandlega og velta fyrir þér hvort það geti verið rétt. Ég hef ekki enn rekist á þá vísindalegu kenningu sem allir fræðimenn viðkomandi sviðs eru sammála um. Og þó þeir væru það, hvernig gætu þeir vitað með fullvissu að kenningin sé sönn?

Það virðist lítið ekkert pláss fyrir efasemdir í íslenskri stjórnmálaumræðu. Það virðist vera lítið umburðarlyndi gagnvart óvissu og sannleiksleit. Ef viðkomandi hefur ekki öll svör tilbúin, helst í gær, þá fellur viðkomandi hratt í áliti og verður ekki hlustað á hann. Því verður hinn athyglisþurfandi stjórnmálamaður að vera fljótur að sjóða saman svör, hvort sem þau innihalda þekkingu eða bara sannfæringu, því eitthvað er betra en ekkert í þeim heimi.

Það þarf ekki bara að breyta stjórnmálamönnum og ræðutækni þeirra, heldur þurfum við að læra virka hlustun og taka þátt í umræðunni. Eigin skoðanir þroskast betur með þátttöku í heldur en með hljóðlátri hlustun.

Kannski fjölmiðlar hafi ýtt undir menningu þar sem fáir útvaldir eru þjálfaðir til ræðumennsku og tjáningar, en gífurlegur meirihluti situr þögull heima í stofu og tekur við skilaboðum frá þessum þjálfuðu einstaklingum í formi frétta eða skoðanaskipta, án þess að taka sjálfir virkan þátt í umræðunni. Ætli múgurinn og margmennið sem situr heima í stofu átti sig á hversu mikið vald getur falist í því að láta eigin rödd heyrast, þó ekki sé nema með athugasemd á bloggsíðu, eða kjósa með veskinu?

Fyrir hvert andlit sem birtist á sjónvarpsskjá og tjáir eigin skoðun eða flokksins sitja þúsund manns þögulir heima í stofu og koma eigin rödd aldrei út til þjóðfélagsins, nema kannski á óbeinan hátt með kaffistofurabbi og öðru spjalli. Þannig er íslenskur veruleiki í dag. Þannig er þetta um allan heim. Kerfið er til staðar og við látum stjórnast af því án þess að hafa val um hvaða áhrif það hefur á líf okkar og ákvarðanir, framtíð þjóðar okkar og sjálfsmynd. 

Mér hefur oft blöskrað, sérstaklega þegar flokksfélagar flykkjast fyrir framan sjónvarpsmyndavélar til að réttlæta glötuð málefni með orðskrúði og bulli, og komast upp með það.


mbl.is Íslensk umræðuhefð líkist Morfís-keppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband