Þegar góð manneskja deyr: í minningu Sveins Bjarka
19.3.2010 | 21:53
Í dag frétti ég af láti og útför gamals vinar, Sveins Bjarka Sigurðssonar.
Ég sat á skrifstofu minni sem yfirleitt hefur útsýni yfir Oslófjörð, en í dag var fjörðurinn hulinn þykkri þoku. Að horfa yfir fjörðinn var eins og að stara í hvítt myrkur. Þrisvar sinnum í dag hafði ég minnst á við vinnufélaga mína hversu falleg mér þótti þokan. Þeir voru mér ekki sammála.
Ég hlustaði á útvarpið meðan ég teiknaði myndir í Photoshop fyrir vinnuna. Þá heyrði ég eins og komið væri aftan að mér tilkynningu frá lögreglunni um að í dag færi fram jarðarför rannsóknarlögreglumannsins Sveins Bjarka Sigurðssonar. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Ég hafði ekki vitað af veikindum hans.
Við erum jafnaldrar. Hann sonur kennara míns, Ástu Bjarkar, sem síðar kenndi einnig systur minni. Ásta Björk sat tvö ár við hlið mér í ritlistartímum hjá Nirði P. Njarðvík. Þá vann Sveinn Bjarki í blómabúð föður síns, innan seilingar við HÍ. Sveinn Bjarki er líka frændi góðs vinar míns, Arnþórs.
Við hittumst ekki oft, en alltaf þegar það gerðist, þá spjölluðum við saman. Síðast hittumst við á Microsoft ráðstefnu í Reykjavík. Við gripum öll hlé sem tækifæri til að ræða málin. Hann hafði fylgst með blogginu hjá mér og hafði gaman af, kallaði mig bíógúrú. Hann sagði mér frá störfum sínum og gantaðist með að hann væri netlögga, að fólk sem niðurhalaði ólöglegu efni skyldi sko passa sig, en síðan minntist hann á hin raunverulegu og erfiðu mál sem tölvulögreglan þarf að fást við, barnaklámið, og við það eitt hvarf hans skæra bros eitt augnablik úr augum hans.
Sveinn Bjarki var alltaf á áhugaverðum stað í lífinu, frá mínu sjónarhorni séð. Í mörg ár var hann sonur kennarans, og alltaf þegar hann birtist við hlið móður sinnar ljómaði hann af gleði. Ég sá hann aldrei öðruvísi en brosandi og jákvæðan. Ekki einu sinni þegar hann sagði mér söguna af því þegar hann var rændur erlendis af kumpána með hnífi, og í stað þess að vera skynsamur sagðist hann hafa gert það heimskulegasta og klikkaðasta í slíkri stöðu, hann réðst á þjófinn og handsamaði hann. Þjófnum tókst reyndar að skera hann í átökunum. Hann hafði ör til að sanna það.
Svein Bjarka kunni ég vel að meta sem manneskju og hefði verið stoltur af að kalla hann vin, en sjálfsagt værum við flokkaðir sem kunningjar af þeim sem kæra sig um að pæla í slíkum hlutum, en vinskapur var sannarlega okkar á milli.
Sveinn Bjarki var lögreglumaður eins og lögreglumenn eiga að vera, með sterka réttlætiskennd, góðan húmor og mannlega dýpt. Það var gott að ræða við hann um öll heimsins mál, sama hvað bar að. Um tvítugsaldurinn ræddum við stundum saman í glasi á glöðum kvöldum. Viðurkenni ég fúslega að umræðuefnið er löngu horfið úr minni en eimurinn af vináttunni er þarna enn.
Ég missti að mestu samband við Svein Bjarka sem og flesta aðra kunningja mína og vini þegar ég flutti til Mexíkó árið 1998, og hafði í raun ekki náð að kynnast þeim öllum aftur á milli þess að ég kom heim og kreppan skolaði mér út fyrir landssteinana á ný.
Ég er þakklátur yfir að hafa kynnst Sveini Bjarka. Hann er fyrirmyndarmanneskja. Ég er þakklátur móður hans fyrir að hafa verið mér afar góður kennari og Sveini Bjarka góð móðir. Ég er þakklátur Arnþóri fyrir okkar vináttu og fyrir að vera Sveini Bjarka góður frændi og vinur.
Ég sendi nánustu vinum og ættingjum Sveins Bjarka innilegar samúðarkveðjur. Það gerði ég á Facebook síðunni hans, og það geri ég aftur núna. Sumir segja að lífið hefjist ekki fyrr en upp úr fertugu. Sveinn Bjarki náði aldrei þeim aldri.
Mér finnst ósanngjarnt að svona lífsglaður einstaklingur, traustur baráttumaður fyrir réttlæti og sannur vinur vina sinna, hamingjusamur fjölskyldufaðir, skuli hrifsaður úr örmum barna sinna og eiginkonu. Það er einfaldlega ekkert rétt við það. Annað en að minning hans markar djúp spor í sál þeirra sem honum kynntumst.
Það er nefnilega meira en að segja það, að vera fyrirmyndarmanneskja, bæði í lífi og minningu. Sveinn Bjarki var slík manneskja. Hann er slík manneskja.

Oslófjörður 19. mars 2009
Bloggar | Breytt 20.3.2010 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Að vera duglegur (1 af 2)
19.3.2010 | 06:39
Ívan var einn af þessum duglegu. Hann vissi hvað hann vildi. Hann vildi vinna sig upp. Hann vildi láta alla vinna saman. Hvort sem þeir vildu eða ekki.
Hann hafði myndað sér einfalda lífsspeki sem barn. Að vera duglegur. Þegar hann fékk verkefni í skóla, þá var hann duglegur og kláraði þau.
Ívan var álíka greindur og Forrest Gump. Mamma hans var vön að segja að konfektkassinn hans væri tómur.
Ívan átti erfitt með að skilja hlutina. Sjá samhengið ef það náði útfyrir skynfærin.
En hann vann vel. Kláraði verkefnin. Einkunnir voru ekki háar, en hann náði öllu. Brátt vissi hann að honum væru allir vegir færir. Maður þyrfti ekki kort eða þekkja leiðina, því á endanum lenti maður á áfangastað hvort eð er.
Ívan lærði að halda ræður. Þar var hann góður. Hann gat talað endalaust um hvað sem er, þó að hann vissi sama sem ekki neitt um hlutina. Reyndar trúði hann sjálfur að hann vissi allt um allt. Hvernig gæti hann öðruvísi talað svona sannfærandi?
Hann hélt ræður um bakhluta þumalfingurs af slíkri sannfæringu að hann trúði sjálfur eftir ræðuna að hann gæti ferðast á puttanum til tunglsins. Hann hefði getað það hefði hann reynt.
Leiðin lá í háskóla. Enn var skilningur og þekking að flækjast fyrir honum, en á móti flækti hann bara fyrir skilningnum sjálfum með orðlagni sinni og þar sem þekking er aldrei 100% örugg, gat hann alltaf bent á óvissuna sér til stuðnings. Hann vissi ekki sjálfur að þetta var aðferð hans. Það skipti ekki máli. Hún virkaði.
Hann las öll verk Þorbergs og Laxness afturábak til að átta sig á orðunum. Ívan hafði áhuga á stjórnmálum. Þess vegna ákvað hann að læra steingervingafræði.
Ívan útskrifaðist sem steingervingafræðingur með sérfræðiþekkingu á að gera greinarmun á grænmeti og ávöxtum. Í lokaritgerð sinni sannaði hann að appelsínur væru í raun grænmeti og agúrkur væru ávextir.
Hann fékk enga vinnu sem steingervingafræðingur. Því fór hann í framboð. Hann sá að fólk laðaðist að orðskrúði hans og tókst að safna í kringum sig hópi fólks sem mat meira orðagjálfur en visku. Ívan stofnaði Himnaríkisflokkinn, sem hafði það grundvallarmarkmið að vinna gegn öllu hugsanlegu, svo framarlega sem það væri flokknum til framdráttar. Í leyni að sjálfsögðu.
Hann faldi markmið sitt með því að velja vinsæl stefnumál. Sama hver þau væru. Þau trekktu nefnilega að: að jafna kjör fólks (sem þýddi útrýmingu á kjörum), að jafna möguleika allra (sem þýddi útrýmingu á möguleikum), að gera alla jafn ríka (sem þýddi útrýmingu á eignum).
Framhald síðar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)