Þegar ég lærði að fljúga ekki
26.2.2010 | 06:47
Ég var á leið heim úr vinnunni. Það var hundslappadrífa. Snjórinn leit út eins og púðluhvolpaenglar sem komu svífandi hægt til jarðar og slepptu því að sígelta. Eða það held ég. Ég er ekki nógu vitur til að hlusta á náttúruna og er alltaf beintengdur í iPod Touch furðutækið mitt, þar sem ég hlusta ekki á dynjandi tónlist, heldur skáldsögur og fyrirlestra.
Þetta er drjúgur göngutúr. Um fimmtán mínútur. Fyrst gegnum snævi þakið skóglendi með útsýni yfir Oslófjörð. Hver einasta trjágrein er hvít og útsýnið greinilega stolið úr auglýsingabæklingi, fyrir utan að þennan dag sást varla til sjávar vegna ofankomu.
Það var á þessum fyrsta kafla sem ég lærði að fljúga. Íslendingar eru of miklir töffarar til að nota kuldaskó með mannbroddum. Að minnsta kosti þessi Íslendingur. Ég var í slitnum Nike skokkskóm og tvöföldum sokkum, enda um 20 stiga frost. Hafði gengið í fimmtán mínútur og heyrði kunnuglegar drunur. Ég heyrði útfyrir sögumanninn að hjörð strætisvagna nálgaðist. Ég þurfti að hlaupa um 300 metra til að ná einum þeirra, upp brekku.
Ég hljóp. Snjórinn um 50 sentímetra djúpur. Þrír vagnar höfðu farið framhjá skýlinu og aðeins einn var eftir. Ég veifaði og bílstjórinn í græna orminum hægði förina, en virtist ekki búinn að ákveða hvort hann ætlaði að stoppa fyrir mig, langatöng í blárri dúnúlpu með svarta lambúshettu á höfði sem huldi allt nema augn, því ég var enn í 100 metra fjarlægð frá strætóskýlinu. Hann stoppaði en lagði ekki upp að skýlinu, heldur hægði á sér úti á miðri götu. Ég tók að sjálfsögðu sprettinn með um 10 kíló á bakinu í bókum, enda ferjan sem ég tek yfir fjörðinn tilvalinn lestrartími.
Eftir um 50 metra sprett sá ég mér til furðu að vinstri fóturinn fór hærra en höfuð mitt, og stuttu síðar fylgdi hægri fóturinn eftir. Ég var fljótur að skipta úr mínu venjulega sjónarhorni niður í kjölturakka, þar sem vinstri mjöðmin skall á ísi þaktri götunni samhliða því að ég skellti flötum lófa niður eins og ég hafði lært í júdótímum sem barn. Það dró úr fallinu.
Virðing gagnvart þyngdaraflinu dýpkar. Sjálfsagt mun ég fórna rottu og tilbiðja guð þyngdaraflsins til að minna mig á eigin ófullkomleika. Ég man bara ekki hvaða guð þetta er eða úr hvaða goðafræði. Kannski ég þurfi að finna hann upp sjálfur?
Þrír dagar hafa liðið. Guð þyngdaraflsins, hvað sem hann heitir, gaf mér minnismerki um flugið. Diplóma í formi marblettar á kviðnum eins og tölvumús að ummáli og í laginu eins og Ísland. Það er meira að segja pinkublettur undir Íslandi til að fullkomna verkið. Vestmannaeyjar, sjálfsagt.
Hvað hef ég lært af þessari flugferð?
- Ekki hlaupa á eftir strætó oná ís.
- Ekki vera í sléttbotna strigaskóm þegar það er ekki sumar og sól.
- Hugsa meira um ferðalagið sjálft og minna um áfangastaðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)