LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 329 - Manngerð, elli og ríkidæmi
22.2.2010 | 19:17

329a
"Auðvitað mun ég deila með þér minni skoðun, Sókrates," sagði hann. "Sjáðu til, samkomur meðal okkur gömlu mannanna sem eru á svipuðu reki eru ekki óalgengar (og sanna þannig gamla máltækið!). Þessar samkomur eru án undantekninga notaðar fyrir nöldur af þeim sem sakna ánægjunnar sem fylgir æskunni. Þeir minna sjálfa sig á ástarlífið, drykkju, veislur og slíka hluti, og kvarta í framhaldinu yfir því að þeir hafi verið rændir þeim hlutum sem eru mikilvægir og halda því fram að áður hafi þeir lifað góðu lífi, á meðan þeir eru varla meðal lifanda í dag.
329b
Aðrir kvarta yfir hvernig fjölskyldur þeirra koma fram við þá gömlu eins og óhreinindi; og í raun er þetta megin ástæða þess að þeir kvarta endalaust yfir öllu því böli sem ellin hefur valdið þeim. En í mínum huga, Sókrates, eru þeir að ásaka saklausan aðila. Ef þetta væri ellinni að kenna, hefði reynsla mín verið eins - í það minnsta svo framarlega sem það á við um ellina - og þannig væri um alla þá sem hafa komist á þennan aldur. En ég hef hitt aðra, sem eins og ég, deila ekki þessari tilfinningu. Sérstaklega þegar ég var einu sinni með skáldinu Sófóklesi og einhver spurði hann, "Hvað finnst þér um kynlíf, Sófókles? Hefurðu ennþá getu til að stunda kynlíf með konu?"
329c
Hann svaraði, "Þegiðu, maður! Til allrar hamingju hefur mér tekist að losna undan slíku, eins og þræll sem hefur sloppið undan ofstækisfullum og grimmum herra." Á þeirri stundu þótti mér þetta svar gott, og ég hef ekki skipt um skoðun. Ég meina, það er enginn vafi á því að í ellinni færðu frið og frelsi frá hlutum eins og kynlífi. Þegar þráin linast í ákafa sínum og róast, þá gerist nákvæmlega það sem Sófókles lýsti - þú öðlast frelsi frá mörgum snarbiluðum herrum.
329d
Samt sem áður, þá er hár aldur manneskjunnar ekki það sem ber ábyrgð á þessu, né sambandi manns við ættingja, Sókrates, heldur manngerðin. Ef viðkomandi er sjálfagaður og vel skapi farinn, íþyngir ellin ekki mikið; fyrir aðra felst orsök óánægjunnar ekki bara í háum aldri, Sókrates - heldur mun slíkri manneskju líka þykja lífið erfitt í æsku.
329e
Ég fylltist aðdáunar á honum og orðum hans, og vegna þess að ég vildi að hann héldi áfram, reyndi ég að eggja hann áfram með því að segja, "Cefalus, mig grunar að flestir myndu bregðast við því sem þú ert að segja með miklum efasemdum; þeir myndu telja að þér finnist hár aldur auðveldur ekki vegna manngerðar þinnar, heldur vegna ríkidæmi þíns. Hinir ríku fá mikla huggun, segja þeir."
"Rétt hjá þér," sagði hann, "þeir efast. Og það er mikið til í þessu, en þó er þetta ekki jafn mikilvægt og þeir ímynda sér. Sagan um Þemístókles er mikilvæg í þessu samhengi - um það hvernig maðurinn frá Serifus sagði á óforskammaðan hátt að frægð hans væri ekki honum sjálfum að þakka, heldur borginni, svaraði hann, "Það er satt að ég hefði ekki verið frægur væri ég frá Serifus, en það er einnig satt að þú værir það ekki ef þú værir frá Aþenu."
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af hverju í ósköpunum er ég farinn að þýða heimspeki á blogginu?
22.2.2010 | 06:50

Öll vitum við mikið um sumt og höfum tilhneigingu til að telja okkur vita sitthvað um allt. Það getur verið betra að líta á það sem viðhorf til að dýpka þekkinguna.
Oft skrifa ég um mál sem ég tel mig vita lítið um, en skrifa um þau til að læra af þeim. Það sem hefur komið mér á óvart er að furðulega oft reynist skilningur minn góður og vangavelturnar hafa velt upp hliðum sem eru sannar.
Ekki eitthvað sem ég reikna með fyrirfram.
Annars er ég að rembast við að hætta að skrifa um ICESAVE. Þetta mál finnst mér soga úr mér orku, einfaldlega vegna þess að umræðan virðist að mestu byggð á kappræðum frekar en rökræðum. Í stað þess hef ég gripið til þess ráðs að þýða blaðsíðu úr Lýðveldinu eftir Platón þegar ICESAVE löngunin hellist yfir mig. Það er mín afvötnun.
Ég veit að þessi bók hefur þegar verið þýdd yfir á íslensku og það afar vel og nákvæmlega, en áhugi minn á þessu riti hefur lengi setið í mér, og finnst mér þægilegt að velta velta hlutunum fyrir mér frá einu tungumáli yfir í annað.
Þessi grein varð fyrst til sem athugasemd við blogg Sæmundar Bjarnasonar
Mynd af besserwisser: Uredd Stemme
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)