The Princess and the Frog (2009) *1/2
21.2.2010 | 19:20

10 ára sonur minn gaf myndinni líka eina og hálfa stjörnu, en dóttir mín 12 ára var rausnarleg og gaf henni tvær af fjórum. Þótti syni mínum myndin ógeðsleg vegna alltof mikillar áherslu á kossa og dóttur minni leiddist einfaldlega.
"The Princess and the Frog" er tilraun Disney til að vinna aftur í handteiknuðum teiknimyndum í stil við "The Little Mermaid", "The Lion King" og "The Beauty and the Beast". Myndin er vissulega fallega teiknuð, en kjarni hennar, sagan og frásögnin, er svo óáhugaverð og leiðinleg að það hefur afgerandi áhrif á teiknimynd sem manni finnst alltof löng. Ég leit þrisvar sinnum á klukkuna áður en myndin endaði og gat varla beðið eftir að komast út.
Tiana hefur misst föður sinn sem slitið hefur sér út við að vinna tvöfalda vinnu alla ævi, og hún er á sömu leið. Hún hefur þurft að líða fátækt þrátt fyrir mikinn dug, en á sér stóra drauma um að opna glæsilegan veitingastað. Þegar hún kyssir talandi frosk, sem er auðvitað prins Naveen í álögum, breytist hún sjálf í frosk, enda þurfti prinsessu til að breyta gaurnum aftur í manneskju.
Aðstoðarmaður prinsinn hafði nefnilega svikið hann og ætlar að taka hans stað og giftast til fjár með aðstoð hins illa Dr. Facilier sem er Voodoo-galdrakall með sérstaklega gott samband við skuggaverur. Hefst nú mikill eltingarleikur, þar sem þeir þurfa blóð úr hinum raunverulega Naveem til að viðhalda útliti aðstoðarmannsins í formi Naveem. Sendir eru skuggar úr undirheimunum til að eltast við froskana tvo, en froskarnir deyja ekki ráðalausir og fá óvænta aðstoð frá jazzdýrkandi krókódílnum Luis og hugrökku ljósflugunni Ray.
Pixar hefur spillt okkur með því að gera frábærar teiknimyndir með vel skrifuðum sögum. Þessi saga er einfaldlega ekki nógu vel sögð, persónurnar of flatar og óáhugaverðar. Það er ekki einu sinni hægt að mæla með þessari mynd fyrir þau allra yngstu vegna Voodoo atriðanna sem gætu heldur betur hrætt smábörnin.
"The Princess and the Frog" er ekki nógu góð til að vera sýnd í bíó. Lögin hitta heldur ekki í mark. Hún hefði átt að fara beint á DVD eða í sjónvarp. Það er reyndar mikið spilað af jazz í þessari mynd sem gerist í New Orleans, og minnir á andrúmsloftið í "The Aristocats" sem var þrungið einhvers konar ást á jazz.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
BÓK I
1. kafli - Árás á hefðir
328a
"Hva," bætti Adeimantus við, "veistu ekki að í kvöld verða kyndla-kappreiðar fyrir gyðjuna?"
"Kappreiðar?" sagði ég. "Það er óvenjulegt. Meinarðu að það verði kappreiðar þar sem keppendur skila af sér kyndlum til félaga sinna?"
"Nákvæmlega," sagði Pólemarkús. "Þeir eru einnig að undirbúa næturskemmtun sem þú mátt ekki missa af. Við ætlum að fara og sjá hana eftir kvöldmat, og þar verður líka fullt af ungmennum sem við getum talað við. Þannig að þú verður að gera eins og við segjum og vera hérna áfram."
328b
"Það lítur út fyrir að við ættum að vera áfram," sagði Glákon.
"Nú, ef þér finnst það," sagði ég, "þá ættum við að gera það."
Þannig að við fórum heim til Pólemarkúsar þar sem við fundum bræður hans Lysias og Euþýdemus, og líka Þrasímakkos frá Chalcedon, Charmantides frá Paeania, og Cleitophon son Aristonymusar. Faðir Pólemarkúsar Cefalus var líka í húsinu;
328c
mér fannst hann mjög ellilegur í útliti, en ég hafði ekki séð hann í langan tíma. Hann sat á stól með púða og með blómsveig á höfðinu, enda hafði hann verið að færa trúarfórnir í garðinum. Öðrum stólum hafði verið komið fyrir í hring, þannig að við settumst niður við hlið hans.
Þegar Cefalus sá mig, sagði hann halló og hélt áfram, "Sókrates, því miður fyrir okkur, venur þú ekki komur þínar til Piraeus. Þú ættir, þú veist. Ég meina, ef ég hefði nógu mikinn styrk til að fara bæjarferð án erfiðleika, þyrftir þú ekki að koma hingað, því að þá myndi ég heimsækja þig. En eins og staðan er, ættir þú að koma hingað oftar.
328d
"Í mínu tilfelli, sjáðu til, hefur sífellt minnkandi áhugi minn á líkamlegum nautnum jafnast nákvæmlega á við aukna ánægju mína á samræðum. Vinsamlegast farðu því að óskum mínum: verðu endilega tíma þínum með þessum ungu mönnum sem eru félagar þínir, en komdu einnig fram við okkur eins og vini - sem mjög nána vini - og heimsæktu okkur."
"Það mun ég örugglega gera, Cefalus," svaraði ég. "Ég hef í raun mjög mikla ánægju af að ræða við mjög gamalt fólk, því við ættum að læra af þeim. Það er komið lengra en við, má segja, á vegi sem við munum líklega einnig þurfa að ferðast, og við ættum að komast að því hvernig vegurinn liggur - hvort hann sé grófur og harður, eða auðveldur og sléttur. Og ég hefði sérstaklega gaman af því að spyrja um skoðanir þínar á honum, þar sem að þú hefur náð þeim tímamótum sem skáldin kalla "þröskuld hárrar elli". Myndir þú segja að það sé erfitt tímabil í lífinu, eða hvað?
- Frelsar ellin okkur frá líkamlegum nautnum?
- Eykst áhugi okkar á samræðum með aldrinum?
- Er ljóst að við þroskumst á æviskeiðinu eða fer okkur aftur?
- Er ellin eitthvað sem ber að kvíða eða hlakka til?
- Af hverju kvíða sumir ellinni?
- Af hverju hlakka sumir til ellinnar?
- Tengjum við saman dauða og elli?
- Tengjum við veikindi og elli?
- Höfum við góða ástæðu til að kvíða dauðanum?
- Er eðlilegt að óttast sjálfan óttann fyrir dauðanum?
Mynd: National Gallery of Art, Jan Lievens (Dutch, 16071674), Head of an Old Man, 1640