Pælingar
Siðgæði er ekki það sama og siðferði, þar sem að siðgæði er gildishlaðið hugtak, en siðferði er það ekki. Siðgæði ber merki um áhuga fyrir að setja siðferðilega mælikvarða og fylgja þeim eftir, en siðferði fjallar um að hver og einn rannsaki stöðugt eigin siðferði og beiti skynsemi til að öðlast það.
Það lítur út fyrir að þjóðfundur sé að kalla eftir trúaðra samfélagi, að þarna sé þjóðkirkjunni gefið tækifæri til að rétta hjálparhönd, að fólk sé búið að fá leið á stöðugu áreiti þeirra sem vilja aðskilja ríki og kirkju, að fólk hafi andstyggð á þeirri sundrungu, ósamstöðu og spillingu sem virðist einkenna nútímasamfélagið á Íslandi.
Ég skil vel ef fólk vill gera auknar kröfur á siðgæði í íslensku þjóðfélagi, en er samt engan veginn sannfærður um að rétta leiðin sé að hverfa aftur í aldnar kreddur. Þarna gætu enn og aftur sprottið upp átök á milli þeirra sem vilja fylgja siðferðislegum viðmiðum kristninnar strangt eftir án þess að gefa vafa nokkuð svigrúm, og hins vegar þeirra sem vilja að hver og ein manneskja leiti svara á eigin forsendum. Þetta gæti verið nýtt upphaf hinna stöðugu átaka milli vísinda og trúarbragða, milli frelsi einstaklingsins og skyldu hans, milli sannleika og trúar.
Mig grunar að ákall um siðgæði komi til vegna hinnar augljósu spillingar, fjársvikagjörninga og hneykslunarmála sem hafa dregið þjóðina niður í svaðið, og að eitthvað vanti til að hífa þjóðina upp úr kviksyndinu, kannski einhvern þjóðarkarakter, kannski einhverja hetju.
Ég efast um að fólkið hafi haft kristilegt siðferði kirkjunnar ofarlega í huga, en spái því að kirkjan muni túlka þessa niðurstöðu sem eldsneyti í baráttu hinnar kristnu þjóðar gegn vantrú.
Óformleg rannsókn
Ég leitaði að orðinu "siðgæði" með Google til að átta mig betur á viðteknum skilningi hugtaksins. Efstu 10 niðurstöðurnar voru þannig (endurtekningar fjarlægðar):
- Tvöfalt Siðgæði (Lag eftir PS&CO / Big Nose Band)
- Youtube: Hvað er þjóðkirkjan? Siðgæði
- Youtube: Guðni Ágústsson og kristilegt siðgæði (skilaboð: standa vörð um kirkjuna)
- Kristilegt siðgæði | Efst í huga (Blogg eftir Kristjönu Bjarnadóttur)
- Siðgæði - Trúin og lífið (Grein eftir Karl Sigurbjörnsson, biskup)
- Freedomfries » Siðgæði (Samansafn greina um kynferðislegt ofbeldi í Bandaríkjunum)
- Tvöfalt siðgæði gagnvart kennitöluflakki (Af Fuglahvísli á AMX)
- Tvöfalt siðgæði alkans. ÞAÐ ER TIL LAUSN (Blogg um alkóhólisma)
- Sigga Dögg » tvöfalt siðgæði (Bloggað um strippdans)
- Siðmennt » Er kristilegt siðgæði ekki lengur til? (Grein um tilvistarkreppu kristilegs siðgæðis)
Samkvæmt þessum niðurstöðum helstu leitarvélar heims, þá virðist fólk tengja hugtakið siðgæði við kristna trú, kynferðislega vafasama hegðun og hentistefnu.
Þjóðfundur
Samkvæmt frétt Eyjunnar um þjóðfund voru þetta helstu niðurstöðurnar:
- Siðgæði
- Mannréttindi
- Valddreifing ábyrgð og gagnsæi
- Lýðræði
- Náttúra Íslands vernd og nýting
- Réttlæti velferð og jöfnuður
- Friður og alþjóðasamvinna
- Land og þjóð
Myndbönd um siðgæði:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)