Á að banna trúarbrögð í skólum?

Trúfrelsi snýst ekki bara um að mega vera trúlaus í friði fyrir áreiti. Trúfrelsi snýst líka um að mega vera trúaður í friði fyrir áreiti. Kristni og ásatrú eru sjálfsagt þau trúarbrögð sem ríkt hafa á Íslandi frá öræfi alda, og vissulega sanngjarnt að gera þeim öllum jafnt undir höfði. Ef út í bönn er farið, þá væri alveg eins hægt að banna stærðfræði þar sem að sú grein er ekki byggð á öðru en ímynduðum tölum.

Það er ótrúlegt að þurfi að ræða þetta á tímum þegar margt fólk er í neyð og hjálpar þurfi. En sjálfsagt er eitthvað samhengi þarna á milli. Þeir sögðu einhverjir gamlir spekingar að samband væri á milli ræktun trúarbragða og trausts í samfélagi, að án trúarbragða ríkti upplausn og efi - og þá sama hver trúin er. Rétt eins og lýðræðið, er formið mikilvægara en innihaldið.

Allra best væri að hefja kennslu í gagnrýnni hugsun, siðfræði og heimspeki í skólum, en athugið að í þeim greinum er ekki reynt að troða gildum upp á fólk, heldur miðað að því að fólk skilji hvað í gildunum búi. Gildin koma frá fólkinu sjálfu, og með greiningu rökfræðinnar og með góðum samskiptum er hægt að kryfja af dýpt hin ólíku gildi, og reyna að átta sig á heildarmyndunum þeim að baki. Aftur á móti liggur djúpur vandi í þeirri tilhneigingu kennara til að "fræða" börn um sín eigin gildi umfram önnur. 

Það þarf ekki að banna eitt eða neitt. Hins vegar þarf að móta skólastefnu betur. Bæta stöðu og laun kennara, endurnýja námsgögn barna, setja metnað í menntun. Ég hef atvinnu af þessu í dag og líkar það vel. Því miður hefur reynst afar erfitt að finna leiðir fyrir slíkar hugmyndir á Íslandi, þar sem nám fór að snúast um að komast á endastöð sem fyrst til að komast í háskólanám sem fyrst til að komast út á atvinnumarkað sem fyrst til að græða sem mest sem allrafyrst, í stað þess að nema staðar í skjóli og virða heiminn og mannlífið aðeins fyrir sér.


Bloggfærslur 10. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband