Af hverju slær íslenska ríkið vopnin úr eigin höndum?
11.1.2010 | 21:43
Við verðum ekki vitur af því að minnast fortíðar okkar, heldur með ábyrgð gagnvart framtíð okkar.
- George Bernard Shaw:
Ólína Þorvarðardóttir og Björn Valur Gíslason sökuðu Evrópuþingmanninn Alain Lipietz um að misskilja lög Evrópusambandsins um ábyrgð um skyldur til endurgreiðsla úr tryggingarsjóði innlána. Lesið sjálf greinar þeirra með því að smella á nöfn þeirra og gerið upp hug ykkar sjálf. Væri ekki gáfulegra að leita fleiri ráða virtra ráðgjafa og Evrópuþingmanna áður en að gefa slíkar yfirlýsingar með hraði? Getur verið að ríkisstjórnin sé ekki að átta sig á umfangi málsins?
Hvor hefur rétt fyrir sér, sá sem tekur málstað Íslendinga, Alain Lipietz eða ríkisstjórnin, sem er afar fljót að gefa út yfirlýsingu gegn málstaði Íslendinga?
Ætlar þessi ríkisstjórn að endurtaka öll sömu mistökin og forverar þeirra? Eru þau föst í sömu hjólförum og vilja þau kannski bara sitja föst og láta skola sér í burtu með tíð og tíma? Málið er miklu stærra en íslensk lög segja til um, Hrun fjármálakerfis er afar sérstakt fyrirbæri og staðan í dag er afar viðkvæm.Yfirlýsingagleði gegn málstaði íslensku þjóðarinnar er ekki til bóta.
"Trúðu þeim sem leita sannleikans; efastu um þá sem þegar hafa fundið hann."
- Andre Gide
Það koma fram afar misvísandi upplýsingar um hvort að Íslendingar geti borgað þá skuld sem samþykkt á ICESAVE kallar yfir þjóðina, sem ég tel reyndar vera aukaatriði, því að geta og skal eru tvö afar aðskilin hugtök, og talað er um að endurgreiðslur muni taka frá 14 til 30 ár, við verstu hugsanlegu aðstæður. Þá er ljóst að verstu hugsanlegu aðstæður í huga þeirra sem meta þetta taka ekki með í reikninginn að fyrir 15 mánuðum síðan hrundi íslenskt fjármálakerfi, og slíkt getur auðveldlega gerst aftur á næstu 15 mánuðum, enda eru sífellt fleiri að flytja úr landi, sífellt fleiri að missa vinnuna, sífellt fleiri að missa heimili sín, enda standa spjót út úr skjaldborg heimilanna sem reka þennan venjulega Íslending beint í gegnum hjartað, á meðan snjóboltinn stækkar í brekkunni.
Þar að auki virka sjálfsagt fæst nákvæm hagfræðileg mælitæki á dag þar sem skortir á stöðugleika til að meta stöðuna vel, að hluta til vegna ráðstafana sem hafa verið gerðar til að ýta vandanum á undan sér, í stað þess að taka á honum strax.
Leitt að allt fólkið sem virkilega veit hvernig stjórna á þjóð er upptekið við að keyra leigubíla og klippa hár.
- George Burns
Ég vil taka það sérstaklega fram að ég hef endurskrifað þessa grein, og orðalagið í fyrsta uppkasti var uppfullt af einhvers konar heift sem réttlætiskennd mín kom í gang, en ég tamdi reiðina, hugsaði betur um það sem ég skrifaði, las aftur rök þeirra sem að málinu koma, og reyndi að temja þetta mál í hógvært málfar; en þess má geta að myndmálið í fyrsta uppkasti var afar ríkt, þar sem uppúr stóð skjaldborg með spjótum sem beint er að hjörtum íslenskra heimila. En reiðin hefur verið tamin, þannig að engar slíkar myndhverfingar birtast á þessari síðu í dag.
Hér er viðtalið við Alain Lipietz í Silfri Egils.
Hér hafnar Alain Lipietz ásökunum um misskilning.
Hér er fréttin af Eyjunni (smelltu á tengilinn til að sjá viðbrögð fólks) og fyrir neðan yfirlýsing forsætisráðuneytis:
Með aðild sinni að EES-samningnum gerðist Ísland hluti af innri markaði Evrópu. Samkvæmt tilskipunum ESB sem Ísland hefur tekið upp með lögum frá Alþingi gildir eftirfarandi:
· Banki sem er með höfuðstöðvar í EES ríki stofnar útibú í öðru EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkisins, þar sem höfðustöðvar (sic) bankans eru.
· Banki sem er með höfuðstöðvar í ríki utan EES stofnar útibú í EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs gistiríkisins, þar sem útibúið starfar.Ljóst er af þessu að þar sem Ísland er EES ríki féllu skyldur vegna trygginga á innlánum í útibúum íslenskra banka í öðrum EES ríkjum á íslenska tryggingasjóðinn. Þótt meginreglan sé einnig sú að eftirlit með því að fjármálastofnun geti greitt út innlán hvíli á heimaríki hefur af hálfu Íslands samt sem áður verið bent á að eftirlitsstofnanir gistiríkis séu ekki undanþegnar eftirlitsskyldum.
Samkvæmt tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi sem Ísland hefur tekið upp er það skylda sérhvers aðildarríkis EES að tryggja að á yfirráðasvæði þess sé komið á fót innlánatryggingakerfi, sem nái til fjármálastofnana með höfuðstöðvar í því ríki sem og útibúa þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin kveður skýrt á um að útibú í öðrum aðildarríkjum EES falli undir innlánatryggingakerfi heimaríkisins.
Íslensk stjórnvöld hafa á öllum stigum Icesave-málsins haldið því fram gagnvart Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu að um lagalega óvissu væri að ræða varðandi ábyrgð ríkissjóða við kerfishrun á lágmarkstryggingum innstæðueigenda. Jafnframt var strax í upphafi lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól, en öllum tilraunum til þessa hefur verið hafnað af öðrum samningsaðilum en það er meginregla í þjóðarétti að ríki geta ekki leyst úr ágreiningi sín á milli fyrir dómstólum nema allir aðilar samþykki. Þessi fyrirvari sem áréttaður er í 2. gr. l. nr. 1/2010 breytir þó engu um þá niðurstöðu að ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkis gildir um útibú banka innan EES þótt annað hafi verið fullyrt undanfarna daga.
![]() |
Lipietz vísar gagnrýni á bug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
The Hangover (2009) ***1/2
11.1.2010 | 18:01

"The Hangover" virkar á mig sem frekar lúmsk snilld. Hún er oft fyndin og þá sérstaklega í meðförum senuþjófsins Zach Galifianakis sem frekar klikkaður en velviljaður vandræðagemlingur. Að sjálfsögðu er myndin skylduáhorf fyrir þá sem höfðu gaman af Skaupinu 2009, sem notaði nokkrar senur úr þessari mynd á vel heppnaðan hátt.
Sagan er einföld. Fjórir vinir fara til Las Vegas í steggjapartý, en þeir detta svo hrikalega í það að þeir vakna minnislausir og með hausverk daginn eftir. Aðal skipuleggjandi ferðarinnar, Phil Wenneck (Bradley Cooper) er kennari í barnaskóla sem ætlar svo sannarlega að sjá til þess að vinur hans fái eftirminnilega skemmtun, og leigir flottasta og dýrasta herbergið sem hægt er að fá í borginni, að sjálfsögðu með kreditkorti vinar síns, tannlæknisins Stu Price (Ed Helms) sem vaknar með horfna tönn og gjörbreyttar framtíðarhorfur. Alan Garner (Zach Galifianakis) er svo hinn léttgeggjaði svili, sem olli minnisleysi allra félaganna, að sjálfsögðu óvart.
Félagarnir vakna í hótelherbergi sem hefur verið lagt í rúst. Það er tígrisdýr inni á baði og svo virðist sem að rúmi hafi verið kastað út af svölum, að ógleymdu barni inni í fataskáp. Og vinur þeirra Doug (Justin Bartha) hefur horfið og þeir hafa ekki nema um sólarhring til að koma honum í brúðkaupsveisluna hans. Í leitinni að vini sínum komast þremenningarnir smám saman að því hvað gerðist þessa örlagaríku nótt, og hvernig þeim tókst að koma við á spítala, stela lögreglubíl, lenda í návígi við snarklikkaðan mafíósa og Mike Tyson og súludanskonu leikna af Heather Graham.
Prýðileg skemmtun.
Mynd: Wikipedia