Vissirðu að ef þú samþykkir ICESAVE ertu að fremja landráð?
10.1.2010 | 15:43
Ég var að horfa á viðtal Egils Helgasonar við Eva Joly og Alain Lipietz í Silfri Egils, þar sem fram koma nákvæmlega þær skoðanir sem ég hef sjálfur komist að með mínum persónulegu rannsóknum og pælingum: að samþykkt ICESAVE samningsins er það sama og að samþykkja ólög sem munu hlekkja framtíðarkynslóðir Íslendinga í þrældóm fyrir Breta og Hollendinga. En rökstuðningurinn kemur nú frá fyrstu hendi af afar áreiðanlegum einstaklingi.
Það leikur enginn vafi lengur í huga mínum, eftir að hafa hlustað á frásögn Alain Lipietz, sem tók þátt í að semja lög um rekstur einkabanka í Evrópu, og hver beri ábyrgð hrynji bankinn. Ljóst er að einkabankar þurfa að búa til einkavarasjóð, en að alls ekki sé réttlætanlegt að ganga í sjóði heillar þjóðar, nema þjóðarsamþykki liggi fyrir. Hvorki Alþingi né einstakir ráðherrar geta tekið slíka ákvörðun.
Ástæðan fyrir því að reynt var að þrýsta ICESAVE lögunum í gegn án þess skilmála að hægt væri að fara með málið fyrir dómstóla er orðin skýr: þessi samningur var ekki byggður á lagalegum grundvelli, heldur frekju og yfirgangi fyrrum nýlenduherra sem virðist dreyma um fórna frægð, leggja Ísland í rúst og gera Ísland að breskri nýlendu, bundna af samningi sem engin þjóð ætti nokkurn tíma að sætta sig við.
Það hefur tekið mig afar langan tíma að festa skoðun mína við það sem ég trúi að sé satt. Það hefur alltaf verið eitthvað pláss fyrir efasemdir. Það er ennþá pláss, því ég hafna því algjörlega sem fræðimaður að útiloka að ég geti haft rangt fyrir mér, en ég hef gert upp hug minn, og ljóst að það þarf gífurlega sterk rök til að snúa þessari skoðun minni.
Hér eftir mun ég líta á þá íslensku manneskju sem vogar sér að réttlæta ICESAVE samninginn sem landráðamann, þar sem þessi samningur mun ekkert gera en að hefti frelsi allra Íslendinga í margar kynslóðir, og skapa fordæmi sem gefur erlendum öflum tækifæri til að vaða yfir okkur á skítugum skónum. Ég er tilbúinn að gefa þeim tækifæri sem studdu ICESAVE samninginn á þeirri forsendu að þeir vissu ekki betur, en frá deginum í dag, er ekkert sem réttlætir slíkan stuðning, og nokkuð ljóst að ég mun rannsaka rök þeirra sem reyna að halda því fram að eitthvað í veröldinni réttlæti að gera Ísland að þrælanýlendu.
Með því að vísa málinu í þjóðaratkvæði gaf Ólafur Ragnar þjóðinni von um að lenda ekki í þessari prísund. Mér finnst frekar grunnhyggið að fara ekki strax að samningaborðinu og ræða við Breta og Hollendinga áður en þjóðaratkvæðagreiðslan á sér stað, þar sem að nauðsynlegt er að ljúka þessu máli sem fyrst og snúa athyglinni að öðrum málum, og algjör skylda hugsandi Íslendinga að berjast gegn því að Íslendingar verði kúgaðir af stórveldum.
Davíð Oddsson sagði frá fyrsta degi að við ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna. Það var hárrétt hjá honum þá og er það ennþá í dag.
Ég vil taka það fram fyrir þá sem hafa þörf til að flokka einstaklinga eftir stjórnmálaskoðunum, að ég er ekki flokksbundinn neinum flokki og kaus í síðustu kosningum flokk sem er ekki lengur til, þó að þingmenn hans séu enn á þingi, og sumir þeirra að standa sig afar vel, en aðrir ekki.
Agli Helgasyni vil ég hrósa sérstaklega fyrir hans framlag til íslensku þjóðarinnar. Hann hafði þá skoðun fyrir ákvörðun Ólafs Ragnars að það hefði átt að samþykkja ICESAVE samninginn til að ljúka málinu strax, en ég sé ekki betur en að í dag hafi runnið á hann tvær grímur við að hlusta á Alain Lipietz. Egill hafði rangt fyrir sér, en hann er áreiðanlega nógu mikill maður til að viðurkenna slík mistök og vera þannig öðrum sem voru á sömu skoðun gott fordæmi.
Smelltu hér fyrir neðan til að skoða viðtalið, þetta er algjört skylduáhorf:
Eva Joly og Alain Lipietz á gervihnetti frá París
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (65)
Blórabögglar Hrunsins eða góðar fyrirmyndir?
10.1.2010 | 09:04
Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson hafa verið ranglega uppnefndir, úthúðaðir og gerðir að blórabögglum Hrunsins, þar sem auðveldara virðist oft að dæma fyrirfram, heldur en gefa viðkomandi tækifæri á að útskýra sitt mál, og hlusta á þá af athygli.
Ég lít svo á að þessir tveir fyrrverandi höfuðfjendur ættu í dag að sýna hvor öðrum samstöðu, enda báðir dæmdir af dómstóli götunnar fyrir rangar sakir, og sífellt uppnefndir þar sem erfitt er að hreinsa mannorð, þó að það sé hreint.
Báðir hafa verið ásakaðir fyrir að hafa stutt við bakið á útrásarvíkingum. Það gerðu reyndar flestir Íslendingar og var rétt, því fáa grunaði um glæpsamlegar athafnir væri að ræða, eins og hátt fer í umræðunni í dag. Báðir voru þeir sviknir af fólki sem þeir treystu: Ólafur Ragnar af fjölda fólks sem misnotaði stuðning hans til að auka verðmæti eigin fyrirtækja útfrá "good will" sem enn í dag er verðlagt fyrirbæri.
Davíð Oddsson hefur hins vegar legið undir enn alvarlegri ásökunum um spillingu, að hafa tekið þátt í að afhenda vinum sínum bankastofnanir þjóðarinnar á vildarkjörum, hafa áhrif á að hans eigin sonur hafi fengið dómarastarf þegar hann þótti ekki hæfastur, hafa samþykkt lán í svarthol bankanna sem síðan var fyrst og fremst notað í arðgreiðslur og bónusa. Þessi mál þarf að rannsaka.
Það hefur skaðað málstað Davíðs enn frekar að sækja um og fá starf sem ritstjóri hjá Morgunblaðinu. Aftur á móti hlýtur maður að spyrja, fyrst Davíð var fjarlægður úr embætti hjá Seðlabanka Íslands, hvað átti hann að gera? Hann sat ennþá undir upphrópunum og sjálfur fjármálaráðherra eggjaði hann til framkvæmda með því að tala um hann sem fyrrverandi stjórnmálamann á eftirlaunum. Einelti og biturð virðast einkenna samskipti þeirra sem hafa ólíkar skoðanir í stjórnmálum, og afar ljótt er að sparka í liggjandi mann, og vegna þessa skil ég hvers vegna Davíð samþykkti að gerast ritstjóri, hann vildi ekki vera aðgerðarlaus og varnarlaus undir stöðugu hnýtingum fyrrum andstæðinga sinna. Þeim var nær.
Reyndar held ég að svona hnýtingar hafi lengi verið háðar af þingmönnum. Ég man eftir slíku uppnefni og orðahraki á Alþingi árið 1992, úr munni þeirra Davíðs og Ólafs Ragnars, sem varð til þess að mér varð umhugað um uppeldisáhrif stjórnmálamanna sem fyrirmynda fyrir börn sem væru að vaxa úr grasi. Ég taldi þá og ég tel það enn að ef stjórnmálamenn komast upp með spillingu og einelti, þá verður slíkt endurspeglað af æskunni.
Nú er sú æska sem alin var upp orðin að útrásarvíkingum og stuttbuxna-, bæði drengjum og stúlkum, sem tekið hafa fyrirmyndir sínar nærri sér og hermt eftir þeim, enda lærir fólk mest af fyrirmyndum sínum.
Ég held að æðsta ábyrgð þingmanns sé að haga sér heiðarlega, hnýta ekki í andstæðinga sína, koma vel fram við fólk, vera hreinskilinn, vera góð fyrirmynd. Það er vegna þess að hvort sem viðkomandi líkar betur eða verr, þá er viðkomandi fyrirmynd sem æskan mun fylgja þegar hún vex úr grasi. Þetta er örugglega til of mikils ætlast, og þess vegna er Kirkjan notuð til að skaffa fyrirmyndir, fyrst nútímafólki virðist vera það verkefni ómögulegt.
Hér eru eftirminnileg brot úr ræðum þeirra Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, en báðir eru þeir meðal mikilvægra fyrirmynda þeirra kynslóða sem taka munu við Íslandi, og ég tel eitt þeirra helsta verkefni í dag vera að sýna heilsteyptan karakter, sýna í verki, og sanna fyrir þjóðinni, að þeir séu báðir góðir Íslendingar.
Þetta er úr frægu orðaskaki þeirra Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, þar sem þeir voru að ræða um auglýsingastofuna Hvíta Húsið, sem hafði fengið gífurlegar tekjur fyrir að vera í viðskiptum við Alþýðubandalagið, en Ólafur Ragnar var þá formaður Alþýðubandalagsins. Þannig að ásakanir um spillingu af hendi Davíðs Oddssonar er ekkert sem nýtt er af nálinni, og því svolítið merkilegt að í dag skuli hann vera ásakaður um nákvæmlega það sem hann er að gagnrýna í þessu fræga orðaskaki, sem tók náttúrulega ekki nema korter, en verður lengi í minnum haft:
"Upp úr þessum upplýsingum stendur og er meginmál að mínu viti hversu ógætilegt það var af formanni Alþb. að láta sömu auglýsingaskrifstofu vera í stórkostlegum viðskiptum við fjmrn. og sjá um kosningabaráttu Alþb." Davíð Oddsson, á Alþingi, 13. febrúar 1992, kl. 11:33.
Ég hélt satt að segja ekki, og vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að svona skítlegt eðli væri inni í hæstv. forsrh. en það kom greinilega hér fram. (Gripið fram í: Hvað sagði ræðumaður?) Ég sagði: svona skítlegt eðli." Ólafur Ragnar Grímsson um Davíð Oddsson, á Alþingi 13. febrúar 1992, kl. 11:39.
"Ég ætla ekki að gera sérstakar athugasemdir við munnsöfnuð þess þingmanns sem áðan talaði. Það er uppeldislegt vandamál hans." Svar Davíðs Oddssonar til Ólafs Ragnars Grímssonar, á Alþingi 13. febrúar 1992, kl. 11:44.
Ljóst er að Ólafur Ragnar hefur valið hvers konar fyrirmynd hann verður. Ég spái því að hans verði minnst fyrir hetjulega baráttu fyrir lýðræði þjóðarinnar, og að sú söguskýring muni lifa af eftir okkar daga. Það er enn afar erfitt að spá fyrir um hvernig Davíðs verður minnst, en eins og staðan er í dag lítur málið ekki vel út fyrir hann, hún er erfið og verður hann að vinna þrekvirki á réttu augnabliki, rétt eins og Ólafur Ragnar, til að endurheimta orðstýr sinn. Reyndar hefur hann gert það í mínum augum, með því að neita að greiða skuldir óreiðumanna, og Ólafur Ragnar hefur veitt honum óvænt liðsinni með ákvörðun sinni 5. janúar og síðan viðtölum við erlenda fjölmiðla.
Innan skamms verður Davíð að sýna þjóðinni og komandi kynslóðum hvar hann keypti ölið. Spái ég að hans tími muni koma eftir birtingu á niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis.
- Deyr fé,
- deyja frændur,
- deyr sjálfur ið sama.
- En orðstír
- deyr aldregi
- hveim er sér góðan getur.
- -Hávamál
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)