Eru stjórnvöld á villigötum þegar þau gleyma raunverulegri undirstöðu samfélagsins?
8.9.2009 | 05:35

Fjölskyldan er undirstöðueining allra samfélaga. Getur verið að hin íslenska þjóð hafi einfaldlega tapað skilningi á hugtökum eins og heimili og fjölskylda, og sjái fólk ekki lengur sem kjarna samfélagsins, heldur eitthvað sem mætir afgangs? Miðað við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar held ég að það sé málið.
Veltum þessu fyrir okkur og hvernig skuli forgangsraða í kjölfar Hrunsins og Kreppunnar.

Einstaklingar fá störf hjá fyrirtækjum til að halda fjölskyldunni gangandi, þannig að fyrirtækin þjóna fyrst og fremst hagsmunum einstaklinga, og þar með heimila, sama hvort að þú sért eigandi fyrirtækis eða starfsmaður. Hins vegar getur svo farið að starfsmaður eða eigandi sé orðinn það vellauðugur að hann áttar sig ekki lengur á því að starfið er í þjónustu við heimilið. Hugsanlega hefur átt sér stað einhvers konar firring þar sem þessi tengsl hafa horfið úr huga fólks. Vissulega eru störf nauðsynleg fyrir einstaklinga og velgengni fyrirtækja samofin lífi okkar allra, en þegar kemur að neyðarástandi þarf að forgangsraða rétt. Þegar skip farast er fyrst hugað að mannslífum, það sama á að gera þegar þjóðfélag fer undir. Heimilin eru í forgangi hjá lýðveldisríkjum. Ísland virðist ekki vera slíkt ríki.

Þar sem að íslenska krónan hefur fallið, hefur það að sjálfu sér gert þeim fyrirtækjum sem selja þjónustu úr landi mikið gagn, þó að gjaldeyristakmarkanir trufli sjálfsagt þau viðskipti. En fyrirtækin eiga ekki að vera í forgangi, einfaldlega vegna þess að þau þjóna fólkinu, en ekki fólkið fyrirtækjunum.

Sama gildir um ríkisstofnanir, eins og til dæmis grunnstofnunina, Alþingi. Þeim er ætlað að þjóna þegnum landsins, en ekki öfugt. Þar af leiðandi koma þær aftar í forgangsröðina. Í kapítalísku þjóðfélagi eru fyrirtæki sett í forgang á undan ríkisstofnunum, en öfugt í kommúnistaríki. Þar sem hvorugt virðist vera í gangi á Íslandi akkúrat núna, má sjálfsagt ímynda sér að við séum einhvers staðar á milli þessara tveggja afla. En svo er þó ekki.

Ísland er auðveldisríki, sem sannast á því að Ríkið forgangsraðar algjörlega með því að byrja á stærsta og erfiðasta verkefninu, að bjarga bönkunum, sem er þó einungis ætlað að vera þjónn fólks og fyrirtækja, en er varla grunnstoð samfélagsins, þó að bankarnir eigi að gagnast samfélaginu. Ekki má gleyma því að bankarnir virkuðu ekki fyrir Hrun. Þó að peningum verði dælt inn í þá þegar lán koma erlendis frá, þá er engin trygging fyrir að þeir muni virka eftir hrun.
Vissulega er fjármálakerfið gífurlega stórt og mikilvægt verkefni og ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera í forgangi. Málið er að þetta eru ekki eðlilegar kringumstæður. Það bendir allt til þess að fjármálakerfið bíði eftir að það geti aftur sett í gang árangurstengd laun og kúlulán, og endurtekið vitleysuna á nýjan leik.

Samkvæmt aðferðum verkefnastjórnunar er forgangsröðun Ríkisins rétt, þar sem hafist er handa við að lagfæra stærsta vandamálið í kerfinu, og þegar það er komið í lag er vonast til að allt annað smelli í lag, reddist. Hins vegar er fólk ekki forrit í kerfinu. Fólk er ekki hlutir. Fólk er ekki verkfæri.
Fólk kemur fyrst.
Á meðan það skilst ekki, erum við á rangri leið.
Bankar, stofnanir og fyrirtæki eru öll í þjónustu fólksins. Fólkið starfar fyrir bank, stofnanir og fyrirtæki, en er ekki verkfæri þeirra eða forrit sem mega mæta afgangi. Þegar kerfi eru annars vegar skal byrja að lagfæra stærsta vandann. Þjóðfélag er ekki sams konar kerfi.

Það er siðferðileg krafa að hafist verði strax handa við að hjálpa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem eru í neyð, og eru við það að tapa heimilum sínum, eiga erfitt með að útvega sér fæði og klæði. Það er eina forgangsröðunin sem manneskja getur gert. Það er hins vegar forgangsröðun sem tölvukerfi myndi aldrei velja, því að í kerfum er í lagi að fórna pörtum.
Við megum ekki við því að fórna einum einasta parti. Við erum að tala um mannslíf og sálarheill. Ef við forgangsröðum eftir notagildi, höfum við tapað mennskunni. Ef við forgangsröðum eftir mannvirðingu, sálarheill og óendanlegu verðmæti mannslífsins, þá erum við á réttri leið.
Við virðumst því miður vera á villigötum.
Hugsanlega er neyðin ekki ljós.
Um neyðaráætlanir:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)