Felst vanþekking okkar í oftrú á eigin þekkingu?
23.9.2009 | 08:19

Óli Jón sendi inn afar áhugaverða pælingu við grein sem ég skrifaði í gær, Eru trúarbrögð nauðsynleg? Ég vil ekki gera lítið úr öðrum athugasemdum með því að birta einungis þessa, en þær eru margar hverjar magnaðar og skemmtilegar aflestrar, bæði þar sem höfundar eru mér sammála eða ósammála, og hvort sem þeir eru allir sanngjarnir eða ekki í sínu máli. Reyndar finnst mér áhugavert hvernig sum svör beinast beint að persónu þess sem skrifar, frekar en að ræða málin af skynsemi, þar sem að helstu rök gegn trúarbrögðum er kannski sú að þau virðast ekki skynsamleg eða byggð á vanþekkingu. Því ætti að vera höfuðmál að skrifa skynsamlega og af þekkingu um þessi mál.
Hér er athugasemd Óla Jóns:
Í mínum huga er gamla lumman varðandi trú sú að maðurinn hafi eðlislæga og meðfædda þörf fyrir hana. Mín skýring er mun einfaldari því ég tel hana í upphafi sprottna upp úr fákunnáttu þar sem forverar okkar töldu sig þurfa að skýra út þá framandi veröld sem þeir bjuggu í. Hver bjó allt til, af hverju komu eldingar, hvernig varð maðurinn til, af hverju deyr fólk o.s.frv. Heimurinn hlýtur að hafa verið ógnvænlegur og því nauðsyn að skýra út hvernig hann virkaði.
Ég tel að ef einhver hefði sest niður með frummanninum þegar hann var að spá í þetta allt saman og útskýrt öll þessi atriði sem og þau lögmál sem heimurinn stjórnast að þá hefði hann horft á heiminn með allt öðrum augum og haft litla þörf fyrir trú. Það gerðist hins vegar augsýnilega ekki og því fór sem fór.
Síðan gerast ákveðnir einstaklingar umboðsmenn trúarinnar hér denn og öðlast þannig óskoruð völd. Gegn þeim er ekki hægt að keppa og þessum umboðsmönnum reynist auðvelt að kveða niður raddir skynseminnar enda geta þeir alltaf hótað því að umbjóðandi þeirra komi, að þeirra beiðni, og afgreiði þá sem múðra. Eftir þetta tekur það ekki langan tíma fyrir trúna að hefðast inn sökum þess að ætíð hefur verið lögð áhersla á að innræta smábörnum hana við fyrsta mögulega tækifæri. Trúin styrkist hressilega í sessi enda læra börnin það sem fyrir þeim er haft.
Ég skora á trúaða, hvort sem þeir eru kristnir eða hafa annan átrúnað, að íhuga af hverju þeir trúa. Ég þori að veðja að mikill meirihluti þeirra tilgreinir hina sk. 'barnatrú' sem ástæðuna. Barnatrúin er, í mínum huga, aumasta form trúarinnar því sá sem á sína barnatrú er í raun bara að sækja í það sem honum var innrætt á of ungum aldri. Það er þó ákveðið virði í því að hafa tekið hlutlæga afstöðu til trúarinnar eftir að fullum vitsmunum er náð og ákveða þannig að slást í hópinn. Barnatrúin er, í mínum huga, bara merki þess að viðkomandi hafi aldrei spáð mikið í sinni trú, heldur bara tekið því sem að honum var rétt í ungri æsku.
Þá er trúin ekki valfrjálsari en svo að hún virðist mest stýrast af landræðilegri staðsetningu þess trúaða. Er það tilviljun ein að kristin trú virðist vera ráðandi trúarform á vesturlöndum meðan hún á erfiðara uppdráttar annars staðar? Ef kristin trú er besta trúin, af hverju telja þá ekki allir hana besta? Af hverju eru t.d. ekki allir Íranar kristnir? Af hverju eru þeir allir múslimar? Það er merkileg tilviljun hvernig trúin virðist veljast eftir landfræðilegri legu.
Að lokum er skrýtið hvernig trúin virðist iðulega þurfa vernd og forsjá yfirvalda. Hér heima er t.d. Ríkiskirkja sem er á framfæri ríkisins, það eru til lög sem banna guðlast og bingó á föstudaginn langa. Börn eru sjanghæjuð í trúfélag móður alveg sjálfvirkt og er það því einu að þakka að skv. Þjóðskrá játar 80% þjóðarinnar kristna trú. Upplýst fólk veit auðvitað að svo er ekki, en opinberar staðtölur eru ótrúlega sterkar og skoðana myndandi. Trúnni er þannig ekki treyst til þess að komast af sjálf; hinir trúuðu hafa bara ekki meiri trú á henni en raun ber vitni.
Þetta er trúin í niðursoðnu formi í mínum huga.
Svar mitt, sem átti að vera svar í athugasemd en reyndist efni í nýja grein:
Trúin hefur í aldanna rás verið notuð af valdhöfum til að stjórna þegnum sínum. Þeir sem láta ekki að viðkomandi trúarbrögðum eru því oft álitnir óvinir ríkisins, samanber vísindamenn sem uppgötva að veruleikinn stangist á við trú yfirvalda.
Hins vegar gerist það með nýrri þekkingu að trúarbrögðin eru sífellt mótuð að nýjum aðstæðum, þrátt fyrir að einstaklingum sem fara með völd innan trúarbragða og stjórnmála geti þótt sér ógnað þegar ný þekking ryður sér leið inn í heimsmynd þeirra.
Vissulega hefur verið reynt að sameina þjóðir undir hugmyndafræði þar sem hugmyndin hefur verið að gefa trúarbrögð upp á bátinn, og láta stofnanir koma í staðinn. Það gerði kommúnisminn í Sovétríkjunum skipulega, svo að dæmi sé nefnt, en fólkið hélt samt áfram að iðka sína trú, bara í leyni. Það var síðan þegar Stalín opnaði kirkjurnar aftur til að berjast gegn nasismanum að honum tókst að leiða það vald í ákveðinn farveg, en nasistar gerðu þau afdrifaríku mistök að ógna Sovétrisanum.
Íslendingar hafa gengið í gegnum ýmislegt í sinni trúarbragðasögu. Þjóðin hefur trúað á Óðinn, síðan neydd til kaþólsku og síðar tekið upp lúterska trú. Nú virðist hún að mestu vera trúlaus, enda einstaklingshyggjan og efnishyggjan afar sterk á Íslandi, og þar af leiðandi finnst Íslendingum þeir ekki hafa neitt sérstaka þörf fyrir trúarbrögðum. Ég er engin undantekning frá því.
Hins vegar hef ég orðið var við og hef áhyggjur af því að Íslendingar eru sundruð þjóð og að í stað samstöðu erum við að berjast innbyrðis og eyðileggja hvert fyrir öðru. Það eina sem getur breytt þessu er hugarfarsbreyting, og það eina sem hefur nógu mikið vald til að valda slíkri hugarfarsbreytingu eru trúarbrögð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Þannig að ég tel skýringu Óla Jóns góða, en þó ekki hitta beint í mark, þar sem að kjarni trúarbragða byggir ekki á þekkingu eða þekkingarleysi, þó að vissulega móti slíkt hvernig trúarbrögð þróast innan ólíkra samfélaga, heldur tel ég trúarbrögð vera leið fyrir hópa til að finna samleið, og þá sérstaklega fyrir stjórnvöld til að fá markmiðum sínum framfylgt.
Það fer einfaldlega eftir því hvaða þekkingu viðkomandi hópur hefur þegar til trúarbragðanna er stofnað, hver útkoman verður, og vissulega hefur sú þekking áhrif á alla meðlimi viðkomandi trúarbragða. En það eru bara vissir hlutir sem við höfum ekki öðlast þekkingu á og munum hugsanlega aldrei ráða við, enda er mannlegri þekkingu takmörk sett.
Spurningar sem erfitt getur reynst að svara nema í nafni trúarbragða eru til dæmis:
- Af hverju er eitthvað til frekar en ekkert?
- Hver er merkingin eða tilgangurinn með lífinu? (Heimspekileg spurning sem hver og einn finnur eigið svar við, sem getur verið byggt á rökhugsun eða trú).
- Erum við að stefna eitthvert? Ef já, hvert? Ef nei, erum við þar sem við viljum vera?
- Hver erum við?
- Hver eru gildi okkar?
- Er heimurinn eins og hann ætti að vera?
- Er eitthvað sem sameinar mannkynið?
- Hvaðan kemur heimurinn og hvert fer hann?
- Hefur heimurinn alltaf verið til, og ef svo er, hefur hann þróast, og ef hann hefur þróast, af hverju?
Það er hægt að spyrja miklu fleiri spurninga þar sem þekking okkar nær ekki jafn langt og við gætum talið hana gera í fyrstu.
Niðurstaða þessara vangaveltna, í það minnsta fyrir mig, er að vanþekking okkar felist í oftrú á eigin þekkingu og að þessi oftrú á eigin þekkingu gangi frá trúarbrögðum, um sinn. Þau rísa alltaf aftur, bara í ólíkri mynd, enda nauðsynlegur hluti af samfélagi manna, sem í raun getur haft úrskurðarvald um hvort að hópurinn komist af eða ekki.
Að lokum:
Dædalus hannaði vængjapar úr vaxi og festi á fjaðrir handa sér og syni sínum, Íkarusi. Áður en þeir flugu frá eyjunni, varaði Dædalus son sinn við því að fljúga hvorki of nálægt sólinni, né of nálægt hafinu. Yfir sig hrifinn og kátur yfir því að geta flogið, flaug Íkarus um himinninn fullur forvitni, en gætti ekki að sér og flaug of nálægt sólinni sem bræddi vaxið. Íkarus hélt áfram að berja vængjunum saman en svo gerði hann sér grein fyrir að fjaðrirnar voru farnar og að hann var einfaldlega að slá saman berum handleggjum. Þannig hrapaði Íkarus í hafið. (Grísk þjóðsaga)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)