Hver tekur mark á nafnlausum bloggurum?
1.9.2009 | 07:06
Getur verið að bloggið sé orðið að ógn í huga spillingarafla og þeim sem vilja tjóðra málefnin niður þannig að skoðanir sem fólk myndar sér verði á þeirra nótum? Getur verið að sá hluti þjóðarinnar, eða jafnvel heimsins, sem er ekki farinn að lesa og skrifa blogg, sé njörvaður niður í skoðanir sem mataðar eru ofan í þau af skipulögðum fréttamiðlum?
Reiði þeirra sem hafa greitt himinháar fjárhæðir til að stjórna umræðunni í fjölmiðlum er skiljanleg, en ekki réttlát. Bloggið er orðið að byltingarkenndu fyrirbæri, frjáls skoðanaskipti, útgangspunktur lýðræðisins. Með slíkum skoðanaskiptum og umræðu verður lýðræði fyrst mögulegt.
Einræði þolir ekki frjálsa þjóðfélagslega umræðu. Verði takmarkanir settar á bloggið er það einungis vísbending um einræðistilburði. Aftur á móti geta frjáls skoðanaskipti og umræða, og þá jafnvel nafnlaus, leitt til virkari þátttöku lýðsins í lýðræðinu, því að án þátttöku lýðsins er ekkert lýðræði. Það þurfti mann að nafni Lýður til að kveikja þessar pælingar hjá mér.
Þar til í gær, hafði ég þá vanhugsuðu skoðun að ekkert mark væri takandi á nafnlausum bloggurum og að þeir hefðu samansem engin áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Ég hafði ekki hugsað þetta dýpra, og þar af leiðandi má kalla þetta fordóma um nafnlausa bloggara. Til að koma í veg fyrir að ég verði hins vegar fordómafullur til framtíðar um nafnlausa bloggara er ég tilbúinn að endurskoða hug minn, viðurkenna að ég hafði rangt fyrir mér, og skoða málið betur áður en ég felli nýjan vanhugsaðan dóm.
Þess vegna stuðaði það mig þegar Lýður Guðmundsson fjallaði um það í Kastljósviðtali að nafnlausir bloggarar væru farnir að stjórna þjóðfélagsumræðunni. Mér fannst þetta kjánaleg skoðun, og skrifaði grein um hana: Stunda bloggarar nornaveiðar?
Hins vegar vöktu pælingar mínar nokkuð hörð viðbrögð og mér var bent á að ég hefði einfaldlega rangt fyrir mér, þar sem að tekið væri mark á gagnrýni og vangaveltum nafnlausra bloggara, sem byggðu á áreiðanlegum upplýsingum. Ég velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að skoðun mín um þetta mál hafi ekki verið byggð á nógu góðri umhugsun, og játa því að ég hafði sjálfsagt rangt fyrir mér í þessu máli, og að ég hef þar af leiðandi tilefni til að læra eitthvað nýtt, ekki bara um hugmyndina, heldur um sjálfan mig - því að ef eitthvað hefur klikkað í ferlinu við að móta eigin þekkingu, þá er það eitthvað sem er vert að skoða nánar.
Reiði þeirra sem hafa greitt himinháar fjárhæðir til að stjórna umræðunni í fjölmiðlum er skiljanleg, en ekki réttlát. Bloggið er orðið að byltingarkenndu fyrirbæri, frjáls skoðanaskipti, útgangspunktur lýðræðisins. Með slíkum skoðanaskiptum og umræðu verður lýðræði fyrst mögulegt.
Hver veit hvernig óþokkum þeim sem hafa komið þjóðinni á hné dettur í hug að hefna sín á bloggurum. Það er sjálfsagt auðvelt þegar menn blogga undir nafni, eins og ég, en skiljanlega getur það pirrað óstöðugan þegar ekki er hægt að ná tökum á hinum nafnlausa bloggara.
Ég vil lifa í samfélagi þar sem skoðanir eru virtar, séu þær vel ígrundaðar og rökstuddar, en ekki hafnað vegna hentisemi. Ég vil geta lifað í samfélagi þar sem maður getur skrifað sínar skoðanir undir nafni, og hafi maður rangt fyrir sér, geti fólk sent inn athugasemdir og aðstoðað viðkomandi við að leiðrétta slíkar skoðanir. Ég stóð í þeirri trú að Ísland væri þannig samfélag.
Kannski hafði ég rangt fyrir mér þar líka?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)