Stunda bloggarar nornaveiðar?

 


 

Lýður Guðmundsson, forstjóri Exista, hélt fram í áhugaverðu Kastljósviðtali miðvikudaginn 26. ágúst að hann væri fórnarlamb nornaveiða, og að nafnlausir bloggarar stjórnuðu þjóðfélagsumræðunni á afar ósanngjarnan hátt.

Merkileg skoðun, og í fyrstu finnst manni þetta ósennilegt, en þegar maður hugsar svo til mála sem hafa komið upp, eins og til dæmis um týndan hund á Akureyri sem talinn var af, en var bara týndur, leiddi til mikilla ofsókna gagnvart ungum dreng sem talinn var hafa drepið hundinn.

Þannig að vald bloggsins getur vissulega verið mikið, og áhugavert að velta fyrir sér hvort að bloggheimar séu orðnir að álíka valdi og heimur stýrðra fjölmiðla. Stýrðir fjölmiðlar hafa hjá fræðimönnum yfirleitt verið flokkaðir undir fjórða valdið, en síðustu ár hefur heimur fjölmiðla gjörbreyst, þannig að nú geta allir tjáð sig um málefni líðandi stundar, og komið sínum skoðunum og hugmyndum á framfæri. Þetta hefur leitt til mikilla breytinga hjá dagblöðum víða um veröld, sem leggja sífellt meiri áherslu á netþátt fjölmiðlunar, heldur en eingöngu hið prentaða orð eða sjónvarpsmiðlun.

 

 

Nú má hugsanlega skipta þessu valdi upp. Sjónvarp,útvarp og dagblöð hafa lengstum farið með þetta vald til umráða, og stjórnað umræðunni eftir því hver á hvaða fjölmiðil. Til að mynda hefur verið rætt um að eigendur Baugs stjórni umræðunni gegnum Stöð 2, Bylgjuna og Fréttablaðið, og að aðrir eigendur stjórni öðrum fjölmiðlum, og með slíkri eignaraðild getað stýrt þjóðfélagsumræðunni og skoðun fólks.

Bloggið er hins vegar allt öðruvísi skepna. Hún er algjörlega stjórnlaus og ótamin. Sumir blogga undir nafni, aðrir ekki. Yfirleitt tek ég lítið mark á nafnlausu bloggi, en gef mér meiri tíma til að velta fyrir mér bloggi sem höfundar skrifa undir og taka ábyrgð á. Slíkt blogg hefur að mínu mati verið sýnilegra í umræðunni um Hrunið og vangaveltum um bankarán innanfrá, sem síðan hefur verið stutt af röddum innan úr stofnunum og víða úr þjóðfélaginu, þannig að grundvöllur hefur oft reynst á bakvið gruninn sem birtist í skrifum bloggara.

Það að enginn stjórni lengur þjóðfélagsumræðunni annar en lýður landsins (trommusláttur), og að bloggið þróist í að vera marktækt sem stór hluti af hinu 4. valdi, er vissulega merkilegt rannsóknarefni, og hugsanlega satt, en að gera mikið úr valdi nafnlausra bloggara finnst mér samt vafasamt. Reyndar má vel vera að slíkir bloggarar hrópi hátt og að fámennur hópur taki mark á þeim, en ég hef enga trú á að þeir stjórni umræðunni, frekar en manneskja á Austurvelli með skilaboð á kröfuspjaldi stjórnar ákvörðunum inni á Alþingi.

Nornaveiðar eru hins vegar áhugavert fyrirbæri. Jóhanna af Örk var fórnarlamb þeirra og hún brennd á báli. Þær voru stundaðar á Íslandi fyrr á öldum, og konur sem taldar voru til norna teknar af lífi. Það sama má segja um þá sem taldir voru kommúnistar í Bandaríkjunum á hinu svokallaða McCarthy tímabili, en þá voru menn settir á svarta lista fyrir pólitískar skoðanir sínar og þeim komið úr landi sem ekki höfðu ríkisborgararétt í Bandaríkjunum og voru með vafasamar pólitískar skoðanir. Þannig stunduðu nasistar veiðar á Gyðingum fyrir það eitt að hafa ákveðna trúarskoðun og sýna samstöðu.

Nornaveiðar eiga það sameiginlegt að það er raunverulegt afl að baki þeim, og að þær svipti einstaklinga frelsi á einn eða annan hátt, sem telst flokkast sem norn. Nornin á Íslandi í dag er hinn svokallaði útrásarvíkingur, sem hefur að mati þjóðfélagsumræðunnar farið geyst, verið óábyrgur í framsækni sinni og sýnt óreiðu þar sem óreiða má ekki vera til staðar. Upphafsmaður þessara nornaveiða, ef nornaveiðar má kalla, af virðingu við allt það fólk sem hefur verið fórnarlömb raunverulegra nornaveiða, var Davíð Oddsson, þegar hann sagði að þjóðin ætti ekki að borga skuldir óreiðumanna. 

 


 

Það sem sameinar útrásarvíkingana er:

  • Mikill veraldlegur auður og lúxuslíf
  • Lítil samfélagsleg eða siðferðileg vitund
  • Gífurlegar skuldir sem falla á íslenska framtíð

Sé þessum skilyrðum náð, getur viðkomandi talist útrásarvíkingur og réttilega má segja að viðkomandi eigi inni hjá þjóðinni lítið annað en afar mikla réttláta reiði, sem vissulega getur sprungið út í grimmd einhverra einstaklinga gagnvart útrásarvíkingunum.

Lýður minntist á að eigendur bankanna hafi verið sakaðir um bankarán, en bendir á að engin lög hafi endilega verið brotin. Það er nákvæmlega þetta sem tryllir óstöðugan, að hægt sé að fremja bankarán löglega og gera eigin þjóð gjaldþrota án þess einu sinni að skammast sín fyrir það, og ætlast síðan til þess að þjóðin borgi viðkomandi skaðabætur fyrir skaðann sem viðkomandi hefur hugsanlega valdið sjálfur með glæfralegu framferði.

Það er ekki verið að stunda nornaveiðar gagnvart útrásarvíkingum. Fólk er hins vegar byrjað að taka réttlætið í eigin hendur, þar sem því finnst réttlætinu ekki fullnægt af ríkisvaldinu, og sé það staðreyndin, þá er það vissulega áhyggjumál og þýðir að ríkisvaldið ætti að leggja meira á sig og flýta málsmeðferð, ekki aðeins til að tryggja eigin tilvist, heldur til að vernda bæði þjóðina og útrásarvíkingana. Útrásarvíkingar munu sjálfsagt ekki getað gengið öruggir um íslensk stræti fyrr en réttvísin hefur tekið á þeirra málum og dæmt þá af réttsýni.

 


 

Dómstóll götunnar er aldrei réttlætanlegur, en dómstóll götunnar er ekki það sama og nornaveiðar, þar sem að nornaveiðar eru skipulagðar ofsóknir af hendi fyrsta valds þjóðarinnar, áður var það kannski Kirkjan, en nú er það Ríkið sem fer með slíkt vald. Bloggarar stunda fyrst og fremst skoðanaskipti og upplýsingamiðlun, jafnvel áróður, og sem slíkir fara þeir ekki með nægilegt vald til að stunda nornaveiðar.

Ef Ríkið aftur á móti tæki þá ákvörðun að loka alla auðmenn inni og frysta allar eigur þeirra, þá værum við að tala um allt annað mál.

 

 


Bloggfærslur 31. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband