Vissir þú að landflótti skiptir ekki lengur máli, svo framarlega sem að nýtt líf fæðist í staðinn fyrir þann sem fór?

utlaginn_901833.jpg

Steingrímur J. Sigfússon virðist boða himneskt eða náttúrulegt réttlæti þegar hann minntist á það í ræðu að við ættum ekki að láta svartsýni ná tökum á okkur, og tók sem dæmi að fréttamiðlar birtu fleiri fréttir um mögulegan landsflótta heldur en mikinn fjölda fæðinga og þar af leiðandi fjölgunar á Íslandi. Hvað ef í stað fréttar um að stúlku hafi verið nauðgað í Þórsmörk væri sagt: "en hugsaðu þér allar stúlkurnar sem sluppu, af hverju er ekki sagt frá þeim?" Eða í stað þess að fjalla um flugvélina sem fórst, eða húsið sem brann, af hverju ekki að fjalla um allar flugvélarnar sem fórust ekki, eða öll húsin sem hafa ekki enn brunnið?

Þetta eru skilaboðin á degi þar sem sjálft Alþingi Íslendinga samþykkir að borga skuldir óreiðumanna með blóði íslenskrar framtíðar, með því að samþykkja skuldabyrðina sem fylgir ICESAVE, hvort sem að fyrirvarar eru á pappír eða ekki. Þegar 10 manns á veitingastað er réttur reikningur og einn segist ætla að taka hann, borgar hann og ætlar síðan að rukka félaga sína, þá verður hann kannski hissa þegar hann fær ekkert í staðinn, enda vinir hans þekktir fyrir það eitt að hafa af honum peninga. Vandinn er bara sá að það mun sjálfsagt kosta meira að ná peningnum til baka en að sleppa því yfir höfuð.

 


 

Ég er hræddur um að Alþingi hafi í dag, ásamt ríkisstjórn Íslands, dæmt hundruð eða þúsundir saklausra Íslendinga í útlegð - í ferðalag sem þeir munu aldrei ljúka, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Því miður er ég ekki að dramatísera hlutina.

Þeir atvinnulausu eru fyrstir til að fara úr landi því þeir hafa engu að tapa og eignir þeirra að hverfa hvort eð er. Ég velti fyrir mér hvort að fjöldi atvinnulausra á Íslandi hafi fækkað svo hratt vegna þess að þeir atvinnulausu flytja einfaldlega úr landi og eru teknir af atvinnuleysisskrá nema þeir fái atvinnuleysisréttindin flutt með sér, til þriggja mánaða - og hverfa eftir það sjálfkrafa af skrá, eins og þeir hafi aldrei verið til, eða hafi í það minnsta aldrei átt skilið að vera til. Eða er allt þetta fólk sem hefur verið sagt upp á síðustu mánuðum fengið ný störf?

Ég leyfi mér að efast.

 


 

Sjálfsagt skiptir þessi pæling mín engu máli, því að barn hefur örugglega nýlega fæðst á Íslandi, og ætti ég sjálfsagt að einbeita mér að því að samgleðjast þjóðinni yfir þeirri gjöf, eða kannski samhryggjast barninu vegna þeirra skulda sem það erfir vegna þess eins að það er íslenskt?

Annars þótti mér merkilegt í dag hversu fáir alþingismenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Ég hefði haft áhuga á að heyra rök allra þeirra sem greiddu atkvæði með eða á móti samningnum, sem og þeim mikla fjöldi sem skilaði auðu. Ég skil ekki hvernig fólk með sómakennd getur greitt atkvæði með slíkum samningi, né skil ég fólk sem getur setið hjá. Nema þá í mesta lagi skilið að þetta fólk telji sig vera klókt. Hins vegar skil ég vel þá sem samþykkja engan veginn að taka á sig eða þjóðina ábyrgð einkarekins fyrirtækis sem rekið var skelfilega illa og fór á hausinn í útlöndum, en var svo heppið að hafa íslenska eigendur. 

Kannski þau sem samþykktu samninginn, með fyrirvörum, hafi verið að gera hið eina rétta í stöðunni að eigin áliti, í þeirri veiku von að lánadrottnar þjóðarinnar muni sýna meiri vilja til að dæla lánsfé inn í landið og að hindranir til umsóknar í Evrópusambandið falli niður eins og nýklipptir lokkar. Á meðan brenna heimilin. Skortur eykst. Ef svo er, þá er um að ræða stórhættulegt bjartsýni á velvilja þjóðar sem beitt hefur Ísland hryðjuverkalögum - sem eru lög beitt gegn óvinaríki, og gert er ráð fyrir þessum velvilja áður en stríðsöxin hefur verið grafin.

Fyrir utan þetta og með Haga þjóðarinnar í huga, hvað ætli séu til miklar birgðir af næringarríku fæði í íslenskum matvöruverslunum?

 


 


Bloggfærslur 29. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband