
"Orðið 'leynd' er andstyggilegt í frjálsu og opnu samfélagi; og við sem fólk erum meðfætt og sagnfræðilega á móti leynisamfélögum, leynilegum loforðum og leynilegum ferlum." (John F. Kennedy)
Egill Helgason skrifar grein þar sem fullyrt er að verið sé að ákæra fimm íslenska blaðamenn fyrir að fjalla um lekann úr Kaupþingi sem varinn er með bankaleynd. Þessir blaðamenn hafa barist fyrir því að koma sannleikanum til skila, og lagt sig þannig í meðvitaða hættu - enda eru þeir sem hafa getu og vilja til að grafa upp og segja sannleikann oft litnir hornauga, þar sem að sannleikurinn getur verið ansi særandi hafirðu eitthvað að fela.
Ranglát reiði sprettur upp í garð þessara einstaklinga, sem koma í veg fyrir að svindl og svínarí sé haldið í felum, og með hverri uppljóstrun sem vekur athygli, eykst reiði þeirra sem vildu halda málinu leyndu. Helsti óvinur spillingar og svika er fólk sem leitar sannleikans, og svífst einskis til að afhjúpa sönnunargögn sem leiða okkur nær honum.

Það er aðeins ein gerð umburðarlyndis sem ætti að vera algjörlega skotheld og sett í forgang: gagnvart gagnrýnni hugsun og sannleiksleit. Þegar skortir á umburðarlyndi gagnvart gagnrýnni hugsun er það merki um að eitthvað mjög alvarlegt sé að.
Oft eru það trúarbrögð og stjórnvöld sem vilja takmarka gagnrýna hugsun, en þegar fyrirtæki eru komin í þann hóp og beita fyrir sér ríkisstofnunum, er hugsanlega rétt að endurmeta grundvallarskilning á hugsanlegum óvinum gagnrýnnar hugsunar. Sum fyrirtæki virðast vera að komast á stall trúarstofnanna hinna myrku miðalda, þar sem reynt var að stoppa fólk frá því að móta sér skoðun á heiminum sem byggð var á rökum frekar en trú. Þetta er hliðstætt.
Að vera ákærður fyrir að telja jörðina vera hnöttótta er ekki ólíkt því að vera ákærður fyrir að trúa ekki lygum sem ætlast er til að þú trúir af nefndum, almannatengslum og greiningardeildum, sem segja fyrst og fremst frá því sem hentar viðkomandi stofnun og leynir því sem gæti komið henni illa. Að ljóstra upp sannleikanum getur aldrei verið glæpur.

Hugtakið 'bankaleynd' er sambærilegt því að banna vísindamönnum að styðja aðrar kenningar en þær að heimurinn hafi verið skapaður af almáttugri veru, og ef sönnunargögn finnast sem benda til annars, þá skuli þau umsvifalaust grafin og hunsuð, enda augljóslega um svik að ræða fyrst þau passa ekki í hugmyndakerfið.
Bankaleynd virðist vera orðin að sönnum óvini íslensku þjóðarinnar, einhvers konar ofsatrú sem getur orðið heilum þjóðum að falli.
"Besta vopn harðstjórnar er leynd, en besta vopn lýðræðis er að vera opið." (Niels Bohr)
Þrumugóð ræða um þessi mál frá John F. Kennedy, 1961:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)