Hverjum er ekki sama um bankarán, spillingu og skuldsetningu kynslóða ef málin reddast á endanum?

magic-bus1

Í gær las ég áhugaverða og frekar hógværa færslu á Silfri Egils þar sem Egill Helgason talar um hvernig rútuferðir voru í gamladaga með söng, skralli og vissum óþægindum, og ber þær saman við þægilegu ferðirnar í dag þar sem fólk virðist ekki lengur hafa samskipti. Ég held hann hafi hitt ákveðinn nagla á ákveðið höfuð með þessari færslu.

Ég er farinn að hallast að því að tæknivæðingin hafi brotið niður samkennd fólks víða um heim, ekki bara á Íslandi, þar sem einstaklingshyggjan er orðin að einhvers konar trúarbrögðum. Við einöngrum okkur með því að eyða fjölmörgum klukkustundum fyrir framan sjónvarpstæki eða tölvu, og á meðan höfum við ekki eðlileg samskipti við annað fólk. Fólki virðist vera nokkuð sama um annað fólk, þó að það sýni tilfinningar sem segja annað, en þetta er það sem á ensku kallast 'apathy' og talin er til dauðalastanna sjö í kristinni guðfræði. Það er svolítið til í þessu. Köllum þetta apaþýðu.

apathy

Hugsanlega er það þetta viðhorf, að halda að hlutirnir reddist af sjálfu sér, og moka vandamálum frá þar sem að aðrir muni sjá um að leysa þau, sé eitt af grunnvandamálum okkar í dag. Það er einfaldlega svo mörgum nákvæmlega sama hvernig hlutirnir eru í raun og veru, enda finna þeir til eigin máttleysis og trúa hugsanlega að rödd þeirra hafi ekkert að segja í stóra samhenginu. Síðan er allt í allrabesta lagi svo framarlega sem að vandamálin valda ekki óþægindum eða ógna friði. 

Apaþýðan getur verið öflugt vopn í höndum stjórnmálamanna sem átta sig á hversu ríkjandi þetta viðhorf er orðið í nútímasamfélagi. Bloggarar og fjölmiðlafólk eru hugsanlega undantekning frá apaþýðendum, en þeir sem láta mata sig af upplýsingum og gera ekkert við þær annað en að spjalla um þær við eldhúsborðið heima, og reyna ekki að beita rödd sinni til breytinga á annan hátt en með því að merkja X á kosningaseðil útfrá því sem sýnist vera rétt, en ekki endilega því sem er rétt, gera þjóðinni meira ógagn en gagn, og færa þvílík völd í hendur stjórnvalda að ekkert mun geta leyst þau úr höndum þeirra annað en þeirra eigin framúrskarandi máttleysi og hugmyndaskortur, eins og gerðist hjá síðustu ríkisstjórn. Þetta köllum við lýðræði.

Ég hef á tilfinningunni að íslensk stjórnmál, og hugsanlega stjórnmál um allan heim, snúist meira um að halda völdum í kerfinu sem er við lýði, nota það til að tryggja eigin hagsmuni heldur en að láta gott af sér leiða. Yfirborðsmennskan virðist ríkjandi, þar sem betra er að hlutirnir líti vel út, vegna þess að almenningur hefur engan áhuga á því hvernig tilveran er í raun og veru, heldur viljum við bara lifa í friði og vera blekkt frekar en að vera með áhyggjur vegna sannleikans.

Málið er að hlutirnir reddast á endanum... eða hvað?

machiavelli

Machiavelli ræðir aðeins um lykilatriði til að halda völdum, í bók sinni, Prinsinum:

"Annað hvort kemurðu vel fram við þegna þína eða mölvar þá; verð veika nágranna og veikir þá sterku; þegar þú sérð fram á vandræði, komdu af stað stríði; ekki gefa öðrum völd; vertu eins og prinsinn sem valdi sér grimman ríkisstjóra til að koma á stjórn (en þegar hann var hataður af almenningi eftir að hafa þjónað prinsinum, hlaut prinsinn auknar vinsældir fyrir að taka hann af lífi vegna grimmdarinnar); framkvæmdu illa nauðsyn í einu höggi, greiddu arð smám saman; fullvissaðu stundum þegnana um að hinum erfiðu dögum muni brátt ljúka, og á öðrum tímum hræddu þá með ótta um grimmd óvinarins; láttu líta út fyrir að þú sért miskunnsamur, áreiðanlegur, fullur mannúðar, tryggur, þráðbeinn, en vertu andstæðan í veruleikanum þegar aðstæður krefjast þess; talaðu alltaf fallega um dygðir, því að flestir dæma þig út frá því sýnilega; notaðu trúarbrögð sem réttlætingu fyrir að hefja styrjaldir, þar sem það gefur þér rétt til 'guðlegrar grimmdar'." (Úr Prinsinum / þýðing HB)


Bloggfærslur 21. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband