Hverjum hefur þú rétt hjálparhönd nýlega?

Vegna flutnings okkar frá Íslandi til Noregs hefur gengið á ýmsu. Það er að mörgu að huga þegar flutt er á þann hátt sem við gerðum. Það hefur ekki verið jafn einfalt að flytja og það gæti hljómað.

Við lentum í vandræðum á Íslandi þar sem að ég keypti mér íbúð eftir að hafa flutt til Íslands 2004 eftir að hafa búið fjölmörg ár í Mexíkó, þar sem við lentum reyndar á hrakhólum eftir fellibyli og flóð sem rústuðu aleigu okkar. Þegar ég missti óvænt vinnuna í janúar og mat stöðuna þannig að skynsamlegt væri að flytja úr landi og lifa í reisn heldur en láta börnin upplifa íslensku kreppuna sem mun fyrr eða síðar snerta hvert mannsbarn. Fellibylur og flóð er nóg fyrir 9 og 11 ára börn. 

Það sem hefur komið mér mest á óvart við þennan flutning til Noregs eru ekki öll vandamálin sem hrannast upp og virðast við fyrstu sýn óyfirstíganleg, heldur allir þeir vinir og ættingjar sem hafa rétt okkur hjálparhönd af mikilli gjafmildi og gæsku. Miskunnsama samverjann hef ég upplifað stöðugt af eigin raun og skynja afar vel hversu mikilvægt það er að sýna stuðning þegar hans er þörf, bæði í orði og verki.

Foreldrar mínir, bróðir, systir, frændur og frænkur, vinir og kunningjar; og ekki síst eiginkona mín og börn; allir hafa lagst á eitt og sýnt stuðning og rétt mér hjálparhönd. Ég get varla beðið eftir að komast í slíka aðstöðu á ný þar sem ég get hjálpað öðrum og launað vinum mínum þessa greiða sem þeir hafa með gjafmildi reitt fram, þrátt fyrir að þeir hafi þurft að fórna eigin þægindum fyrir stuðninginn.

Ég vil þakka kærlega hverjum og einum sem hefur sýnt stuðning í orði og/eða verki.


Hvað er glæpur og hvað er ekki glæpur?

arrested

  • Að afhenda vinum sínum eignir þjóðarinnar til sölu og lána þeim fyrir kaupunum með peningum þjóðarinnar?
  • Að fella krónuna skipulega til að láta ársfjórðungsreikninga líta betur út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir alla þá sem skulda verðtryggð lán eða myntkörfulán?
  • Að selja eignir eigin fyrirtækis öðru eigin fyrirtæki og borga ekki þessar eignir með hvorugu fyrirtækinu, enda voru kaupin gerð með lánum?

Ef einhverjum finnst eitthvað af þessu ofangreindu flokkast undir eðlileg viðskipti eða ásættanlega samfélagshegðun skal viðkomandi vinsamlegast taka til rannsókna á eigin gildum.

Þetta eru kjarnamálin sem þarf að leiðrétta með hörðu réttlæti. 

Önnur mál sem taka á efnahagi framtíðar og eru afleiðingar ofangreindra glæpa, en hugsanlega einu leiðirnar:

  • ICESAVE
  • Óviðráðanlegar (?) skuldir þjóðarbúsins
  • ESB

Við þurfum að muna hvað er orsök og hvað eru afleiðing. Það þarf að taka á orsökunum af mikilli hörku, vonandi með áframhaldandi Evu Joly og annarra snillinga, en við þurfum einnig að geta treyst einhverjum til að taka góðar ákvarðanir um framtíðina - þó að allt val virðist hafa fleiri slæmar hliðar en vænar.

Nú er sumar, og samkvæmt sumarhefðum hætta Íslendingar að hugsa þar til um miðjan ágúst. Þá fer allt í gang á ný og línurnar fara að skýrast.

  • Hefur orsakavaldinum verið breytt?
  • Er verið að taka vel á afleiðingunum? 
Ég held, þó að ég sé ekki hrifinn af ríkjandi stjórnvöldum, sem eru þó betri en pappírstætarar fyrri stjórnar, að þau séu að gera sitt besta, og að það sé betra en aðgerðarleysið sem áður plagaði stjórnmál og þjóðina.

 

Engu að síður sé ég fram á harðan vetur fyrir þá sem enn búa á Íslandi.


Bloggfærslur 14. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband