Skal rannsaka umsvifalaust hagsmunatengsl þeirra sem ófrægja Evu Joly?

Ofurbloggarinn Lára Hanna hefur reynst þjóðinni sem ljósgeisli í þoku kreppunnar. Enn einu sinni skrifar hún grein sem er margfalt betra en flest það sem kemur úr íslenskum fjölmiðlum, enda snýst aðferð hennar um gagnrýna samantekt á efni fjölmiðla og blogga, sem hún síðan notar til að komast að vel rökstuddri niðurstöðu.

Ljóst er að hún ber fyrst og fremst hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti. Hún hefur hjartað á réttum stað. Hún fær ekkert borgað fyrir það. Hún er þjóðin. Lesið grein hennar hérna.

Ég tek undir stuðning hennar og Hagsmunasamtaka heimilanna við Evu Joly sem sagði sjálf, áður en hún hóf störf fyrir íslensku þjóðina, að reynt yrði að ófrægja hana og gera störf hennar vafasöm á einhvern hátt. Þessar raddir eru farnar að hljóma, en virka þveröfugt. Í stað þess að vekja vafa á Evu Joly, vekja þær strax vafa á þeim sem talar gegn henni, og athygli þeirra sem rannsaka spillinguna og hrunið hlýtur því að beinast að hagsmunatengslum viðkomandi aðila.

Ég efast samt um að allir sem hallmæli Evu Joly séu að fela eitthvað. Sumt fólk getur einfaldlega verið tortryggið eftir klúðrið og spillinguna sem er að fljóta upp á yfirborðið. Tortryggni er eðlileg afleiðing svika og eðlilegt að fólk treysti ekki auðveldlega aftur í blindni.

Það er merkilegt hvernig bloggið er að sýna gildi sitt í þessu umróti. Bestu bloggararnir, sem fá engin laun fyrir skrif sín og skrifa án sérhagsmuna upplifa líka stöðuga ófrægingu. Í daglegri umræðu er oft talað um bloggara með niðrandi tón, kannski vegna þess að mikill fjöldi þeirra vandar sig ekki, og kannski vegna þess að hugtakið er enn frekar nýtt í íslensku samfélagi. Það er eins og fólk efist um ágæti bloggsins, rétt eins og sumir efast um ágæti Wikipedia vefsins - sem hefur reynst öflugri en sjálf Britannica með réttri notkun, - enda þeim vef afar vel stjórnað.

Ófræging mun eiga sér stað gegn öllum þeim röddum sem hrópa gegn óréttlætinu. Ég get ímyndað mér að fólk sem hafi hagsmuni að gæta segi um blogg Láru Hönnu: "Tja, hún er nú bara bloggari. Þú veist hvernig bloggarar eru..."

Ég bið lesendur að hugsa gagnrýnið um þessar gagnrýnisraddir.


Bloggfærslur 14. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband