10 skilyrði sem stjórnmálaflokkur þarf að uppfylla til að fá atkvæðið mitt í næstu alþingiskosningum:
1. Þeir sem eru í framboði fyrir flokkinn, sama hvaðan af landinu þeir eru, mega ekki hafa verið tengdir spillingu á nokkurn hátt.
2. Flokkurinn verður að koma með raunhæfa og framkvæmanlega lausn vegna vanda heimila í landinu. Helst tengda niðurfellingu á skuldum og að verðtryggingar eins og þær eru í dag heyri sögunni til.
3. Flokkurinn verður að vera tilbúinn í viðræður um ESB aðild. Þetta þýðir að kvótaspilling sem og önnur spilling geti lent í uppnámi og að krónan verði aflögð sem gjaldmiðill.
4. Flokkurinn verður að hafa fjármál sín fyrir opnum tjöldum.
5. Flokkurinn verður að lofa að gagnrýnin hugsun verði að markmiði í íslensku menntakerfi, umfram hátæknivæðingu.
6. Flokkurinn verður að lofa að aðhlynning sjúkra verði að markmiði í íslensku heilbrigðiskerfi, umfram hátæknivæðingu.
7. Flokkurinn verður að hafna því algjörlega að greiða skuldir óreiðumanna, þar með talið Icesave, og stefna viðeigandi einstaklingum vegna ábyrgðar þeirra.
8. Flokkurinn verður að lofa raunverulegum stuðningi við rannsóknina á bankahruninu og því að öllum sakamálum sem rísa í kjölfarið verði fylgt eftir af hörku.
9. Flokkurinn ætti að koma með tillögu að sjálfstæðisyfirlýsingu Íslendinga. Á grundvelli sjálfstæðisyfirlýsingar sem telur upp helstu gildi íslensku þjóðarinnar og allir flokkar hafa samþykkt, og einnig þjóðin í þjóðaratkvæðisgreiðslu, skal byggja nýja stjórnarskrá.
10. Flokkurinn verður að sýna fram á hvernig hann ætlar að fá þá Íslendinga aftur heim sem neyðst hafa til að flytja af landi vegna kreppunnar.
Gleymi ég einhverju sem skiptir máli?
Hvernig verður Ísland árið 2049?
8.4.2009 | 09:17
Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig framtíð okkar Íslendinga verður eftir Hrun og kreppu, hvort að þetta ástand muni hægja á tækniframförum og hugsanlega draga úr þeim gífurlega hraða sem öll þróun virðist vera á í heiminum. Ef kreppan dregur úr íslenskri þróun, mun hún líka draga úr alþjóðlegri þróun?
Ég hef ekki hugmynd um hvaða áhrif kreppan mun hafa á heiminn sem við lifum í, en finnst það áhugavert rannsóknarefni. Hvernig færum við annars að því að mæla slíkar breytingar?
Vissir þú að árið 2006 var því spáð að Kína yrði það land sem inniheldur flesta enskumælandi einstaklinga innan fárra ára, þar sem að allt framhaldsskóla- og háskólanám þar í landi krefst enskuþekkingar?
Kíktu á þetta sláandi myndband sem gert var fyrir skóla í Colorado árið 2006. Eiga spádómarnir um framtíðina sem koma fram í myndbandinu við í dag, eftir efnahagsfrostið mikla?
Hefur vélin bara rétt hikstað, eða er hún að hægja á sér? Getur verið að hún stöðvist og í kjölfarið fylgi afturför í stað þróunar?
Ég hef ekki svarið við titilspurningunni, og slíkt svar getur að sjálfsögðu aldrei orðið neitt annað en getgátur, það er að segja fyrr en á árinu 2049, þá getum við kannski gert okkur í hugarlund hvernig sá heimur er.
Reyndar er ég ekkert sannfærður um að við vitum almennt hvernig heimurinn er árið 2009, en það er kannski annað mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)