Unglingadeild Leikfélags Kópavogs: Viltu vera vinur minn á Facebook?
7.4.2009 | 21:26

Í kvöld fór ég á þriðju sýningu Unglingadeildar Leikfélags Kópavogs, sem tólf stúlkur og leikstjórinn sömdu og settu upp á aðeins fimm vikum. Það var uppselt á sýninguna og bæta þurfti við stólum til að allir kæmust að.
Sýningin sjálf er afar skemmtileg, með eftirminnilegum söngvum og dansi, góðri notkun á hátækni sem fléttað er vel inn í sýninguna, miklum og góðum húmor og smá melódrama.
Sagan fjallar um BootCamp þjálfarann Diljá (María Björt Ármannsdóttir) og vinkonur hennar, um hvernig hún verður háð Facebook eftir að hafa fengið þá hugdettu að leita föður síns á þessu ágæta tenglaneti. Það vill ekki betur til en svo að hún ánetjast leikjum og vinasöfnum á síðunni. Vinkonur hennar og námsráðgjafi hafa áhyggjur, skvísuklíka slúðrar, og líf hennar endar í mikilli óreglu.
Það er eins og himnarnir séu að hrynja yfir Diljá, og eina von hennar til að ná aftur tökum á lífinu er að vinir hennar standi við hlið hennar þrátt fyrir stöðuga höfnun af hennar hendi. Og svo er það spurningin um hvort henni takist að finna föður sinn.
Þarna er afar vel að verki staðið og ljóst að þeir sem hafa áhuga á leiklist ættu að óska eftir fleiri sýningum, en ég veit að þetta átti að vera lokasýningin.
Sýningin byrjar reyndar strax og áhorfendur koma inn í leikhúsið, þar sem leikarar taka vel á móti þeim á frumlegan og skemmtilegan máta.
Anna Brynja Baldursdóttir leikstýrir.
Leikarar:
- Agnes Engilráð Scheving
- Alda Björk Harðardóttir
- Anna Kristjana Ó. Hjaltested
- Dagbjört Rós Kristinsdóttir
- Elísabet Skagfjörð
- Hulda Hvönn Kristinsdóttir
- Helga Þórðardóttir
- Júlíanna Ósk Einarsdóttir
- Lovísa Þorsteinsdóttir
- María Björt Ármannsdóttir
- Sigrún Gyða Sveinsdóttir
Afar flott og skemmtileg sýning, og það að uppsetning hennar með ritun handrits og öllu skipulagi hafi aðeins tekið fimm vikur, þarf ekki að nota sem réttlætingu, heldur stendur sýningin á eigin fótum sem góð skemmtun þrátt fyrir stuttan undirbúning.
Það verður spennandi að fylgjast með hvort að hópurinn muni bæta við sýningum. Það verður reyndar aukasýning 9. maí í tengslum við Kópavogsdaga. Um að gera fyrir fólk að hafa samband við leikhúsið og panta miða. Það kostar ekki nema kr. 1000 á sýninguna, og gaman jafnvel að taka börn með.
Áhugasamir geta haft samband við Leikfélag Kópavogs á midasala@kopleik.is eða í síma 823 9700.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stallone og Schwarzenegger loks saman í hasarmynd
7.4.2009 | 19:39

Á 8. og 9. áratugnum vonuðust margir hasarmyndaunnendur eftir því að Arnold Schwarzenegger og Sylvester Stallone leiddu saman hesta sína. Nú er komið að því. Ásamt þessum goðsögnum hasarmyndanna, munu margir af helstu hasarleikurum síðustu þriggja áratuga leika í myndinni:
- Jason Statham
- Mickey Rourke
- Jet Li
- Dolph Lundgren
- Danny Trejo
- Eric Roberts
Það verður gaman að sjá hvað verður úr þessu hjá gömlu kempunum.
Ég er reyndar á þeirri skoðun að myndin mætti heita The Wrestlers, svona til heiðurs Mickey Rourke og myndinni sem náðist nýlega af Stallone þar sem hann skutlar sér tígulega til jarðar.

10 málshættir með kjánalegum útúrsnúningum
7.4.2009 | 11:10
Það er stutt í páska og þá blómstrar málsháttamenning Íslendinga. Hefurðu pælt í því þegar þú heyrir málshætti að þó þeir hafi kannski eitthvað viskubrot, þá ganga alhæfingar þeirra sjaldan upp.
Hér eru nokkur dæmi:
1. Að hika er það sama og að tapa, nema þegar þú stendur í marki og kastar þér á boltann áður en honum er sparkað.
2. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, en trúirðu ekki á tilvist sálarinnar, hugsaðu um sjálfan þig, græddu eins mikið og mögulegt er og brostu þegar hagkerfið hrynur.
3. Af litlum neista verður oft mikið bál, nema þú sért að kveikja á eldspýtu í sturtu.
4. Af máli má manninn þekkja, en deila má um hvort það sé af ummáli, flatarmáli, kaffimáli eða frönskukunnáttu.
5. Aldrei er góðum liðsmanni ofaukið, nema liðið sé fullskipað.
6. Aldrei er góð vísa of oft kveðin, nema þegar þú setur hana inn í athugasemdakerfi allra blogga alla daga.
7. Auðkenndur er asninn á eyrunum, nema hann noti hjálm.
8. Allt tekur enda um síðir nema síður frakki sé.
9. Allt er vænt sem vel er grænt, nema það sé andlit í spegli á sunnudagsmorgni.
10. Allir hlutir eru svartir í myrkri, fyrir utan sálina, andardráttinn, sólina og óþolandi trommusláttinn í kjallaranum, vaxliti, sjálflýsandi leikföng og alls hins sem er ekki svart í myrkri.
Mynd: Softpedia
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)