
Til að lesa alla greinina, smellið á "Hugleiðingar lögmanns"
Það er einfaldlega þannig að þegar aðilar eru í viðvarandi viðskiptasambandi (lánasamningur til langs tíma er t.d. slíkt viðskiptasamband), þá hvílir gagnkvæm tillits- og trúnaðarskylda á aðilum. Þannig getur annar aðilinn skapað sér bótaskyldu gagnvart viðsemjanda sínum ef hann bregst þeirri skyldu og það leiðir til tjóns gagnaðilans. Nákvæmlega þessi staða er uppi hér á landi nú, gömlu bankarnir hafa algerlega brugðist skyldum sínum í þessu efni og það hefur leitt til gríðarlegs tjóns fyrir viðsemjendur þeirra. Þetta verður ennþá augljósara í því ljósi að bankarnir eru ráðandi aðili í þessu samningssambandi, bæði í krafti stærðar sinnar og sérfræðikunnáttu, en það er almenn lögskýringarregla í málum af þessum toga að sá sem kemur fram sem sérfræðingur og ráðandi aðili í samninssambandi, þarf að svara ríkari skyldum um tillit við viðsemjanda sinn. Öll löggjöf varðandi neytendasjónarmið og neytendavernd er m.a. byggð á þessum sjónarmiðum.
Þessu til viðbótar má einnig velta fyrir sér stöðu aðila í samningssambandinu útfrá ákvæðum samningalaga, en þar er að finna ákvæði um forsendubrest og atvik sem leitt geta til þess að samningi sé vikið til hliðar að hluta eða öllu leyti, sem einnig geta almennt fastlega komið til greina í réttarsambandi skuldara og lánveitenda hér á landi í dag.
Í ljósi ofanritaðs tel ég algerlega fráleitt að nýju bankarnir innheimti að fullu skuldaviðurkenningar gömlu bankanna, enda liggur fyrir að sá grunnur sem samningur aðila byggði á hefur verið eyðilagður með aðgerðum gömlu bankanna, æðstu stjórnenda þeirra og eigenda. Vegna þessa tel ég að nýju bankarnir hafi ekki lagalegan rétt til að krefjast fullrar greiðslu allra þeirra krafna sem þeir halda nú á, enda geta þeir ekki öðlast betri rétt en sá sem þeir leiða rétt sinn frá. Ég hvet því alla þá sem nú er verið að biðja um að skrifa uppá ný skuldaskjöl að gera það með fyrirvara ef þeir vilja láta reyna á mál sín fyrir dómstólum, enda kunna menn að glata eða a.m.k. minnka mótbárurétt sinn með því að gera ekki fyrirvara um slíkt í nýjum skulda- eða skuldbreytingaskjölum.
Og...
En hvaða leiðir á að fara til að minnka skuldir?
Við því er ekkert eitt rétt svar og ljóst er að hver sú leið sem verður valin mun verða umdeild. Það er hins vegar úr ýmsu að moða og nauðsynlegt að velta nú þegar upp sem flestum möguleikum í þessu efni, einfaldlega til að við fljótum ekki sofandi að feigðarósi. Ein af þeim leiðum sem mér hefur dottið í hug er að byrja á því að taka á vandamálunum með gengistryggðu lánin og stöðva ógnarhjól verðtryggingarinnar, en þessa tvo þætti má telja stærstu dómínokubbana í því ferli sem við er að etja, auk lækkandi eignaverðs í landinu. Þar sem gömlu bankarnir og eigendur þeirra hafa orðið uppvísir að því að ráðast gegn gengi krónunnar og viðskiptamönnum sínum nánast allt árið 2008, kæmi að mínu áliti til greina að alþingi setti lög sem heimiluðu skuldurum lána í erlendri mynt að skuldbreyta þeim í krónur miðað við gengisvísitölu krónunnar áður en þessar grímulausu árásir hófust. Þannig yrðu lánin verðsett miðað við þá gengisvísitölu (130-150 stig), framreiknuð til dagsins í dag miðað við vísitölu neysluverðs til að gæta jafnræðis við þá sem skulda í krónum og afnema síðan með lögum vísitöluna til næstu 6 eða 12 mánaða á meðan menn taka afstöðu til þess hverja framtíðarskipan á að gera í þeim efnum. Verðtrygging er ekkert náttúrulögmál, enda var henni komið á með svolölluðum Ólafslögum,
nr. 13/1979. Fyrir þann tíma höfðu íslendingar lifað ágætu lífi (eins og aðrar þjóðir) án verðtryggingar. Með þessu yrði blásið nýrri von í brjóst almennings og fyrirtækja og skapaður raunhæfru grundvöllur til að halda áfram að skapa verðmæti í efnahagskerfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
The Wrestler (2008) ****
13.2.2009 | 09:39
Manstu eftir Taxi Driver (1976) og hvernig Robert DeNiro sló í gegn sem Travis Brickle? Misstir þú af Taxi Driver í bíó? Mickey Rourke jafnar þann stórleik og gerir enn betur í The Wrestler. Þú verður að sjá þessa í bíó.
Öðru hverju eru gerðar kvikmyndir með svo eftirminnilegum persónum að þær festast í huga manns og verða nánast að staðalímynd. The Wrestler er ein af þessum myndum. Frammistaða Mickey Rourke er svo frammúrskarandi og eftirminnileg að þetta er nánast eindæmi í sögunni. Ekki er verra að áhugaverðum minnum er bætt inn hér og þar og gefið í skyn að sagan sé hliðstæða af píslarsögu Krists.
Randy 'The Ram' Robinson er á síðasta snúningi sem fjölbragðaglímukappi. Hann elskar íþróttina og allt það sem hún stendur fyrir, en einhvern veginn er hinn brjálaði 8. áratugur liðinn með sínu þungarokki og brjálæði, og 9. áratugurinn einnig farinn hjá og sá 10. nánast á enda. Aldurinn hefur læðst aftur af kappanum og er orðinn hans skæðasti óvinur. The Wrestler fjallar um hvernig þessi glímukappi öðlast ódauðleika.
Þegar Randy fær hjartaáfall eftir sérlega blóðuga glímu, rennur upp fyrir honum ljós, að kannski, hugsanlega, sé eitthvað meira í lífinu en fjölbragðaglima og rokk og ról. Hann hefur ekkert samband við dóttur sína, lifir í fátækt og uppgötvar smám saman að hann er furðuvera í þessum heimi sem passar hvergi annars staðar en í hringnum. Nánasta samband hans við aðra manneskju er við Pam Cassidy (Marisa Tomei), nektardansmær á pöbb sem lítur fyrst og fremst á hann sem kúnna, þó að hann sjálfur sjái það góða í henni.
Randy fær starf í matvöruverslun við að afgreiða kjötvörur, en hjarta hans, þó að það sé á síðasta snúning, finnur ekki takt sem hentar honum. Hann uppgötvar að líf hans er einskis virði ef hann leggur sig ekki allan í það sem hann hefur alltaf lifað fyrir, fjölbragðaglímuna. Það er hans stolt, hans líf. Hann ákveður þrátt fyrir hjartaáfallið að þjálfa sig upp fyrir eina lokaglímu.
Saga fórnarlambsins Randy Hrúts er mikil þjáningarsaga, en ákvarðanirnar sem hann tekur eru allar af einurð og stefna allar að því að gera hans eina draum að veruleika - að verða goðsögn og setja mark sitt á heiminn, á hans eigin hátt, sama hvað það kostar og sama þó að það þýði fórn á eins og einum hrúti. Það má vel vera að draumur hans sé barnalegur og ekki í tengslum við veruleikann, en þessi Don Quixote nútímans hefur samt eitthvað til að bera sem gerir hann mun merkilegri en veruleikann sjálfan.
Mickey Rourke hlýtur að fá Óskarinn fyrir þennan magnaða leik. Annað er óhugsandi. Ég man ekki til þess að hafa séð nokkurn leikara setja jafn mikinn kraft í eitt hlutverk, jafnt í hringnum við glímu sem og utan hans. Reyndar er leikur Robert DeNiro í Taxi Driver sambærilegur. Þar sem að fjölmörg hlutverk hafa verið verðug til Óskarsverðlauna, þá gengur Rourke mun lengra heldur en að vera verðugur - hann býr til tragíska og heillandi persónu sem hefur gífurlega mikið að segja um okkar samtíma, þó að hann átti sig engan veginn á honum sjálfur.
Darren Aronofsky sýnir afbragðs leikstjórn þar sem öll áherslan er á sögunni og persónunum, og lítil sem engin á kvikmyndatækninni - þó að hún sé vissulega til staðar. Hann hefur góða tilfinningu fyrir hvernig hægt er að nota kvikmyndatöku til að fylgja eftir góðum leik. Hann á tvær aðrar gífurlega áhugaverðar myndir að baki, stærðfræðiþrillerinn Pi (1998) þar sem hugtakið Pi ógnar sálarheill stærðfræðings, verðbréfamarkaðnum og virðist tengjast heilagri ritningu gyðinga. Requiem for a Dream (2000) fjallaði um afleiðingar vímuefnaneyslu og ætti að vera skylduáhorf fyrir alla þá sem halda að eitthvað sé heillandi við slíka neyslu. Það tók hann fjölmörg ár að gera hina frekar mislukkuðu The Fountain (2006) en meðal þess sem tafði gerð þá myndar er að Brad Pitt hætti við að leika aðalhlutverkið og tók þess í stað aðalhlutverkið í Troy (2004).
Það verður áhugavert að fylgjast með hvað Aronofsky gerir við RoboCop (2010), en hann var reyndar upphaflega orðaður við Batman Begins, sem Christoper Nolan gerði í staðinn, með mikilli lukku. Án vafa einn áhugaverðast leikstjóri nútímans og ein besta frammistaða allra tíma í kvikmynd.