The Curious Case of Benjamin Button (2008) **1/2

The Curious Case of Benjamin Button er vel leikin af Brad Pitt og Cate Blanchett, en í stað þess að rannsaka af dýpt merkinguna á bakvið líf sem gengur afturábak, festist kvikmyndin í frekar innantómu melódrama um samband tveggja einstaklinga, sem þroskast í ólíkar áttir.

Það væri hægt að vinna mígrút úr hugmyndum upp úr sögu um mann sem yngist í stað þess að eldast, og hægt væri að fókusa á tímabil í hans lífi frekar en að segja söguna frá fæðingu í hárri elli og dauða í æsku. Það er frekar lítið heillandi við þá nálgun. Brad Pitt og tölvubrellur sýna stórleik sem Benjamin Button, en söguna vantar bara ákveðið drama.

Það að segja ævi manneskju á þremur klukkustundum, sama þó að ævin líði afturábak, krefst mun meira en það sem við fáum út úr þessari kvikmynd.

Þegar eiginkona Thomas Button (Jason Flemyng) deyr við fæðingu sonar þeirra, Benjamin (Brad Pitt), bregst Thomas illa við þegar hann sér krumpað og afar ljótt barn og þrífur það með sér og hleypur niður á árbakka til að drekkja því. Lögreglumaður verður var við hann, þannig að hann hleypur inn í húsasund og skilur Benjamin eftir á tröppunum, vafinn inn í teppi og með átján dollara innan á sér.

Queenie (Taraj P. Henson) finnur barnið, tekur það að sér og elur upp á heimili fyrir aldraða. Barninu er spáður skjótur dauði, en Queenie ákveður að sinna barninu til dauðadags, eins og hún hefur sinnt fjölmörgum öldruðum. Hins vegar kemur í ljós að barnið deyr ekki, heldur yngist með hverju árinu.

Gamla fólkið kennir Benjamin ýmsar ágætis listir og lífsviðhorf, og þar kynnist hann loks Daisy (Elle Fanning (7 ára), Madison Beaty (10 ára), Cate Blanchett) og þau verða fljótt góðir vinir. Það er svo mörgum árum seinn að þau hittast á miðri leið, þar sem hún eldist eðlilega og hann yngist, að ástin blossar.

Vandamálið er að hann heldur áfram að yngjast og hún að eldast, þannig að aðskilnaður er óhjákvæmilegur, sérstaklega þegar í ljós kemur að það er komið barn í spilið.

Þetta hefði getað verið ansi spennandi og skemmtileg mynd, en það hefur mistekist að gera þessa góðu hugmynd að einhverju dýpra og betra en bara góðri hugmynd. Hafirðu sér sýnishornið hér að neðan, hefurðu nánast séð myndina.

The Curious Case of Benjamin Button er því miður ekki nógu athyglisverð til að halda fullri athygli og áhuga yfir henni í 166 mínútur. Og þó að Brad Pitt sé góður í aðalhlutverkinu, þá er maður alltaf meðvitaður um að þetta er hann með tölvubrellum, en ekki sjálfstæð og djúp persóna.Nú hefur þessi kvikmynd fengið 13 tilnefningar til Óskarsverðlauna, og fjórar í stærstu flokkunum. Hún ætti aðeins að fá verðlaun fyrir förðun að mínu mati.

  • Besta kvikmyndin
  • Besti aðalleikari: Brad Pitt
  • Besta aukaleikkona: Taraji P. Henson
  • Besti leikstjóri: David Fincher

Bloggfærslur 10. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband