Réðist múgurinn snaróður og öskrandi gegn Obama eða voru þessi "svokölluð" mótmæli fyrirsögn í æsifréttastíl?

grandhoteloslo.jpg

Ég var á staðnum.

Ef það kallast mótmæli þegar um 20 manns halda á kröfuspjöldum og mótmæla stríði, en þúsundir hrópa af einhvers konar fögnuði til að bjóða gest velkominn og samfagna honum, "Obama, Obama, Obama!" og unglingsstúlkur skrækja þegar fyrst hann og síðan Will Smith birtast stundarkorn, þá má fullyrða að búsáhaldabyltingin hafi verið svo blóðug að helmingur íslensku þjóðarinnar lét lífið á Austurvelli. Þetta var meira eins og 17. júní, jólastemmning eða slíkt, heldur en pirruð mótmæli.

Fréttin segir: 

Þúsundir manna gengu um götur Óslóarborgar í mótmælaskyni við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Afganistan eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti tók við friðarverðlaunum Nóbels. 

Mótmælendur gengu fylktu liði með kyndla um götur borgarinnar, en göngunni lauk fyrir framan hótelið þar sem Obama gistir.

Þetta var í mínum huga svokallaður samstöðu- og fagnaðarfundur. Þeir sem segja annað eru að slá ryki í augu fólks, enda með eitthvað allt annað í huga en að segja sannleikann. Hagræðing sannleikans kemur yfirleitt sumum vel sem duglegir eru að næla sér í athygli fjölmiðla. Kannski það sé lögmál? Flest fólk var brosandi með friðarkyndla, en örfáar hræður tróðu sér fremst með kröfuspjöld til að mótmæla fjölgun hermanna í Afganistan.

Konan mín kom á staðinn aðeins á undan mér og varð vitni að kveðju hans heilagleika, og sagði hún mér með stjörnurnar í augunum, hvernig hann hafði kinkað vinsamlega kolli til þeirra sem héldu á kröfuspjöldunum og síðan lotið höfði í virðingarskyni. Þessi maður hafði fullkomna stjórn á fjöldanum. 

Ég mætti á staðinn nokkrum mínútum síðar til að samfagna manninum ásamt dóttur minni. Hún var yfir sig ánægð þegar hún sá Obama bregða fyrir í nokkrar sekúndur úr glugga hótelsins og veifa til mannfjöldans, sem skrækti af fögnuði. Þeir fáu sem höfðu kröfuspjöld í hendi hlupu strax að átt að skrækjunum, en samkvæmt dóttur minni var hann örugglega ekki lengur en fjórar sekúndur bakvið sína skotheldu rúðu. Ég missti af því að sjá þennan merkilega svip bregða fyrir eitt augnablik, en er samt ekkert að fara yfir um vegna þess missis. Hins vegar þótti mér gaman að sýna manninum samstöðu, en hann og starfsfólk hans hafa lyft Grettistaki með því að lagfæra málstað þjóðar sem lá í rúst eftir að W. fór frá eftir 8 ár í valdastól og tókst að gera Bandaríkin að óvinsælasta ríki heims.

Þegar rapparinn og Hollywoodstjarnan svokallaða Will Smith steig út úr hótelinu voru skrækirnir ekkert minni. Þetta minnti mig töluvert á augnablik sem ég upplifði í London fyrir nokkrum árum, þegar Sylvester Stallone og félagar gengu um rautt teppi til að frumsýna "Rocky Balboa". Svipað tóbak.

Mér þótti merkilegt að vera umkringdur að minnsta kosti hundrað manna lögreglu- og hermannaliði með öflugar vélbyssur og merkilegt að sjá votta fyrir svokölluðum leyniskyttum í turnum og hótelgluggum. Ef þetta voru ekki raunverulegar leyniskyttur, þá var ímyndunarafl mitt að minnsta kosti nógu öflugt til að fylla þessa lífsreynslu. Einnig voru þó nokkrir sköllóttir menn í svörtum síðfrökkum á sveimi, og varð mér þá allt í einu hugsað til hversu lélegar "Matrix Reloaded" og "Matrix Revolutions" voru í samanburði við upprunalegu myndina, en ég þóttist viss um að þetta væru þrautþjálfaðir öryggisverðir á vegum CIA, enda stökk þeim ekki bros á vör og voru byggðir eins og Arnold áður en hann varð ríkisstjóri.

 

Mynd: HB


mbl.is Mótmælaganga í Ósló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama, konungur Bandaríkjanna kemur til Osló með frökku fylgdarliði, og Greenpeace

Þarna riðu um lögreglumenn á gríðarstórum hestum, og nokkrir með vígalega hunda í keðju, en þeir hafa girt af vinalegan jólamarkað með girðingu sem gerst hefur reyndar sek um það stílbrot að vera ekki rafmögnuð, þannig að fólk getur ekki gengið á gangstéttinni, heldur þarf það að fara út á götu  til að komast leiða sinna. Lögreglubílar út um allt. Búið var að tjalda innan girðingarinnar og héldu þar sig nokkrir löggæslumenn og sötruðu kaffi eða jólaglögg. Fréttir hafa borist af því að lögreglumenn alls staðar að í Noregi komi til þátttöku, og menn grínast með að á morgun verði þá ókeypis glæpadagur um allt land, þar sem allar löggur verða uppteknar af Obama.

Sumum unglingum hérna er ofboðið, og finnst samkvæmt skoðanakönnun VG (ekki vinstri grænir) að alltof mikið sé gert úr þessari stuttu heimsókn, og að þarna sé verið að eyða langt umfram efni, sérstaklega á tímum þar sem mikið er talað um alþjóðlega efnahagskrísu.

Í gærmorgun tók ég bát frá Akerbryggju í Osló og gekk framhjá Nóbelshúsinu. Ég fór sömu leið heim um kvöldið. Í anddyri Nóbelhússins eru tvö veggspjöld. Annað þeirra með mynd af Martin Luther King. Hin af Barack Hussein Obama. Á báðum stendur:

KING

OBAMA

Ég sá þrjár Blackhawk þyrlur fljúga yfir Oslófjörð seinna um daginn, eða ég held að þær hafi verið Blackhawk. Þær voru að minnsta kosti svartar og litu út eins og risastórar mýflugur, og drundi ógurlega í þeim. Þær þutu lágt yfir vatnsflötinn og hurfu jafn snögglega og þær birtust. Mögnuð fyrirbæri.

Einnig frétti ég af afar öflugri ratsjárstöð sem sett var upp í tilefni dagsins, sem á að geta greint minnstu hreyfingu sérhverrar músar sem vogar sér í 20 kílómetra radíus nálægt Obama. Ég vogaði mér að taka af mér bakpokann á miðju torgi, taka úr honum myndavélina og taka nokkrar myndir af loftbelg. Mér fannst að verið væri að fylgjast með mér einhvers staðar úr klukkuturni þar sem leyniskytta lá örugglega í leyni og fylgdist með þessum hávaxna Íslendingi í brúnum leðurjakka að munda grunsamlega myndavél á bryggjunni. 

Ég get varla annað en hugsað til þess þegar móðir Teresa fékk friðarverðlaun Nóbels. Hún hafði ekki fyrir því að mæta, heldur óskaði eftir því að veisluföngunum væri varið í eitthvað merkilegra en hennar persónu. Þar var sönn fyrirmynd. Hún eyddi ekki krónu. Að bandaríska ríkisstjórnin skuli eyða 2 milljörðum króna í þessa dagsferð kemur mér ekkert á óvart miðað við allt umstangið í kringum þessi ósköp. Netið datt meira að segja nokkrum sinnum niður í dag, og ég velti fyrir mér hvort það væri tengt þessum stórviðburði, að forseti Bandaríkjanna kíki í heimsókn að taka á móti friðarverðlaunum Nóbels og tveimur milljónum dollara. Og ferðin kostar hann 2000 milljón króna!

Ég upplifi komu Obama svona eins og hálfgerða endurkomu Michael Jackson. Það eru veggspjöld á strætóskýlum með stórum myndum af Obama, og öllum er ljóst að einhver stórmerkilegur náungi er þar á ferð. Á sama tíma hefur gífurlegt Michael Jackson æði gripið um sig og það eru varla sungin jólalög lengur á jólaskemmtunum barna, heldur þurfa þau öll að vera með svalt Michael Jackson atriði. Rokkstjarnan Obama er bara rökrétt framhald!

Ég hef farið á nokkra rokktónleika. Koma Obama minnir á eitthvað slíkt, nema að allir virðast vilja að hitta hann. Kóngurinn og ráðherrarnir, fólkið og krakkarnir. Hann þykir svalur.

Enda er hann það kannski.

Á Akerbryggju sama morgun var líka sjón sem mér fannst frekar merkileg. Ég veit ekki hvort þú deilir undrun minni, en yfir miðri bryggjunni flaut stór loftbelgur, merktur Greenpeace með áletruninni:

SAVE THE CLIMATE - GREENPEACE

Norðmenn eru sérstaklega næmir fyrir umhverfisvernd, og ekkert á svæðinu gat mögulega mengað jafn mikið og hinn öflugi gaslogi sem notaður var til að belgja loftbelginn út og halda á floti yfir bryggjunni.

 

Mynd af Nóbelhúsinu í Osló: Wikipedia


mbl.is Gríðarleg öryggisgæsla í Ósló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband