Hvernig tekið var við mér þegar ég kom á bandaríska heilsugæslustöð með kóngulóarbit

Heldurðu að ég hafi verið rukkaður um mikla fjármuni? Þurfti ég að kaupa rándýr lyf? Var handleggurinn skorinn af við olnboga? Var læknirinn þurrt og tilfinningalaust vélmenni? Var þetta eitt af því versta sem ég hef upplifað á ævinni?

Alls ekki.

Ég var bitinn af kónguló og handleggurinn stokkbólgnaði. Bólgan var rétt undir vinstri olnboganum. Þar voru tvær litlar holur, sem gáfu í skyn að þetta var kóngulóarbit, en skepnan hafði hakkað í mig á meðan ég svaf. Bólgan var álíka stór og ef fiskibollu hefði verið troðið undir húðina.

Fór á næstu heilsugæslustöð. Þurfti ekki að bíða lengi. Læknirinn tók vel á móti mér, smurði bólginn handlegginn og gaf mér lyf til að eyða eitrinu. Ég þurfti ekkert að borga og bólgan sjatnaði eðlilega á næstu dögum.

Ekki nákvæmlega það sem maður heyrir í fjölmiðlum um heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum eða frá Michael Moore, en það er ekki allt slæmt í Bandaríkjunum frekar en annars staðar í heiminum.

Fullt af góðu fólki.

Reyndar trúi ég því að meirihluti mannkyns sé afar gott fólk sem vill öðrum vel. Það ber bara svo mikið á þessum minnihluta sem vill öðrum ekki vel. Svo eru það sumir sem vita einfaldlega ekki betur, sem virðist eiga erfitt með að hugsa út fyrir eigin langanir eða hefðir. Menntun snýst að mínu mati fyrst og fremst um að fólk átti sig á því hvernig fer ef gildi þeirra snúast annars vegar um eigin hag, eða hins vegar aðeins um hag einhvers hóps, sama hvaða hópur það kann að vera, trúarhópur, hagsmunahópur, knattspyrnufélag, klíka. Vandinn er að fólk lifir frekar samkvæmt því sem því finnst eðlilegt en því sem er réttlátt gagnvart öllum. Það eru sumir sem fá að vera með. Aðrir mega éta það sem úti frýs.

Það er mikilvægt að útrýma eigin fordómum, nokkuð sem fordómafullir trúa ekki að þeir hafi, og því erfitt að útrýma slíkum skoðunum hjá þeim sem viðurkenna ekki að þeir hafi þær. Eina leiðin er að manneskjan rannsaki eigin skoðanir, hvaðan þær koma og sé tilbúin að viðra þær fyrir opnum tjöldum. Láta blása um þær.


Bloggfærslur 20. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband