Hvaða bresti í íslensku samfélagi afhjúpa atburðir haustsins 2008?
8.1.2009 | 01:21

Þessarar spurningar og annarra spurði Páll Skúlason á framsögu sinni í kvöld, á fundi Félags áhugamanna um heimspeki, en þeir Ólafur Páll Jónsson héldu áhugaverð erindi og hvöttu til spurninga utan úr þéttsettnum sal heimspekinga, sem margir hverjir deildu afar áhugaverðum vangaveltum með hópnum. Björn Þorsteinsson stýrði fundinum á líflegan og skemmtilegan hátt.
Í spurningunni er vísað til bankahrunsins og fjármálakreppunnar.
Það svar sem mér dettur helst í hug, án langrar umhugsunar, en samt með einhverri íhugun, tengist jafnvægisleysi í samfélaginu. Þetta jafnvægisleysi má sjálfsagt skýrast finna í tölum tengdum launum einstaklinga, en fáeinir Íslendingar hafa verið að fá laun á við tugi, hundruði eða jafnvel þúsundir íslenskra verkamanna.
Íslenska þjóðin mun þurfa að borga laun þessarra fáu einstaklinga eftirá, í nafni fjármálahruns og kreppu. Þetta er kannski ofureinföldun á ástandinu, en hugsanlega kjarninn. Það er ómannúðlegt að manneskjur sem hafa vogað sér að kaupa íbúð á lánum sjái nú fram á að verða stórskuldug til æviloka, eða gjaldþrota.
En hvað olli þessu jafnvægisleysi?
Ég held að svarið felist í ofsatrú á árangri, hvernig hann var skilgreindur, hvaða leiðir voru farnar að honum og hvernig leiðirnar (eða kerfin) voru misnotaðar.
Það virðist vera hægt að réttlæta hvað sem er bara ef það tengist góðum árangri. Það er yfirleitt gott að ná árangri, en hins vegar getur árangur innbrotsþjófs verið góður fyrir hann sjálfan, illur fyrir þann sem tapar eigum sínum, og hann er svo sannarlega illur sem meginregla fyrir heildina. Það þykir jafnvel sjálfsagt að selja vel rekin fyrirtæki skili salan skammtímamarkmiðum fyrir eigendur, starfsmönnum engu og heildinni ekki neinu heldur.
Árangur er eitthvað sem við setjum okkur með markmiðagerð. Sama hvert markmiðið er, dæmum við árangur eftir því hversu nálægt því við komumst. Rétt eins og við dæmum nammi sem gott af því að það bragðast vel um stund, og annað nammi betra af því að það er svo miklu betra á bragðið en eitthvað annað nammi. Samt er nammi ekkert gott fyrir þig.
Til að ná enn betri árangri búum við svo til alls konar kerfi: vegakerfi, skólakerfi, flugumsjónarkerfi, bókhaldskerfi, símkerfi, og jafnvel kerfi um hvernig best er að hugsa.
Smám saman förum við að treysta á kerfin, og höfum tilhneigingu til að trúa að þau séu góð í sjálfum sér einfaldlega vegna þess að þau skila margföldum árangri og virðast engan skaða. En svo gerist það að kerfin verða svo stór að enginn einn einstaklingur getur haldið utan um þau, og hóp af einstaklingum þarf til þess að reka þau.

Vegakerfi eru dæmi um þetta. Eyðileggist partur af vegi og hætti eftirlitsaðilar að sinna honum er líklegra að slys geti átt sér stað. Verði bílhræ eftir slys ekki hirt upp er enn líklegra að það valdi frekari slystum.
Til að einstaklingarnir geti unnið vel saman fyrir framgang kerfisins, þarf að búa til annað kerfi utan um starfsgrundvöll þeirra, þetta kerfi má líka kalla fyrirtæki eða stofnun. Þetta verður til þess að hópurinn verður þjónn kerfisins, á meðan kerfið er þjónn stærri heildar. Ef við töpum hins vegar sýn á það hver hefur valdið, og til hvers kerfið er, og hvort það skili einhverju góðu til heildarinnar, frekar en hópa eða einstaklinga, þá höfum við gefið kerfinu vald yfir okkur, vald sem getur reynst erfitt að stöðva.
Við vitum að mannleg hönd þarf að hlúa að kerfinu þannig að það virki vel. Hvað ef hin mannlega hönd ákveður að misnota aðstæður sínar og nota kerfið fyrir eigin hagsmuni eða hagsmuni ákveðins hóps, frekar en fyrir heildina? Þá er ljóst að kerfið spillist.

Ef ráðherra ákveður að hlíta ekki lögum og bera fyrir sig að vald hans eitt og sér réttlæti eigin lögbrot, þá erum við að tala um spillt kerfi.
Ef stjórnandi símkerfis ákveður að breyta símanúmerum hjá viðskiptavinum án þess að láta þá vita, og réttlætir það með valdi yfir símakerfinu, þá erum við líka að tala um spillt kerfi.
Ef kennari ákveður að gefa nemanda sem honum líkar vel háar einkunnir bara vegna þess að honum líkar vel við hann, þá erum við að tala um spillt kerfi.
Ef umferðaljós bilar og sýnir alltaf grænt, þá erum við með spillt kerfi.
Spillt kerfi eru ónothæf.
Því miður hafa birtingarmyndir spillingar birst í íslensku stjórnkerfi og í bankakerfinu nokkrum mánuðum fyrir hrun. Spillingin þýddi að kerfið var ónothæft og þar af leiðandi var hrun óumflýjanlegt. Þannig að brestirnir sem afhjúpaðir voru í íslensku samfélagi tengjast ofsatrú á kerfum, og ekki nóg með það, heldur trú á að spillt kerfi geti virkað. Sumir trúa þessu greinilega ennþá og banda frá sér öllum gagnrýnisröddum.

Til að líta fram á bjartari tíma er ljóst að það þarf að laga þessi kerfi. Það þarf að hreinsa út allt það óhreina, það bilaða, spillinguna, og þegar það er frágengið og kerfið farið í gang aftur, þá þarf að hlúa að því og gæta þess að það vinni áfram, en með mannlegri umönnum og skýrum markmiðum, ekki aðeins fyrir einstaklinga eða hópa, heldur heildina.
Fyrir íslenskt samfélag er þessi heild það sem Páll Skúlason kallar almannaheill, ef ég skil hann rétt. Hvað almannaheill er nákvæmlega, það er önnur pæling.
Þú hefur kannski eigin svör við spurningunni? Ef svo er, væri áhugavert að heyra þau.
Myndir:
Páll Skúlason: Ferðafélag Íslands
Þrældómur: What Haven't You Heard Lately?
Vegakerfi: I like
Brennandi hús má bíða: Blue Economics
Oscar Wilde tilvitnun: bestuff
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)