Æsispennandi jafntefli Íslendinga og Dana 32:32
16.8.2008 | 14:23

Ég er bókstaflega stjarfur og skjálfandi eftir æsispennandi lokamínútur. Það var beinlínis öskrað með okkar mönnum í stofunni heima. Snorri Steinn Guðjónsson jafnaði úr víti á síðustu sekúndu og kemur þannig Íslendingum í 8 liða úrslit á Ólympíuleikunum.
Sænsku dómararnir sýndu furðulega dómgæslu á báða bóga. Gáfu Loga Geirssyni rautt spjald fyrir litlar sakir og hentu leikmönnum beggja liða stöðugt út af þrátt fyrir prúðmannlegan leik. Þeim tókst samt ekki að gjöreyðileggja leikinn, þó að ég hefði viljað sjá betri dómgæslu.
Rosaleg spenna og frábær skemmtun!
Takk fyrir þetta strákarnir okkar!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hörkuspennandi leikur í gangi - íslenska liðið byrjar afar stressað og illa en endar fyrri hálfleikinn snilldarlega
16.8.2008 | 13:34
Hugarfarið sem virst hefur vera í góðu lagi til þessa hjá íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum virðist ekki alveg vera jafn gott í dag og áður, en vonandi hressast þeir í leikhléinu.
En leikurinn er spennandi og gaman verður að fylgjast með seinni hálfleik. Aðal spurningin er hvort að íslenska liðið smelli saman og vörnin fari að virka eins og hún hefur gert í fyrri leikjum - ef það gerist erum við í góðum gír.
Jæja, hálfleikurinn búinn og leikurinn byrjaður aftur. Yfir og út!
Áfram Ísland!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Var borgarstjórinn peð sem mátti fórna?
16.8.2008 | 09:43

Skákskýring
Það er ljóst að einhverjir innan sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kunna að plotta á bak við tjöldin eða eins og við skákmennirnir orðum það: þeir kunna aðeins meira en mannganginn. Gísli Marteinn Baldursson hreinsar hendur sínar og fer úr landi í nám nokkrum dögum áður en Ólafi F. er sagt upp störfum. Sjálfsagt heldur hann einhverri virðingu eftir fyrir næstu kjörtímabil með því að þykjast ekki hafa verið með í mótinu. Í stað viðurkenningar fyrir heilindi fær Ólafur háðung fyrir "hálfindi". Hann missir sætið á sama hátt og hann vann það. Sá sem berst með sverði fellur með sverði.
Þjóðin öll virðist halda að þetta snúist allt um persónu Ólafs F. Magnússonar, enda hefur hann ekki komið vel fyrir í sjónvarpi, á erfitt með að vera gagnrýninn á eigin gerðir og telur sig hafa verið að gera góða hluti. Hann greip bara tækifærið þegar það gafst til að ná fram sínum sjónarmiðum, sem var lagalega rétt, en siðferðilega vafasamt þar sem atkvæði hans voru of fá til að réttlæta þvílík völd.

Byrjunin
Þetta er vissulega skrípaleikur, en hann varð ekki til af sjálfu sér. Þetta ber með sér þau merki að hafa verið vel undirbúin leikflétta af sjálfstæðismönnum, og hugsanlega einhverjum framsóknarmönnum. Rifjum aðeins upp söguna.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var einn óvinsælasti borgarstjóri Reykjavíkur frá upphafi þegar í ljós kom að hann ætlaði að selja hlut Reykjavíkur í Orkuveitunni í hendur einkaaðila, og málið komst upp á afar klaufalegan hátt. Vilhjálmur var staðinn að ósannindum og orðspor hans hlaut mikla hnekki, það mikla að fulltrúi sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Björn Ingi Hrafnsson, ákvað að hrinda atburðarrás í gang sem enn sér ekki fyrir endan á. Þetta sá enginn fyrir og margir fóru að tala um að Björn Ingi hefði stungið þá í bakið, á meðan ljóst virðist vera að hann hafi unnið af heilindum. Guðjón Ólafur Jónsson gagnrýndi síðan opinberlega Björn Inga fyrir alltof mikil fatakaup, sem varð til þess að hann þurfti að segja af sér.
Sjálfstæðismenn vissu að sá sem sviki tjarnarkvartettinn væri fyrirfram dauðadæmdur í pólitík, sem er jafneinfalt að skilja og að hrókur er dýrmætari en biskup, sama hver það er og hvað hann gerir. Hann yrði að háðung og spotti það sem eftir er. Ólafur F. Magnússon beit á agnið og fékk þess í stað borgarstjórasætið. Allir nema hann sáu óréttlætið og spillinguna, og því upplifir Ólafur F. óánægju fólks sem skipulagt einelti.
Og hann hefur rétt fyrir sér, Ólafur F. hefur verið beittur einelti á sama hátt og þúsundir Íslendinga, eineltishópurinn er hins vegar erfiðari í hans tilviki, þar sem nánast öll íslenska þjóðin virðist meðvirk í eineltinu, og gerir einfaldlega grín að honum fyrir að halda þessu fram, sem er einmitt eitt af einkennum eineltis, að ekki er tekið mark á fórnarlambinu. Það vill oft gleymast að í eineltismálum er eins og í öðrum deilum: sökin liggur ekki bara hjá þeim sem veldur eineltinu. Ef svo væri, væri miklu sjálfsagt auðveldara að koma auga á slík mál og meiri vilji til að leysa þau. Í einelti er fórnarlambið nefnilega oft líka gerandi í öðrum eineltismálum.

Miðtaflið
Ólafur byrjar sína tíð sem borgarstjóri með því að kaupa tvo ónýta kofa fyrir 500 milljónir. Nú ætti að hlakka í fólki. Hvernig gæti maðurinn nokkurn tíma náð sér á strik eftir svona hrikaleg mistök og slaka dómgreind?
En síðan leikur Ólafur F. afar góðan leik. Hann ræður Jakob Frímann Magnússon sem miðborgarstjóra og fær sérfræðinga til að hjálpa honum að bjarga ímyndinni, og það er að virka. Borgarstjórinn þykir vera að gera ágæta hluti. Þá tekur hann þá ákvörðun að víkja úr starfi manneskju sem hann gat ekki treyst. Hann rökstuddi ákvörðun sína, en ekki var hlustað á hann.
Þetta mál var magnað upp þannig að það fór að snúast um persónu Ólafs F. og endaði með því að hann rauk reiður úr sjónvarpssal eftir viðtal þar sem gert var úr því að koma honum úr jafnvægi. Þjóðin öll tók eftir þessu og almenningsálitið var greinilega gegn Ólafi F., enda gat enginn gleymt hvernig hann komst upphaflega til valda. Nú þurfti bara að magna upp þessar óánægjuraddir þar til hljómgrunnurinn yrði það mikill að hægt væri að skipta um skipstjóra í brúnni. Rétti tíminn til að gera svona lagað er þegar stórviðburðir eins og Ólympíuleikarnir eru í gangi, og sérstaklega þegar íslenska landsliðið í handbolta er að standa sig vel. Þá nennir enginn að velta sér upp úr valdabrölti pólitíkusa.

Endataflið
Nú hefur Óskar Bergsson tekið við hlutverki Ólafs F., en munurinn er sá að Óskar er í hlutverki bjargvættar sem sameinar og bjargar borginni frá tilburðum einræðisherra.
Nú geta fulltrúar sjálfstæðisflokksins einbeitt sér aftur að því hvernig þeir ætla að selja Orkuveituna úr höndum Reykjavíkur. (og hagnast aðeins á sölunni í leiðinni?)
Ég vil taka það fram að ég er ekki flokksbundinn og lít ekkert endilega á þetta sem ofurplottaða samsæriskenningu, heldur sýnist mér þetta vera sagan á bakvið atburðina sem eru að gerast, og fólki finnst eðlilega erfitt að átta sig á þeim. Ég tel mig einfaldlega skilja hvað er í gangi, og í stað þess að nota orðin harmleik eða skrípaleik, vil ég reyna að skilja hvatirnar sem liggja að baki því sem gert hefur verið.
Ég er ekki að halda því fram að sjálfstæðisflokkurinn sé einhver snilldar skákmeistari, þeir eru bara aðeins betri en hinir sem eru greinilega ekkert annað en viðvaningar og byrjendur í pólitískri skák, og einfaldlega ekki nógu góðir til að tefla einfaldlega besta leiknum. Þess í stað þurfa þeir að sparka í andstæðinginn undir borðið, reyna að færa kalla til á borðinu á meðan andstæðingurinn er að fylgjast með Ólympíuleikunum á risaskjá og þykjast vita hvað þeir eru að gera, á meðan sannleikurinn er sá að þeir eru lítið skárri en þeir sem tapa skákinni.

Um pólitíska skák almennt
Marínó G. Njálsson skrifaði annars ágætis grein 8.8.8 um hvernig pólitíkusar um allan heim misnota sér stórviðburði eins og Ólympíuleikana til að komast upp með vafasama hluti: Er verið að notfæra sér að heimsbyggðin er að horfa á Ólympíuleikana?
Myndir:
Niccolo Machiavelli:Religion and Secrecy in the Bush Administration
Skák: John C Fremont Library District Weblog
![]() |
Orkuveitan áfram í útrás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2008 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)