20 heilræði fyrir bloggara í léttum dúr

 

 

 

Spurning hvort að betra væri að kalla þetta heilræði eða hálfræði?

 

1. Allar setningar eiga að geta staðið á eigin fótum. Eins og þessi.

2. Ýkjur eru dauði.

3. HÞHSS: Hættu þessum helv skammstöfunum.

4. Endaðu hverja málsgrein á einhverju jákvæðu. Nema núna.

5. Ekki þykjast vera gáfaðri en lesandinn hvort sem að þú ert það eða ekki.

6. Veldu orð þín með gát.

7. Forðastu óþarfa dæmi. Til dæmis eins og þetta.

8. Ekki nota kommur, til að, skilja sundur, texta.

9. Líkingar eru jafn gagnlegar og brotin vatnsglös.

10. Einhver sagði einhvern tímann að tilvitnanir ættu að vera nákvæmar.

11. Slangur sökkar.

12. EKKI SKRIFA Í HÁSTÖFUM NEMA ÞÚ VILJIR ÆRA EINHVERN Í REIÐIÖSKRI.

13. Aldrei nota undirstrikanir.

14. Blandaðar myndhverfingar geta flengt óbarinn biskup.

15. Aldrei gefa upp heimildarmenn nema þú sért tilbúin(n) til að láta heimildarmenn þína gefa þig upp á bátinn.

16. Vandaðu málfarið obboðslega.

17. Greinileg merki um leti eru að klára ekki setningar, lista, og svo framvegis.

18. Lítið er meira. Þessi listi ætti því eiginlega bara að vera upp í eitt.

19. Margir riðövundar sðtafþetja viðlauþt.

20. Polli páfagaukur sagði: "Ekki koma fram við lesendur þína eins og þau séu börn."

 

Innblástur kemur úr greininni How to Write for the Web af howtowritefortheweb.blogspot.com, sem inniheldur 100 heilræði um hvernig skrifa skal fyrir vefinn.

 

Mynd: Texas Startup Blog


Er handboltalandsliðið að meika það á Ólympíuleikunum?

 


 

 

Íslendingar hafa aldrei byrjað betur á stórmóti í handknattleik. Fyrst leggja þeir Rússa og svo Þjóðverja, en hvorugt liðið hafði nokkurt svar við öflugri íslenskri vörn.

En það var ekki bara vörnin sem var að virka. Liðið var óvenju samstillt og agað í leik sínum. Eftir leikinn gegn Þjóðverjum gaf Ólafur Stefánsson okkur sýn inn í hugarfar liðsins, það þeir léku hvern leik eins og hann væri undirbúningur fyrir þann næsta.

Þetta er hrein snilld!

Hugarfarið er númer eitt, tvö og þrjú til að ná góðum árangri, bæði í íþróttum og öðru. Það er hins vegar erfitt að festa fingur á hvað þetta hugarfar er. Ég held að það sé nákvæmlega svona hugarfar sem skilar árangri, sem felst í því að njóta leiksins og spila í núinu frekar en að velta sér stanslaust upp úr mögulegum úrslitum.

Sá sem hugsar of mikið um úrslitin stressast upp og er líklegur til að missa einbeitinguna og gera mistök á mikilvægu augnabliki.

Þetta er nákvæmlega sú hugsun sem ég lagði upp með þegar Salaskóli varð heimsmeistari í grunnskólaskák, ég lagði enga áherslu á að þau þyrftu að vinna sínar skákir - heldur hafa fyrst og fremst gaman af að vera þau sjálf og tefla eins og þau langar til á heimsmeistaramóti. Þetta þýddi að í fyrri hluta mótsins hugsuðu þau ekkert um vinninga og höluðu þeim inn, en þegar þau sáu að þau gátu hugsanlega orðið heimsmeistarar heltist stressið yfir þau og mistökum fór að fjölga. Þeim tókst þó að sigra á endasprettinum.

Ef íslenska landsliðinu tekst að halda í þetta góða hugarfar og taka þannig hvern leik fyrir sig eins og um æfingaleik sé að ræða, og ef þeir geta sigrast á þeirri freistingu að gera alltof miklar væntingar til sjálfs sín og finna til ímyndaðrar pressu frá þjóðinni, þá geta þeir unnið þetta mót.

Mín fjölskylda fylgist alltaf spennt með íslenska landsliðinu í handbolta, og nú fylgjumst við með enn spenntari en áður, en ég vona samt að þessi spenna nái ekki í herbúðir okkar. Svona spenna er lúxus sem aðeins áhorfendur mega leyfa sér.

Íslenska landsliðið í handbolta hefur fundið hugarfar sem fleytir þeim áfram og vonandi yfir allar þær öldur samkeppninnar sem þeirra bíður.

Áfram Ísland!

 

 

Mynd: sport.is


Bloggfærslur 13. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband