The Incredible Hulk (2008) ***

Bruce Banner (Edward Norton) starfar við gosdrykkjaframleiðslu í Brasilíu þegar hann sker sig og dropi af blóðinu hans ógurlega lendir ofan í gosflösku sem síðar er flutt til Bandaríkjanna. Þegar Ross hershöfðingi (William Hurt) berast fréttir um undarleg áhrif gosflöskunnar lætur hann rekja hana til verksmiðjunnar og sendir hóp þrautþjálfaðra hermanna á staðinn. Meðal þeirra er harðjaxlinn Blonsky (Tim Roth) sem hefur hreina unun af bardagalistum og getur varla beðið eftir að fá verðugt verkefni. Þetta verður til þess að Banner þarf að leggja á flótta, breytist í Hulk til að ganga frá árásarmönnunum og vaknar svo nakinn í frumskógum Guatemala.

Banner hefur verið að leita leiða til að útrýma risanum ógurlega með því að gera alls konar tilraunir með eigin blóð. Vísindamaður frá New York sem hefur verið að aðstoða hann óskar eftir nánari upplýsingum um það hvernig Banner breyttist í Hulk. Banner heldur til Virginia háskóla þar sem hann starfaði áður, í leit að upplýsingum úr tölvukerfinu þar. Við leitina rekst hann á gömlu unnustu sína, Betty Ross (Liv Tyler) sem er dóttir hershöfðingjans sem hundeltir hann, og ástin blómstrar á ný.

En Ross hershöfðingi kemst að því hvar Banner heldur sig, og ræðst til atlögu, en nú með erfðabættan Blonsky í broddi fylkingar. 

The Incredible Hulk er afar vel gerð mynd á sjónræna sviðinu, og slagsmálaatriðin eru gífurlega flott og skemmtileg. Edward Norton er frábær í sínu hlutverki og einnig er mjög gaman að þeim William Hurt og Tim Roth. Hins vegar er ljóst að myndin hefur verið klippt illa af framleiðendum, sjálfsagt til að stytta hana, en það vantar brot hér og þar í söguþráðinn, nokkuð sem veikir myndina töluvert. 

The Incredible Hulk er önnur Marvel mynd sumarsins og hún er góð, en ekki jafn nálægt fullkomnun og hin snilldarlega vel gerða Iron Man. Reyndar birtist Robert Downey Jr. sem Tony Stark í stuttu atriði og tengir myndirnar þannig skemmtilega saman.

Þessi útgáfa af risanum græna er mun betri en draslið sem kom frá Ang Lee árið 2003, þar sem blandað var inn hugtökum sem höfðu ekkert að gera við söguheim Hulk. Reyndar er eitt smá hneykslismál tengt þessari mynd. Edward Norton endurskrifaði handrit myndarinnar, en er ekki getið sem einn af höfundum sögunnar vegna þess að hann er ekki skráður í rithöfundasamband Bandaríkjanna. 

Þá veistu það.

 

Leikstjóri: Louis Leterrier

Einkunn: 7

Myndir: Rottentomatoes.com


Bloggfærslur 18. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband