Ruglar umburðarlyndið dómgreind okkar?
5.4.2008 | 18:03
Það sem nefnt er og útfært sem umburðarlyndi í dag, þjónar í mörgum áhrifamestu myndum sínum málstað kúgunnar. (Herbert Marcuse)
Undanfarið hef ég verið að fá aukna gagnrýni á greinar mínar. Sumir eru mér sammála í ýmsum málum og aðrir ekki, eins og gengur og gerist. Þegar ég velti fyrir mér helstu gagnrýni síðustu daga virðist hún helst beinast að umburðarlyndi mínu, og þykir það sumum einum of mikið, sérstaklega þegar það er gagnvart öðrum trúarbrögðum, erlendum áhrifum og dómi á manni sem tapaði höfundarréttarmáli.
Reyndar þyki ég hafa sýnt lítið umburðarlyndi gagnvart myndbandinu Fitna sem ég tel vera áróðurstól til þess eins hannað til að æsa múslima til reiði gagnvart þeim sem gerðu myndbandið og til að æsa þá sem ekki reiðast myndbandinu heldur viðbrögðum múslima við því.
Þessi gagnrýni var skemmtilega orðuð í gær af Maríu Kristjánsdóttur þar sem hún gerði athugasemd við grein mína um Hannes Hólmstein og málaferli hans:
"Umburðarlyndi hefur lengi vel verið stærsti kostur íslensku þjóðarinn en ruglar æði oft dómgreind hennar." María Kristjánsdóttir
Þetta finnst mér stórmerkileg fullyrðing og er ekki frá því að það sé heilmikið til í henni og velti fyrir mér hvort að hún sé sönn. Til þess að komast eitthvað nær sannleikanum ætla ég að velta fyrir annars vegar hvað umburðarlyndi er, og hins vegar hvað dómgreind er.
Hvað er umburðarlyndi?
Umburðarlyndi er hugarfar sem maður þarf stundum að beita þegar önnur manneskja eða hópur manneskja hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur. Maður þarf að umbera ýmsar skoðanir sem maður er ekki sáttur við, frekar en að gera þær að eigin eða hafna þeim algjörlega.
Skortur á umburðarlyndi sést til dæmis þegar einn aðili er ekki tilbúinn að hlusta á skoðanir hins, þar sem sá fyrrnefndi er búinn að fullmóta eigin skoðanir og vill því ekki breyta henni sama hvað á gengur. Ef þessi skoðun stangast á við upplýsingar, þá eru það upplýsingarnar sem taldar eru vafasamar frekar en skoðunin sjálf.
Of mikið umburðarlyndi á sér stað þegar engin takmörk eru sett viðurkenndri hegðun eða mannasiðum. Þetta á við þegar einstaklingum eru engin takmörk sett, og þau fá að gera nákvæmlega það sem þau langar til án viðmiðana um almenna hegðun. Dæmi um of mikið umburðarlyndi er þegar fólki sem leggur aðra í einelti er veitt umburðarlyndi, þegar kynferðislegu áreiti er veitt umburðarlyndi eða þegar hvaða viðteknar reglur sem er, eru brotnar og fyrir vikið þarf fólk að þola ónæði eða óþægindi af. Maður ætti til dæmis ekki að sýna innbrotsþjófi heima hjá sér of mikið umburðarlyndi.
Umburðarlyndisfasismi er hins vegar þegar enginn má vera annað en sammála því sem er pólitískt rétt. Fólk sem hrópar á annað fólk fyrir að gagnrýna hjónabönd samkynhneigða, gagnrýna of hraðan innflutnings erlends vinnuafls, og taka afstöðu gegn einhverju sem er viðkvæmt en jafnframt pólitísk rétt að sýna umburðarlyndi gagnvart. Fólk sem vill umbera rétt til fóstureyðinga getur verið kallað umburðarlyndisfasistar af þeim sem eru á þeirri skoðun að fóstureyðingar skuli banna. Oft eru þó þessi uppnefni ónákvæm og háð skoðunum þeim sem notar heitið.
Einhvers staðar mitt á milli skorts á umburðarlyndi og of mikils umburðarlyndis er hægt að finna heilbrigt umburðarlyndi, sem tekur eða tekur ekki afstöðu eftir að hafa skoðað forsendur málanna.
Hvað er dómgreind?
Dómgreind er hæfni til að skera úr um hvað er rétt og hvað er rangt, og meta alvarleika hins ranga athæfis.
Hvaða gildi hefur umburðarlyndi?
Umburðarlynd manneskja gefur öðrum tækifæri til að á þá verði hlustað af dýpt. Til að góð samræða geti farið fram þarf hinn aðilinn einnig að sýna umburðarlyndi. Ef annar aðilinn gerir það ekki, þá stoppar samræðan. Ef annar aðilinn sýnir of mikið umburðarlyndi, þá er viðkomandi líklega ekki að hlusta í raun og veru.
Ég trúi því í minni einfeldni að allir hafi þörf fyrir að þá sé hlustað, að minnsta kosti að einhverju leyti, og meti mikils þegar hlustað er af umburðarlyndi á þeirra dýpstu hugmyndir um hver þau málefni sem geta verið til umfjöllunar hverju sinni.
Hvaða gildi hefur góð dómgreind?
Góð dómgreind gerir einstaklingum fært að velja rétt eða vel þegar þörf er á. Góð dómgreind er gagnleg alla daga, og því virkari sem manneskjan er í starfi eða samskiptum við aðra, því mikilvægara er að dómgreindin sé í góðu lagi.
Getur umburðarlyndur einstaklingur verið með góða dómgreind?
Ég efast ekki um það, því að sá sem dæmir þarf að geta hlustað á ólík viðhorf hvort sem honum líkar þau eða ekki, sett sig í ólík spor og skorið úr um hvað er rétt og rangt. Ég held einmitt að umburðarlyndi sé lykillinn að góðri dómgreind, og líklega er góð dómgreind mjög mikilvæg til að greina úr hvenær umburðarlyndi er við hæfi og hvenær ekki.
Hvort er betra að vera umburðarlyndur hugsunarlaust eða með gagnrýnni hugsun?
Umburðarlyndi er gott ef það er viðhaft við réttar aðstæður, og maður getur aðeins komist að því hvaða aðstæður eru réttar fyrir umburðarlyndi með því að pæla í rökum hvers máls fyrir sig, og velta málinu fyrir sér útfrá eigin gildum. Slíkt mat verður að koma frá hverjum og einum.
Umburðarlyndi og dómgreind eru lykilhugtök þegar um sjálfstæða hugsun er að ræða. Það að ég vilji sýna Hannesi Hólmsteini umburðarlyndi segir sjálfsagt töluvert um mitt eigið gildismat.
Þegar manneskja viðurkennir að hafa brotið af sér, segir að hún hafi ekki áttað sig á af hverju brotið var brot, afsakar það og býðst til að bæta fyrir það af auðmýkt; þá vil ég frekar sýna viðkomandi umburðarlyndi en að dæma hann af hörku. Það er búið að dæma manninn. Ég þarf ekki að gera það líka.
Stórmerkileg umræða um Sesame Street, sem er þáttur sem ætlað er að hafa góð áhrif á börn og kenna þeim umburðarlyndi, en DVD diskarnir með þáttunum eru bannaðir börnum:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)