Af hverju er mikilvægt að sýna frumkvæði?
3.4.2008 | 22:48
Sá sem sýnir frumkvæði er ekki háður aðstæðum eða samstarfsfólki, heldur gerir hann aðstæður og samstarfsfólk smám saman háð hans góða frumkvæði, þar til að viðkomandi verður loks ómissandi.
Fyrsti ávaninn í bók Stephen R. Covey, The Seven Habits of Highly Effective People fjallar um mikilvægi þess að sýna frumkvæði. Ekki bara endrum og eins, heldur gera þetta að ávana.
Fyrst aðeins um ávana. Við höfum heyrt um ávanabindandi fíkniefni, að reykingar og drykkja sé slæmur ávani, að maður venjist á að bursta tennurnar kvölds og morgna og sleppi maður því líði manni illa.
Ávani er einmitt það að temja sér einhverja hegðun þar til að óþægilegt verður að framkvæma hana ekki. Þegar reynt er að hætta einhverjum ávana, reynist það flestum gífurlega erfitt nema þeir finni sér einhvern annan ávana í staðinn.
Til eru kenningar um að reykingar séu tengdar þörf okkar frá því við vorum nýfædd til að sjúga brjóstamjólk, að sumir þurfa einfaldlega alltaf eitthvað áreiti við varir sínar. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti þetta.
Að temja sér nýjan ávana er þannig í raun og veru að skipta út einhverju sem maður gerir af eðlishvöt yfir í eitthvað sem er líklegra til að skila meiri árangri. Ávaninn sem frumkvæðið sprettur úr er sá ávani sem margir tileinka sér, að bregðast við. Þeir sem bregðast ekki við neinu eru einfaldlega óvirkir og þurfa að hugsa sinn gang.
Sá sem bregst vel við orðum, athöfnum og aðstæðum getur verið öflugur starfsmaður og viðbragðsfljótur. Hann hefur vanið sig á góð viðbrögð og hefur áunnið sér þjónustulund. Þjónustulundin snýst um að bregðast við áreiti, og leysa málin með jafnaðargeði.
En svo kemur að því að einstaklingurinn uppgötvar að til er ávani sem getur skilað meiri árangri en viðbragðsflýtirinn, og það er að venja sig á að sýna frumkvæði. Sá sem sýnir frumkvæði er uppspretta nýrra hugmynda sem getur skilað miklu til samstarfsfélaga og viðskiptavina þannig að stofnunin eða fyrirtækið sem viðkomandi starfar hjá mun njóta vaxtar í formi nýsköpunar.
Ef við köfum aðeins dýpra í hugmyndina um tengslin á milli viðbragða og frumkvæðis, þá getum við séð að viðbrögðin eru endurvarp hugmynda sem eru gripin og síðan unnið með, á meðan frumkvæðið er uppspretta áreitis sem síðan verður unnið með. Ekki allar nýjar hugmyndir eru góðar, en ef við fylgjum 80-20 reglunni, má reikna með að ef maður venur sig á frumkvæði og að búa til eitthvað nýtt, þá munu gullkorn birtast inn á milli sem hægt er að vinna meira með.
En til þess að alvöru gullstöng verði til, þarf viðkomandi einstaklingur að vera heiðarlegur og umhyggjusamur, og tilbúinn til að gefa af sér þrátt fyrir að það geti verið erfitt að horfa á eftir eigin hugmyndum hverfa í annarra hendur. En á endanum skilar þetta sér, því að sá sem sýnir frumkvæði er að framkvæma í samræmi við eigin vilja, og sé viðkomandi heilsteyptur einstaklingur getur ekki annað en gott komið frá þessum vilja, sem á endanum mun skila sér í einhverju nýju og einhverju sem hægt er að byggja á.
Þetta er leiðin í rétta átt, en rétt eins og golfsveifluna þarf að þjálfa þennan hæfileika til að sýna frumkvæði þar til hann verður að ávana.
Myndband um frjálsan vilja úr einni bestu heimspekilegu kvikmynd sem gerð hefur verið, Waking Life:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvernig kemstu ofarlega á vinsældarlista bloggsins?
3.4.2008 | 08:48
Fyrir rúmri viku síðan ákvað ég að reyna við vinsældarlistann á blog.is. Skrif mín myndu ekki endilega snúast um það sem mér sjálfum finnst skemmtilegast að skrifa um: kvikmyndir, heldur ætlaði ég að leita eftir áhugaverðum vinklum á ólíkum málefnum.
Ég ákvað að takmarka mig við að skrifa ekki fleiri en tvær greinar á dag, og skipti ekki máli hvort þær væru fréttatengdar eða ekki.
Hugmyndin var að veiða lesendur með góðri fyrirsögn og leiða síðan áfram með auðlesanlegum stíl þar sem hugmyndum mínum er komið skýrt fram, án þess að skreyta þær of mikið með orðskrúði.
Ég var í grundvallaratriðum að velta fyrir mér hvort að maður öðlaðist vinsældir ef maður hefði sig eftir þeim. Niðurstaða mín er að sú sé raunin.
Það getur verið erfitt að skrifa texta um málefni sem maður hefur ekki lesið um en eru áhugaverð, og það fer smá tími í rannsóknir og pælingar, og svo þarf maður alltaf að huga að heilbrigðri skynsemi við skriftirnar. Ég passa mig á að geta rökstutt mínar skoðanir, og þegar ég hef ekki gert það hefur það verið vegna fljótfærni, og þá eru meiri líkur á að ég hafi rangt fyrir mér í viðkomandi máli.
En viðhorf mitt til svona skoðanagreina eins og ég hef verið að skrifa er frekar einfaldur: annað hvort hef ég rétt fyrir mér eða þá að hið sanna kemur í ljós. Ég reyni ekki að vera hlutlaus í mínum skrifum, heldur reyni ég að átta mig á málunum frá eins mörgum sjónarhornum og ég get ímyndað mér. Ef ég skrifaði bara frá eigin sjónarhorni væri lítið varið í þessar greinar, þær væru bundnar mínum eigin vanhugsuðu fordómum og yfirsjónum. Síðan skrifa ég út frá því sjónarhorni sem mér finnst áhugaverðast og mest krefjandi í viðkomandi máli.
Til dæmis, þegar ég skrifa um áróður gegn múslimum, um efnahagsástandið á Íslandi, þá reyni ég fyrst að fókusera á þá aðila sem gætu orðið fyrir mestum áhrifum vegna málsins. Í greinunum um áróður gegn múslimum eru þeir sem verða fyrir mestu áhrifunum saklaust fólk sem tekið er fyrir öfgafólk og mögulegar sjálfsmorðssprengjur, í þjóðfélagsgreinunum verður mér oft hugsað til gleymdu Íslendinganna sem hafa fórnað mörgum árum í námi erlendis með þeirri ætlun að koma aftur heim, og gefa af sér til þjóðarinnar, en geta það ekki vegna rándýrs húsnæðis.
Ég reyni að finna vandamál sem mér sýnast raunveruleg, reyni að setja mig inn í málið, og skrifa svo. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvernig sumt fólk ver sýnar skoðanir með kjafti og klóm, og er sama hvort það noti rök eða rökþrot til þess. Af einhverjum undarlegum ástæðum er mikilvægara fyrir sumt fólk að kaffæra aðra með eigin skoðunum, heldur en að kryfja sannleika málsins.
Þessi tilraun hefur tekist ágætlega. Í gær komst ég í 11. sætið á blog.is. Ég læt mér það duga, og reikna með að skrifa hér eftir aðeins um það sem mér finnst skemmtilegt, en ef eitthvað mál kveikir virkilega í mér og mér finnst umfjöllun vanta um það, þá getur vel verið að ég dembi mér út í djúpu laugina aftur.
Reyndar hef ég alltaf haft gaman af því að skrifa, og hef skrifað nánast látlaust í 18 ár. Flest hefur samt farið ofan í skúffu, og svo glataðist megnið af því sem ég hef komið á blað gegnum árin í flutningum, fellibyl og flóði. Blog.is hefur gefið mér tækifæri til að skrifa eitthvað sem er lesið, frekar en að hverfa ofan í skúffu og sjást aldrei meir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)