Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu?
30.3.2008 | 19:36
Egill Helgason spurði þessarar spurningar nokkrum sinnum í Silfri Egils í dag og einu svörin sem hann fékk frá viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra voru:
- Við erum með nefndir í gangi sem eru við það að skila svörum.
- Við ætlum að gera fræðilega rannsókn á þessum málum.
- Við þurfum að sjá hvernig málin þróast og skoða þau vandlega.
Spurningar sem ég vildi óska að teknar væru alvarlega:
1. Af hverju er verið að tala um að ríkið þurfa að standa betur við bankana þegar rökstuddur grunur er um að bankarnir stóðu fyrir gengisfellingunni, sem fólkið í landinu þarf að borga?
2. Bankarnir liggja nú á þúsundum milljörðum króna eins og drekar á gulli. Af hverju gefa þeir fólki ekki tækifæri til að lækka höfuðstóla á lánum þeirra fyrst þeim gengur svona vel og eru svona vellauðugir?
3. Af hverju gerir ríkisstjórnin ekki neitt í þessum málum?
4. Af hverju er ekki aðgerðum til að skattalækkana launa flýtt?
5. Af hverju er ekki enn búið að afmá stimpilgjöld, mál sem Björgvin G. Sigurðsson barðist mikið fyrir í stjórnaraðstöðu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvernig notum við tjáningarfrelsið sem áróðurstæki? Svör við athugasemdum greinarinnar: "Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?"
30.3.2008 | 11:14
Í gær og í dag hef ég fengið mörg áhugaverð svör við grein sem ég skrifaði um kvikmyndina Fitna, sem er áróðursmynd gegn múslimum og með myndum af staðreyndum fullyrt að allir múslimar sér hryðjuverkamenn. Sumir einstaklingar virðast ekki átta sig á að slíkur fordómafullur áróður er hættulegur, og sumir átta sig ekki á að þetta er áróður sem fer með rangt mál, sem er nokkuð alvarlegt mál í mínum huga. Svona fordómafullur áróður væri ekki hættulegur ef allt fólk áttaði sig á að þetta er fordómafullur áróður.
"Það að birting þessarar myndar særi tilfinningar einhvers manns er að mínu viti ekki nógu sterk rök og ég var ekki meðvitaður um að hægt væri að móðga fyrirbæri á borð við trúarbrögð eða siðferðiskennd." (salb)
Málið snýst ekki um móðganir eða særðar tilfinningar, heldur um rétt hópa eða einstaklinga til að æsa upp fordóma og hatur gegn ákveðum hópi fólks.
Fullyrðing kvikmyndarinnar eru sú að múslimar bera ábyrgð á hryðjuverkum. Það er einfaldlega ekki satt. Það er hins vegar satt að sumir einstaklingar sem trúa á Íslam beri ábyrgð á hryðjuverkum. Þessi yfirfæring sumra yfir á alla er fordómurinn ósanni.
Það vill svo til að leiðtogi öflugustu hryðjuverkasamtaka heims er öfgafullur múslimi, og að öfgafullir múslimar nota smávægilegustu rangfærslur sem olíu á eld hatursfullra fordóma, til að hafa áhrif á þá hófsömu og æsa þá til verka. Ég er ekki að segja að það sé rétt hjá öfgafullum múslimum að hóta kvikmyndagerðarmönnum lífláti, frekar en það er rétt hjá nokkrum einstaklingi að senda hótunarbréf til nokkurrar manneskju.
Kristnir öfgatrúarhópar eru lítið skárri, þar sem þeir ofsækja einstaklinga fyrir skoðanir sínar, brenna bækur, brenna hljómplötur, ofsækja fólk af öðrum trúarbrögðum, fremja jafnvel fjöldasjálfsvíg. Ég hef margoft verið vitni að umræðum þar sem allir kristnir eru sagðir klikk út af svona atriðum. Það þýðir samt ekki að allir kristnir séu klikk.
Dæmi: Ef gerð væri kvikmynd sem flokkaði alla Evrópubúa sem nasista og fasista, þar sem að það voru vissulega hópar innan evrópskra þjóða sem voru forsprakkar þessara öfga. Ísland væri tekið sem dæmi um land þar sem nasismi grasseraði vegna þess að til er hópur á Íslandi sem er gegn innflytjendum, og þar af leiðandi séu allir Íslendingar nasistar. Segjum að gerð yrði kvikmynd sem fengi mikla útbreiðslu og mælti með því að Íslendingar yrðu helst skotnir á færi þar sem þeir sæjust utan Evrópu, vegna þess að þeir eru nasistar og þar af leiðandi hryðjuverkamenn, væri þá rangt fyrir Íslendinga að vilja gera einhverjar ráðstafanir gegn slíkri kvikmynd?
Í mínum huga (á þessum tímapunkti) er varla hægt annað en að líta á umrædda klippu sem áróður ætlaðan til að æsa upp og vekja hatur á muslimum og/eða islam í heild... og það merkilega er, að það virðist vera að virka ! Það er ótrúlegt sem fólk lætur útúr sér í kommentum víða á netinu (og þá er eg ekkert sérstaklega að meina hér á mbl bloggum) Ekkert óalgengt að maður sjái: "nuke them" "hefjum krossferð" "útrýmum þeim" o.s.frv. o.s.frv. Óhugnarlegt.
Þetta er alveg komið í þvílíkt rugl. (Ómar Bjarki Kristjánsson)
Sammála.
Á að hengja boðbera válegra tíðinda? (Helga Guðrún Eiríksdóttir)
Nei. En boðberar válegra tíðinda verða að fara með satt og rétt mál, annars er hætta á að ráðist verði að saklausum. Er slíkt réttlætanlegt?
það þarf ekkert að (gera) í þessum málum nema fjarlægjar hömlur af tjáningarfrelsi og hafa þær svipaðar og eru í Bna (Alexander Kristófer Gústafsson)
Bandaríkjamenn hafa ekki samþykkt að fara eftir mannréttindarsáttmála sameinuðu þjóðanna, þó að upphaflegur höfundur þeirra hafi verið Bandaríkjamaður. Mannréttindarsáttmálinn ver til að mynda hópa gegn óábyrgum áróðri. Frelsi er ekki það að mega gera hvað sem er án afleiðinga. Frelsi er fyrir þá sem geta höndlað það, vonandi alla, en þeir sem misnota það verða að standa taka afleiðingum eigin máls og gerða. Ég vil frekar styðja mannréttindin en vinna gegn þeim. Hvað um þig?
Treð því hér inn - að í stað þess að taka svínakjöt og önnur matvæli sem ekki neytt af trúarástæðum - úr mötuneyti t.d. Austurbæjarskóla, hefði e.t.v.átt að bæta við daglegt úrval.
Væri nokkuð slæmt að leyfa "öllum trúar og/eða vantrúarhópum" að hafa sitt tákn/skjaldarmerki/píslarvott/ á skólagangaveggjum, í stað þess að banna það sem fyrir kann að hafa verið (t.d. krossinn)? (Beturvitringur)
Sammála því að almennt sé skynsamlegra að leyfa fleirum að vera með en að útiloka alla.
Þessi stuttmynd á sama rétt á sér og meistaraverk Richard Dawkins "Root of all Evil?"God that wasn't there, bara hina sjokkerandi "Deliver us from Evil" sem Amy Berg gerði. Ég kannast hins vegar ekki við að kaþóikkar, aðrir kristnir eða samkynhneigðir hafi hótað því að strádrepa þá sem stóðu að þessum kvikmyndum. sem og ágæta pæling Brian Flemming um the
Á að taka eitthvað sérstakt auka-tillit til þeirra sem lesa einhvern kóran? (Víðir Ragnarsson)
Kannski tökum við ekki eftir slíkum ummælum frá öfgafullum kristnum trúarhópum af því að við þekkjum slíka hópa aðeins betur en öfgafulla múslímska trúarhópa, og vitum að ekki borgar sig að taka mark á slíku rugli. Hljómar undarlega, en pældu í þessu. Sumt sem er frétt fyrir kristna er ekki frétt fyrir múslima og sumt sem er frétt fyrir múslima er ekki frétt fyrir kristna. Við erum ólík og okkur ber að virða það. Við þurfum að átta okkur á að mannvirðing skiptir máli, og hluti af mannvirðingu er að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og lífsviðhorfum, sama hver á í hlut.
Ég er nú ekki alveg að skilja þennan pistil - eftir svo hámenntaðan mann. Mynd Fitna fjallar um tengsl Islamstrúar við hryðjuverk, kúgun þegna Íslamskra ríkja og svo framvegis.
Í ljósi þess að allir helstu trúarleiðtogar Islamstrúar hafa í áratugi boðað og hvatt til að meðlimir annarra trúarbragða væru myrtir og heilu þjóðunum útrýmt, í ljósi þess að heilu ríkjunum er stjórnað í samræmi við Sharia lög og þar eru almenn mannréttindi einskis virt og það í nafni trúarinnar og í ljósi þess að hvar sem stórir hópar múslima hafa sest að og komið sér upp moskum og trúarbragðakennslu skapast ótrúleg vandamál sem við kannski heyrum minnst um - í ljósi alls þessa er myndin fullkomlega eðlilegt innlegg í umræðu og í anda þess lýðræðis og skoðanafrelsis sem við eigum að venjast. (salb)
Það skiptir nú ekki neinu máli hversu mikla eða litla menntun ég hef, allir hafa rétt á sínum skoðunum sama í hvaða stöðu þeir eru, ríkir sem fátækir, ómenntaðir sem hámenntaðir, Íslendingar sem fólk af erlendum uppruna, þú sem ég.
Geturðu nefnt hverjir þeir eru þessir helstu trúarleiðtogar Íslamstrúar sem hafa mælt með þjóðarmorðum og morðum á einstaklingum, og hversu margir þeir eru í samanburði við alla trúarleiðtoga Íslams? Rétt er að í sumum ríkjum er ekki aðskilnaður á milli ríkis og trúar. Það vandamál er til staðar víðar. Myndin er ekki eðlilegt innlegg, þar sem hennar markmið er að æsa upp fólk gegn múslimum, ekki að ræða hlutina á sanngjörnum forsendum.
Ég veit að mín orð hafa lítið að segja, smárödd sem fellur eins og stakur vatnsdropi á olíubál fordóma, gleyptur af hatrinu og offorsinu sem fylgir þeirri trúarsannfæringu sem tengd er slíkum áróðri.
Ég veit að það sem ég hef að segja er eins og lágvært hvísl í herbergi þar sem sjötíu öskrandi einstaklingar hrópa sama slagorðið, en í stað þess að fylgja straumnum, þá hef ég fullan rétt til að snúast gegn honum. Þann rétt hefur þú líka. Það er nokkur sigur unnin í því að fylgja ekki flæðinu hugsunarlaust.
Hvenær brýtur eitthvað gegn rétti okkar? Ef ég tel einhvern hafa á röngu að standa, má ég þá ekki gagnrýna hann t.d.? Væri það brot gagnvart öðrum? Eða á þetta einungis við um málefni eins og kynhneigð og trúarbrögð? Má ekki tala um eða gagnrýna þau? (Þorsteinn Ásgrímsson)
Tabú er allt annað mál. Mín skoðun er að ræða megi hvað sem er, en það verður að gera vel og af ábyrgð, en ekki hrauna út úr sér hverju sem er.
Flokkast teiknimyndin hér fyrir neðan sem áróður? Ef svo er, er um ábyrgan eða óábyrgan áróður að ræða? Skiptir þessi greinarmunur máli?
Allir myndir fengnar af síðunni Propaganda (áróður) á wikipedia.org.